onsdag den 11. januar 2017

„Hnífapör eiga að vera eins og venjulega af því að lífið á að vera eins og venjulega. Venjulegt líf þarf maður ekki að skammast sín fyrir, í venjulegu lífi tekur maður til í eldhúsinu, heldur öllu í röð og reglu á svölunum og sér um börnin. Það er nefnilega meira verk en margur hyggur. Að hafa svalir.“
- Fredrik Backman: Britt-Marie var hér (þýðing Jóns Daníelssonar 2015). 
Svalaræktun á matjurtum fær reglulega umfjöllun víða í þjóðfélaginu en minna er fjallað um trjárækt á svölum. Það er svo að trjárækt í stórum pottum og ílátum er ágætlega hentug fyrir runna og hægvaxta eða lítil tré. Ella er kjörið að nýta svalir fyrir uppeldi á trjáplöntum sem til stendur að setja á varanlegan stað síðar - reka þar persónulega gróðrarstöð.

Í Frækorninu nr. 35 sem kom út í lok árs 2016 fjallar Hafsteinn Hafliðason um skógrækt á svölum. Hann rekur réttilega að heppilegt sé að nýta veggpláss og hafa skóginn á hillum, annað hvort í pottum eða í bökkum, 12-15 cm háum og 25-30 cm breiðum. Ræktunin sem hann mælir með á mest skylt við smátrjárækt (bonsai-trjárækt) því þar er lýst aðferðum við að halda trjám í dvergvexti með því að taka 1/3 af toppsprota og 2/3 af hliðarvexti þegar vaxtartímabili lýkur og best sé að notast við barrtré.  

Suðursvalir, ágúst 2015.

Suðursvalir, desember 2015.
Frækornið nr. 35 (2. tbl. 216). Teikningin er eftir Helga Þórsson.

mandag den 25. april 2016

Kirsuberjatré - Sunburst sætkirsi sem dó

Það var bara tímaspursmál hvenær síðuhaldari tæki þátt í ávaxtatrjáatískubylgjunni sem skall hér á fyrir nokkrum árum.

Um miðjan ágúst 2014 var sett niður fuglakirsuber 'Sunburst' (Prunus avium 'Sunburst') frá Garðheimum, á suðursvölunum skjólsælu. Grunnstofninn er 'Colt' (Prunus avium x Prunus pserudorcerasus). 'Sunnburst' er frá Bresku Kólumbíu í Kanada og ræður við stutt sumur á meðan 'Colt' er upprunið í Englandi og takmarkar hæð trésins auk þess að rótarkefið er grynnra en ella.

Á thompson-morgan.com segir að óhætt sé að rækta 'Sunburst' í kerjum þegar það er ágrætt á grunnstofninn 'Gisela 5', sem er dvergstofn (e. dwarfing rootstock):
This cherry is well suited to growing in small spaces and 60cm (2') diameter containers, or trained against a wall. 
Colt er hins vegar skilgreindur sem meðaldvergstofn (e. semi-dwarfing). Tilraunin sem lagt var upp með gekk ekki betur upp en svo að sumarið 2015 vaknaði tréð ekki af vetrardvala og á endanum var það úrskurðað dautt.

Hér eru engu að síður ýmsar upplýsingar um Sunburst og umhirðu kirsiberjatrjáa almennt sem tengjast tilrauninni.

Annað hvort er að leyfa kirsuberjatré (kirsiberjatré) að verða stórt með mikla krónu og tína aldinin með hjálp stiga, eða velja eina grein sem topp og stytta hinar greinarnar niður í 20 cm og eru þá þrjú til fjögur brum skilin eftir. Ef greinarnar eru hins vegar orðnar sverar (tréð ekki verið snyrt lengi) þá skal miða við 50 cm lengd.

Afrakstur klippingarinnar er keilulaga króna sem auðvelt er að tína af og tekur ekki á sig mikinn vind. Klippt er við brum sem vísar út frá trénu svo ný grein vaxi ekki inn að eða samhliða stofninum.

Framangreind ráð um klippingu eru einkum ættuð frá Garðyrkjuframleiðslu LBHÍ. Á plantetorvet.dk er mælt með því að engin grein fái að standa lengur en í fjögur ár, ef ætlunin er að hámarka uppskeru:
Ved en regelmæssig foryngelse af grenene sikres hvert år mange søde kirsebær (ingen grene mere end 4 år gamle). 
Í Garðheimablaðinu 2011 er ráðlagt að leyfa hliðagreinum ekki að verða þykkari en sem nemur þriðjungi af þykkt stofnsins. Klippa skuli af þriðjung hliðargreina ár hvert til að yngja tréð upp.

Kirsuberjatré hjá Ingibjörgu í Hveragerði.

Tréð komið á svalirnar.
Ef tilbúinn áburður er notaður má hafa hliðsjón af ráði Óla í Nátthaga: Strá ca. 40 grömmum af blákorni í kringum tréð á ca. 60x60 cm flöt um miðjan apríl. Næringin nær þá að leysast upp og nýtast trénu. Lúka af lífrænum áburð á borð við moltu er einnig vel þegin og 10 grömm af garðafosfati ef þurfa þykir. Fínt er að gera þetta um 6 vikum fyrir blómstrun. Blómstrun er oft ekki fyrr en í byrjun júní t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu.

Sunburst er sjálffrjóvgandi yrki en annars eru sætkirsi það sjaldnast. Engu að síður hámarkar frjóvgun frá öðru yrki uppskeru. Sunburst er blendingur milli 'Van' og 'Stella' samkvæmt því sem segir á dyrkfrugt.dk.

Á vorin og á haustin þarf að vera á verði fyrir skordýrum sem gera sér mat úr blómum og laufum. Þetta eru einkum fiðrildalirfur. Hin svarta kirsiblaðlús / kirsuberjablaðlús (Myzus cerasi, n. kirsebærbladlus, e. black cherry aphid) getur einnig verið vandamál, sér í lagi ef hún er ekki stöðvuð áður en blöðin fara að krumpast. Hún verpir á brum og börk. Úðun með grænsápublöndu (brúnsápa virkar eins) og parafínolíu (Florina) fyrir laufgun mun hafa gefið góða raun gegn þessum vágesti.

Rótarskotunum sem koma af grunnstofninum sem Sunburst yrkið er ágrætt á má koma til og nota til ágræðslu ef vilji er fyrir hendi.
Sætt lítið 'Sunburst' í aldinlundinum í Yndisgarðinum, Fossvogi.

mandag den 5. oktober 2015

Sitkagreni í september

Sitkagreni var nokkuð í fréttum um miðbik september. Fyrst var sagt frá mælingu á hæsta tré landsins sem sýndi að tréð, sem vex á Kirkjubæjarklaustri, væri orðið um 27 m hátt. Það stóð í um um 25 m fyrir 3 árum síðan.


Um svipað leyti bárust fréttir af grisjun sitkagrenis við Miklubraut. Það hefur látið nokkuð á sjá sl. áratug vegna sitkalúsar og hugsanlega einnig vegna salts og tjöru. Líkt og systir þeirra við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri eru trén rúmlega hálfrar aldar gömul.


Mynd með frétt RÚV: "Saltrok skemmdi grenitréin [sic]" 23.07.2015Eftirfarandi er brot af áskorun Skógræktar ríkisins og skógræktarfélaga frá maí 2014, sem birt er á skogur.is. Áskoruninni var beint að Reykjavíkurborg og tengdist umræðu í fjölmiðlum um að trén væru ónýt og rétt væri að fella þau.
[...] Trén skýla bæði fyrir vindi og hávaða. Þau  eru mikilvæg til hreiðurgerðar þröstum og öðrum smáfuglum sem lifa meðal annars á lúsum og maðki á trjám og runnum. Trén stuðla þannig beint og óbeint að því að garðeigendur í Hlíða- og Háaleitishverfi úða minna eitri gegn meindýrum í görðum sínum. En grenitrén stóru taka líka í sig mikið svifryk vegna þess hve yfirborð barrnála og greina er gríðarmikið, jafnt sumar sem vetur. Samanlagt yfirborð sitkagrenitrjánna við Miklubraut samsvarar yfirborði fjölmargra knattspyrnuvalla. Rykið sest á trén allan ársins hring, líka á vetrum þegar svifryksmengun er mest, því barrtré fella ekki lauf á haustin. Rykið loðir vel við trén og í rigningu skolast það niður í jarðveginn í stað þess að svífa um með vindinum og berast í öndunarfæri manna þegar þornar.
    Rétt er að skora á forsvarsfólk umhverfismála í Reykjavík að leyfa sitkagrenitrjánum við Miklubraut að standa og hlúa vel að þeim með vægri grisjun og áburðargjöf. [...] 

Hér er svo mynd af trjánum þegar þau voru nýkomin niður.

Á þessum sama tíma stóð síðuhaldari í gróðursetningu sitkagrenis í Grimsnesi. Fallegur 35 gata bakki frá Kjarri í Ölfusi (tæpar 6.000 kr.), stórar tveggja ára plöntur. Moltu var blandað við hinn rýra jarðveg og dagblaðapappír notaður til að styrkja plönturnar í samkeppninni við grasið.

Líkt og segir á veg Skógræktarfélags Reykjavíkur nær sitkagreni "oft 30-40 metra hæð og verður 6-700 ára gamalt." Í heimkynnum sínum í Alaska hafa sitkagrenitré mælst yfir 60 metra há.


søndag den 4. januar 2015

Forðanæring í furufræi er gómsæt

Berfrævingar (e. gymnosperm, af gríska orðinu gymnos - nakinn) eru fræplöntur sem mynda ber (óvarin) fræ á milli hreisturkenndra blaða í könglum. Þetta má lesa í umfjöllun um köngla á heimasíðu Ágústar H. Bjarnasonar, ahb.is.
Fræin hafa einungis fræskurn (e. seed coat) til að hlaupa upp á en engan varnarhjúp eða blómhlíf (aldin) eins og dulfrævingar. Muninum á þessum tveimur af fimm fylkingum plönturíkisins er svo lýst í grein Hákonar Bjarnasonar, Um berfrævinga, í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1951-1952, bls. 23:
[...] hjá berfrævingum liggja eggin, og síðar fræin, ofan á fræblöðunum, en á dulfrævingum eru fræblöðin vaxin utan um eggið og mynda lokað eggleg. 

Auk fræskurnarinnar eru furufræ samsett af kími eða plöntufóstri (e. embryo) og forðanæringu eða egglegskjarna (e. nucellus). Forðanæringin er fiturík og full af næringu sem plantan sem vex upp af fræinu, kímplantan (e. seedling), nýtir eftir að fræið hefur spírað.

Forðanæringin þykir gómsæt, sér í lagi er fræ lindifuru vinsælt og er það í daglegu tali nefnt furuhneta. Vísast hér í umfjölunina Alternation of Generations á vef University of Miami, Department of Biology, www.bio.miami.edu.

Kímplantan skiptist í kímrót, kímstöngul og kímblöð. Kímblöð plantna af þallarætt eru 2-34 saman í einum krans (hvirfingu), á furu eru þau 4-24 saman. Til samanburðar skiptast dulfrævingar í einkímblöðunga og tvíkímblöðunga.

søndag den 2. november 2014

Skjólbelti

Það er gaman að spá í skjólbeltum. Almenn regla um hversu langt frá skjólbelti áhrif á veðurfar ná er um 20x hæð beltisins. Bestu áhrifin eru á milli 2x og 5x mesta hæð en þau fara svo mjög hverfandi þegar komið er í 10x mesta hæð.

Í ritinu "Designing and caring for windbreaks" [1] er greint á milli þriggja tegunda af skjólbeltum:
1. Híbýlaskjólbelti (e. farmstead windbreaks).
2. Akurskjólbelti (e. field windbreaks).
3. Snjógildrubelti (e. living snow fences)

Ekki er mælst til þess að skjólbelti stöðvi rok algerlega (sé mjög þétt), heldur hleypi rokinu í gegn og dragi þannig úr krafti þess með núningi. Lendi vindurinn á algerri mótstöðu finnur hann sér auðveldustu leiðina fram hjá (yfir trén) og getur magnast upp í vindhvirfla. Þó eru belti með miklum þéttleika góð sem snjógildrubelti og sem vindskjól fyrir búfénað.
Þéttleiki nokkurra tegunda.
Á vef Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) er eftirfarandi vísiregla gefin upp í tengslum við vindstefnu [2]:
A barrier should be established perpendicular to the direction of the prevailing wind for maximum effect. To protect large areas, a number of separate barriers can be created as parts of an overall system. When the prevailing winds are mainly in one direction, a series of parallel shelterbelts perpendicular to that direction should be established; a checkerboard pattern is required when the winds originate from different directions. Before establishing windbreaks or shelterbelts, it is important to make a thorough study of the local winds and to plot on a map the direction and strength of the winds.

Nokkur hugtök.
Mælt er með því að innst í hverju belti sé runnagróður, því næst há lauftré og loks sígræn tré. Passa þarf að barrtrén verði ekki undir í samkeppninni við lauftrén. Lauftré veita mun meira skjól fyrir vindi á sumrin heldur en sígræn tré.

Um plöntuval o.þ.u.l. hefur ýmislegt verið skrifað [3]. Í Fræðslurit um skjólbeltarækt kemur fram eftirfarandi um þéttleikann:
"Bestu skjóláhrif og stærsta skjólsvæðið fæst ef ophlutfall (holprósentan) er 40 - 50%. Við þannig belti má greina hreyfingu handan við beltið án þess að það sjáist hvað þar er á ferð."
Hér að neðan eru nokkrir stórir útdrættir úr grein eftir Ólaf Njálsson, Skjólbelti - Gerð þeirra og skjóláhrif sem birtist í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1984.
Þegar vindurinn blæs hornrétt á góðan skjólgjafa,nær skýlda svæðið út til 30xH (xH þýðir sinnum hæðskjólgjafans) skjólmegin og allt að 6xH áveðurs viðskjólgjafann. Minnstur vindhraði (70-80% skjól) mælist í fjarlægðinni 3-6xH skjólmegin. Skjólprósentan minnkar síðan jafnt með aukinni fjarlægð frá skjólgjafanum [...]
[...]
Sjálf skjóláhrifin stafa af núningi loftsins við skjólgjafann. Loftstraumurinn brotnar upp í marga smáa hvirfla, þegar hann fer í gegnum hann, og við það dregur úr vindhraðanum. Þéttur skjólveggur gefur gott skjól næst sér, en veldur meiri hættu á vindköstum ofanfrá, þ.e.a.s. hann gerir vindhvirflana stærri og kröftugri heldur en þeir voru fyrir. Tilraunir í vindgöngum og reynslan úti á víðavangi hafa sýnt, að 35-50% opflötur dregur mest úr vindköstum og vindhraða, og stærst skjólsvæði fæst á bak við skerm með 50% opfleti. Skjólgjafar sem eru opnir að neðan skapa undirsúg og hafa lítil skjóláhrif eða engin.
Opflötur er í greininni skilgreindur sem “sá hundraðshluti skjólflatar sem er op, þ.e.a.s. þéttleiki eða gegnhleypni skjólgjafans.” Áfram segir síðar:
Lögun skjólbeltanna varðar miklu um skjóláhrif þeirra. Straumlínulögun [belti með hallandi hliðum] veitir litla mótstöðu og er óheppileg í skjólbeltaræktuninni. Besta lögunin er lóðréttur veggur á móti vindinum, því að skjólgjafinn verður að veita sem mesta mótspyrnu gegn honum. Einnig valda skjólgjafar með óreglulegt yfirborð minni hættu á vindköstum en sléttklippt limgerði.
[...]
Mikilvægt er að staðsetja skjólgjafann þvert á skaðlegustu vindáttina, og þá sem er tíðust. Ef skaðlegasta vindáttin fellur ekki saman við þá tíðustu, er talið best að setja skjólgjafann þvert á þá tíðustu, því að hún veldur til langframa mestu sliti á öllu lifandi og dauðu efni.
[...]
Blási vindurinn ekki hornrétt á skjólgjafann, verður skjólsvæðið minna. En hliðrunin getur orðið nokkuð mikil, allt að 45 gráðum, áður en alvarlega dregur úr skjólinu. Jafnvel þegar vindurinn blæs samsíða skjólbeltunum, er hægt að finna mælanleg skjóláhrif af þeim allt að 5xH frá báðum hliðum þeirra. Þetta kemur af breytilegri vindhreyfingu og núningi vindsins við skjólbeltin.
Þetta um staðsetninguna er einkar umhugsunarvert. Ef við yfirfærum það t.d. á Suðurland þá er norðaustanáttin algengust (eða ANA þegar ofar dregur), þurr og þrálát. Hún er skæðari en sunnanáttin sem einnig er algeng, blaut og köld.

Þá kemur í grein Ólafs eftirfarandi fram um áhrif skjólbelta á hitastig:
Við minnkandi vindhraða eykst hiti í skjóli vegna minni loftskipta (minni blöndun við kaldari loftmassa). Hitaaukningin er mælanleg út til 20xH. Lofthiti sólarhringsins hækkar að meðaltali um 0,5-2,0 °C, og jarðvegshitinn í allt að 20 cm dýpi um 0,5-1,0 °C yfir vaxtartímann (hámark 3 °C).
Að því er varðar afrakstursaukningu í ræktun kemur fram að hún sé mest í fjarlægðinni 2-5xH og minnki jafnt og þétt út að 20xH, þar sem hún sé vart mælanleg. Af öðrum áhugaverðum punktum í greininni má nefna að lauftré gefa 40% meira skjól að sumri en vetri og að nauðsynlegt getur verið að þynna skjólbelti ef þau verða of þétt, halda þeim engu að síður sem þéttustum við jörðu.


Heimildir og fræðsluefni:

[1] www.lrconline.com/Extension_Notes_English/pdf/wndbrk.pdf

[2] Special forest plantations
http://www.fao.org/docrep/T0122E/t0122e0a.htm

[3] Fræðslurit um skjólbeltarækt.
http://www.nls.is/fraedslaskjolb.htm

Val tegunda í skjólbelti og nytjaskóga.
http://www.landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/0/df199f21a84f8b180025716b00561e65?OpenDocument

Energy-Efficient Windbreaks.
http://www.renovateyourworld.com/HowTo_Library/Energy_Efficient_Windbreaks-Trees_and_Shrubs-A1621-2.html

onsdag den 10. september 2014

Rósareynir ber ávöxt

Eftir 4 mögur ár frá því hann var keyptur ákvað rósareynirinn loksins að sýna sínar bestu hliðar og blómstra.
Mikið af blómum í maí.

Í heildina um 10 bleik ber í ágúst.

tirsdag den 19. august 2014

Að hlyni ungum hlúð - meira um garðahlyn

Glöðum, opnum huga var
gengið sumri mót
og grannar hendur ruddu nýja vegi.
Barist var í landvörn,
að hlyni ungum hlúð.
Víða bárust tónarnir frá teigi
 - úr kvæði Kristjáns frá Djúpalæk, ort um Þorstein skáld Valdimarsson að Þorsteini látnum (birtist í Skógræktarritinu 1980).

I. Saga hlyns í íslensku flórunni
Hlynleifar hafa fundist víða um land til staðfestingar á því að fyrir um 7 milljónum ára uxu á Íslandi "a.m.k. tvær hlyntegundir og virðast báðar náskyldar núlifandi tegundum í austurhluta Norður-Ameríku". Hér er vísað til hins núlifandi reyðarhlyns/rauðhlyns (Acer rubrum) hvers frændur dóu út þegar loftslag fór kólnandi á Íslandi á efri hluta Míósentímabilsins. Tegundin er ein þeirra sem ekki áttu afturkvæmt til Íslands af sjálfsdáðum, en í þeim hópi eru einnig elri, greni, fura, þinur og ösp (sbr. þó blæösp). Um þetta má lesa nánar í grein Leifs A. Símonarsonar og Walter L. Friedrich, Hlynblöð og hlynaldin í íslenskum jarðlögum í Náttúrufræðingnum 52 (1-4), 1. maí 1983, bls. 156-174.

Samkvæmt færslu á Wikipedia hófst jarðsögutímabilið sem kennt er við míósen fyrir um 23,03 milljónum árum síðan og lauk fyrir um 5,332 milljónum ára síðan. Talið er að Ísland hafi orðið til sem eyja í upphafi Míósentímabilsins. Orðið miocæn er komið úr grísku og samsett úr menoos fyrir minna og kainos fyrir nýtt - minna nýtt (færri hryggleysingjar en á jarðsögutímabilinu á undan sem kennt er við ólígósen).

Það loðir við ræktun garðahlyns á Íslandi að hann er talinn dekurplanta sem þarf skjól til þess að dafna. Síðuhaldari telur þetta ögn orðum aukið. Þó er hann viðkvæmur fyrir haustfrostum og ekki til stórræðanna á vindasömum stöðum fyrstu æviárin. Frá þessu er sagt í grein Jóhanns Pálssonar í Skógræktarritinu 1986, Gömlu trén í Reykjavík:
[Garða]hlynurinn er það hitakræfur í uppvextinum, að í köldum árum kelur mestallan ársvöxtinn og plantan bætir sáralitlu við sig, nema þegar betur árar.
Lystigarður Akureyrar tekur í sama streng og lýsir garðahlyni sem meðalharðgerðu tré sem "á erfitt uppdráttar fyrstu 10 árin". Ótvírætt er að hann launar skjól fyrir mesta næðingnum og sérstaklega eru laufblöðin viðkvæm fyrir roki fyrst á vorin.

Eins og sagði í síðustu hlynfærslu er hlynur skuggþolinn, einkum í uppvextinum.

Hlynur í Kópavogsdal, þar sem áður stóðu smábýli
í landi Digranesbæjar, í skjóli fyrir norðan- og austanáttum.

Sami hlynur í októberklæðum.
Hlynur í skjóli aspa í Hveragerði. 
Stálpað ungviði sett niður sem götutré í Helsinki. 
Óheppinn hlynur í Fossvogsdal (2013).
Garðahlynur á Klambratúni. Kjarvalsstaðir í baksýn.
Hlyntré eru ekki algeng á Íslandi og fyrst og fremst er þau að finna í elstu hverfum Reykjavíkur, gróðursett á árunum fyrir og eftir 1930. Þessi tré voru flutt inn frá Danmörku, fyrst og fremst fyrir tilstilli Einars Helgasonar sem rak gróðurstöð við gamla Kennaraskólann [...]
segir í umsögn Skógræktarfélags Íslands um tré ársins árið 2000, en það var 9,6 m 70 ára garðahlynur við húsið Sólheima á Bíldudal í Arnarfirði.
Tré ársins 2000. Myndin birtist í
DV en ljósmyndara er ekki getið.
II. Klipping og notkun
Garðahlynur er klipptur eftir laufgun fram að jólum segir í DV, Gróður og garðar 13. maí 1992. Á vef Lystigarðs Akureyrar er því bætt við að honum blæði mikið eftir klippingu og því sé best að klippa og snyrta krónu að sumri eða hausti. Hafsteinn Hafliðason hefur bent á að almennt sé litið svo á að sár eftir klippingar lokist fljótast sé klippt í lok júní júní eða í júli.

Sums staðar erlendis er hlynur notaður í þykkt og hávaxið hekk, sér í lagi lágvaxnari afbrigði á borð við Acer campestre (hagahlynur, e. field maple / hedge maple) og Acer ginnala (síberíuhlynur, e. amur maple). Sá síðarnefndi hefur verið ræktaður hér á landi.

Margir telja unnt að fá hlynsýróp úr hlyntegundum sem ræktaðar eru á Íslandi. Hið rétta er að það er einkum sykurhlynur (Acer saccharum) sem er notaður í slíka framleiðslu en hann þrífst illa hér. Sykurinnihaldið mun vera lægra og bragðið af garðahlynsýrópi ólíkt hlynsýrópi.
In Minnesota, the four species used for producing maple syrup are: sugar maple (hard maple) Acer saccharum; red maple (soft maple) Acer rubrum; silver maple (soft or cutleaf maple) Acer saccharinum; and boxelder (Manitoba maple) Acer negundo
(Af umn.edu - íslensk nöfn: sykurhlynur, rauðhlynur, silfurhynur, askhlynur.)
III. Fjölgun
Fræ eru yfirleitt tínd um það leyti þegar lauf eru fallin eða að falla, október er álitlegur mánuður. Þau má tína þegar þau eru enn græn, hafi þau náð fullri stærð. Vængirnir eru slitnir af og fræið sett í geymslu eða sáð strax að hausti. Blaðlús sækir í hlyn og iðulega er nokkuð af blaðlús á fræjunum (á stönglum fræklasanna), þegar lauffall hefur orðið.

Á vefnum datreestore.com kemur fram að haustsáning sé ákjósanlegri en tæknikaldörvun hlynfræs (preferred to artificial stratification). Á Pfaf.org segir það sama en bent á að gróðurkassi sé til þess fallinn að auka spírun. Vefurinn homeguides.sfgate.com mælir með því að fræ sé þakið með 0,3 cm (1/8 tommum) af jarðvegi yfir fræin og þjapað að. Þá má bæta við þunnu lagi af grófum sandi til að tryggja raka við spírun.

Á síðastnefndu síðunni er einnig upplýst að ekki skuli þurrka fræ niður fyrir 35%.
Hlynfræ tínd í seinni hluta október (2013).
Stækkaður bútur af myndinni fyrir ofan, blaðlýs á fræklösunum.
Fræplöntur um miðjan júní (2014), sáð var í opið beð haustið áður.
Fjölgun hlyns af fræi, með sveiggræðslu og með græðlingum, af pfaf.org:                                
Seed - best sown as soon as it is ripe in a cold frame, it usually germinates in the following spring. Pre-soak stored seed for 24 hours and then stratify for 2 - 4 months at 1 - 8°c. It can be slow to germinate. Seed should not be dried below 35% moisture[98]. The seed can be harvested 'green' (when it has fully developed but before it has dried and produced any germination inhibitors) and sown immediately. It should germinate in late winter. If the seed is harvested too soon it will produce very weak plants or no plants at all[80, 113]. When large enough to handle, prick the seedlings out into individual pots and grow them on until they are 20 cm or more tall before planting them out in their permanent positions.
Layering, which takes about 12 months, is successful with most species in this genus.
Cuttings of young shoots in June or July. The cuttings should have 2 - 3 pairs of leaves, plus one pair of buds at the base. Remove a very thin slice of bark at the base of the cutting, rooting is improved if a rooting hormone is used. The rooted cuttings must show new growth during the summer before being potted up otherwise they are unlikely to survive the winter. Cultivars can be budded onto rootstocks of the species. Any grafting is best carried out in September rather than February.
IV. Tvær tilraunir með garðahlyn á berangri
Síðsumars 2012 festi síðuhaldari kaup á tveimur garðahlynum sem ræktaðir höfðu verið af fræi í Hafnarfirði og plantaði þeim á skjóllitlum stöðum í sumarhúsalandi í Grímsnesi. Það kom ágætlega út.

Fyrir ofan er sá stærri í ágúst 2012 og aftur í ágúst 2013, þá er strax komið smá toppkal. Á þriðju myndinni er sama tré í júní og ágúst 2014 þegar hann hafði kalið niður, hugsanlega vegna þess að honum var óvart plantað í kuldapolli. Nýr vöxtur frá rót var kominn vel á veg í ágúst. Í riti Ólafs Sturlu í Náttahaga Aukin fjölbreytni í yndisskógrækt (2009) er skýrt tekið fram að ekki skuli staðsetja garðahlyn "í lægðum þar sem kalt loft safnast fyrir".


Sá breiðari í ágúst 2012 ...
... og í ágúst 2013.
Í lok júní 2014 var hann enn í sæmilegum gír.
Í hinni tilrauninni voru þrír garðahlynir úr Þöll settir niður í grónu sumarhúsalandi nálægt Hellu. Tveir í sæmilegu skjóli en einn sem stóð berskjaldaður fyrir sunnan- og vestanáttum og að nokkru fyrir norðanátt. Ári seinna litu þér út eins á meðfylgjandi mynd.


V. Þeir stækka og stækka
Garðahlynur gróðursettur árið 1922 að Laufásvegi 49 (Sturluhallir) var valinn borgartré Reykjavíkur 2014. Hlynurinn mældist 10,2 m á hæð og bolurinn 2,02 m í ummál þar sem hann er sverastur. Hér að neðan eru stærðir á garðahlynum árið 1991, einum við Bragagötu og tveimur við Laufásveg.
Þórarinn Benedikz: Stærð ýmissa trjátegunda á Íslandi.
Skógræktarritið 1991, bls. 64.
Tréð við Laufásveg 59 í ágúst 2014.
Á meðfylgjandi línuriti sést vaxtahraði garðahlyns í Vesturbænum frá 1952 til 2002. Ritið er úr greininni Fimmtíu ára vaxtar- og þroskasaga hlyns í Reykjavík eftir Sigurð Þórðarson í Garðyrkjuritinu 2002 [PDF 13,86 MB]. Meðalhækkun 20 cm á ári en meðaltalshækkun síðustu 15 áranna dottin niður í rúmlega 11 cm árlega. 
Sögunni fylgir að fyrstu árin hafi allt að þriðjungur árssprotanna kalið
í haustfrostum en það hafi ekki komið að sök vegna þess hve kröftugur
vöxturinn var á hverju sumri. Tréð var orðið 10,25 m í feb. 2002.