fredag den 3. januar 2014

Broddfurufræ og stafafurufræ

Síðuhaldari rakst nýverið á þroskaða köngla á broddfuru, við opinbera byggingu í Kópavogi sem reis árið 1994. Gera má ráð fyrir að plantan hafi verið a.m.k. 5-6 ára við gróðursetningu og því er hún líklega um 25 ára gömul í dag. Broddfuru var fyrst sáð á Hallormsstað árið 1903, í árdaga skógræktar á Íslandi, en fræið kom frá Colorado [i]. Þau tré eru talin hafa borið fyrst fræ í kringum 35-40 ára aldur.[ii]
Köngull stafafuru.
Önnur furutegund hefur hins vegar átt mun betra gengi að fagna hér á landi en það hin harðgerða og fjölhæfa landnemaplanta stafafuran. Stafafura er algengasta furan á Íslandi og mun stærstur hluti ræktaðra plantna vera af kvæminu Skagway, frá innri hluta Lynn Canal í suðausturhluta Alaska, samkvæmt því sem segir m.a. í BS-ritgerð Hönnu Bjargar Guðmundsdóttur frá 2012. Þar segir einnig að hún sé blendingur Pinus contorta subsp. latifolia (e. lodgepole pine) og Pinus contorta subsp. contorta (e. shore pine):
Rannsóknir á stafafuru á Skagway benda til þess að hún sé að mestu leyti blendingur undirtegundanna latifolia og contorta (von Rudloff & Lapp, 1987). [iii]
Seinni tíma rannsóknir benda þó til að Skagway heyri til undirtegundarinnar latifolia.[iii a]

Munur á fræjum og könglum.
Broddfurufræ vigta um 24,5 mg hvert fræ að meðtöldum vængnum.[iv] Fræ stafafuru eru á hinn bóginn fremur smá og eru um 200 þúsund í einu kíló.[v] Það gera 5 mg á hvert fræ og þau eru því fimm sinnum léttari en fræ broddfuru. Stafafurufræ eru að jafnaði svört, en ófrjó fræ oft flekkótt, ljósari á lit eða dumbrauð. [vi]
Broddfurufræ fremst, svo stafafurufræ og loks birkifræ.
Könglar stafafuru eru þráfastir á trénu, svo erfitt getur verið að losa þá, en könglar broddfuru eru aðlosaðir og detta yfirleitt af stuttu eftir að fræin þroskast.[vii] Líkt og með stafafurufræ er engin þörf á kaldörvun eða öðrum undirbúningsaðgerðum fyrir sáningu á fræi broddfuru.[viii]

Ágætis fræfjöldi úr fjórum broddfurukönglum.
Biðkönglar stafafuru.
Stafafura getur framleitt svokallaða serotina köngla (e. serotinous, mætti kalla þá biðköngla á íslensku). Slíkir könglar opnast ekki og dreifa fræjum sínum nema hiti fari upp í um 50 gráður. Hér er um að ræða aðlögun stafafuru að tíðum skógareldum á heimaslóðum og geta könglarnir haldið fræjunum í 30-40 ár. Erlendis geta þeir þó opnast vegna hita frá sólinni eftir að skógur hefur verið felldur. Fræin þola ekki hitameðferð í lengur en 60 sekúndur. [ix] Til að ná fræum úr biðkönglum eru þeir soðnir eða hitaðir í ofni [x] en ef um fáa köngla er að ræða má hita þá yfir kertaloga í stutta stund og heyrist þá strax og sést hvernig trjákvoðan sem innsiglar fræblöð köngulsins losnar. Til þess að fá könglana til að opnast up á gátt þarf að líkja eftir rigningu, þ.e. bleyta þá aðeins:
Heat causes the resin to melt, then after wetting (which ensures that the fires are over), the cones open when they next dry out, the seeds fall to the bare ground to begin a new forest. [xi]
Í nemendaverkefni Sighvats Jóns Þórarinssonar og Sæmundar Kr. Þorvaldssonar við LbhÍ frá 2006 er því haldið fram að það séu meginladsfurur sem opna ekki köngla nema við hita, en könglar strandfuru eigi ekki við þetta vandamál að stríða.

Hér fyrir ofan er sjö sekúndna hljóð- og mynddæmi, biðköngull að opna sig sökum hita.
Fræ úr rúmlega 20 könglum stafafuru. Á efri myndinni
sjást fjórir biðkönglar sem ekki opnuðust.
Stafafurufræ, mismunandi stærð fræja og litir á frævængjum.
Fræstærð getur ráðist af aðstæðum en einnig af undirtegundum.
Þannig ber undirtegundin latifolia talsvert þyngri fræ en contorta [v].

[i] Skógræktarritið 1958, bls. 118,
http://skog.is/skjol/Rit1958/files/assets/basic-html/page118.html

[ii] Hákon Bjarnason: Um fræþroska á trjám. Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 1977, bls. 27.

[iii] Hanna Björg Guðmundsdóttir: Útbreiðsla stafafuru (Pinus contorta) undir Staðarfjalli í Suðursveit (2012),
http://hdl.handle.net/1946/10774

[iii a] Christensen, K.I.: A morphometric study of the geographic variation in Pinus contorta (Pinaceae). Nordic Journal of Botany 23, s. 563-575. 2005.
Sjá einnig: Knud Ib Christensen: Klit-fyr (Pinus contorta) i Danmark: variation og tilpasning. Dansk Dendrologisk Årsskrift 21 (2003), 5-49, http://www.dendron.dk/aarsskrift/docs/157.pdf

[iv] Germination of Pinus aristata Engelm. William H. Reid: The Great Basin Naturalist
Vol. 32, No. 4 (December 31, 1972), pp. 235-237
http://www.jstor.org/discover/10.2307/41711355?uid=3738288&uid=2&uid=4&sid=21103193599241

[v] James E. Lotan and William B. Critchfield - Lodgepole Pine,
http://www.na.fs.fed.us/pubs/silvics_manual/Volume_1/pinus/contorta.htm

[vi] PestWebNZ - Contorta pine,
http://pestweb.nzpps.org/print_species.php?sp=48

[vii] Fryer, Janet L. 2004. Pinus aristata. In: Fire Effects Information System,
http://www.fs.fed.us/database/feis/plants/tree/pinari/all.html

[viii] University of Connecticut Plant Database - Pinus aristata - Bristlecone Pine, Hickory Pine - Pinaceae,
http://www.hort.uconn.edu/plants/p/pinari/pinari1.html

[ix] Frida Carlstedt: Kan risken för spontan contortaföryngring elimineras genom hyggesbränning? (2009),
http://www.phd-forestry.se/Ingegerd-Backlund-Introduction-essay-100318.pdf

Sjá einnig Anderson, Michelle D. 2003. Pinus contorta var. latifolia. In: Fire Effects Information System,
http://www.fs.fed.us/database/feis/plants/tree/pinconl/all.html

[x] Native Plant Nursery - Glacier National Park - Pinus contorta Dougl.ex Loud. latifolia Engelm. ex S. Wats.,
http://www.nativeplantnetwork.org/Network/ViewProtocols.aspx?ProtocolID=236&referer=wildflower

[xi] Manor House Arboretum - Lodgepole Pine, http://www.pennine.demon.co.uk/Arboretum/Pico.htm

Úr Laufblaði Skógræktarfélags Íslands 1993.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar