mandag den 13. september 2010

Að lifa og hrærast í keri

Súlublæösp
Líf við þröngar aðstæður.
Líklega er einn helsti munurinn á því fyrir tré að búa í mold úti í garði (eða úti í náttúrunni) og hinu, að búa í afmörkuðu íláti, sá að rótarkerfi þess kemst ekki jafn langt til að leita næringarefna og vatns við síðarnefndu aðstæðurnar. Það má tryggja rótunum vatn og næringu í pottinum til að þær megi fæða tréð, en plássleysið getur kallað á bæði rótar- og krónusnyrtingu líkt og sagt er frá hér að neðan. Með því að snyrta tréð er minna af því til að fæða og almenna reglan er víst að stærð rótarkerfis skuli samsvara stærð plöntunnar.

Annar munur er sá að hitastig í potti er með öðrum hætti en í jörðu niðri. Plantan er ekki jafn vel einangruð fyrir snöggum breytingum á hitastigi og er því næmari fyrir bæði kulda- og hitasveiflum. Það getur verið fínt á sumrin, en verra þegar snöggfrystir og í umhleypingum á veturnar.

Tré og runnar dafna líklega ekki eins og þeim er ætlað að gera af náttúrunnar hendi, þegar rótarkefi þeirra er niðurnjörfað og hitasveiflur eru tíðar í undirlífinu. Hins vegar geta þau vaxið og dafnað vel við slíkar aðstæður ef hlúð er sæmilega að þeim. Vefurinn er fullur af fróðleik um pottaplöntur og einnig má hafa gagn og gaman af umfjöllun í gömlum blaðagreinum, t.d. á timarit.is.

Sól skiptir oft minna máli en skjól.
Í fylgiblaði Þjóðviljans, Garðar og gróður, 5. júní 1986, setur ónefndur höfundur fram eftirfarandi viskumola:
Enginn garðskiki er svo lítill að ekki megi rækta í honum, jafnvel þótt sólin nái aldrei niður í hann. Svalir, verandir og sólstofur eru tilvaldir staðir fyrir gróður og enginn vandi að koma sér þar upp gróðurkössum með trjám, sumarblómum eða fjölærum blómum, sem mikla ánægju má hafa af. Í sólarlausum garðskika má einnig koma upp lítilli gróðurvin, því nú er mikið til af plöntum, sem dafna vel þótt þær fái ekki beina sól. Þeir sem glímt hafa við garðrækt vita að sólin skiptir oftast minna máli en skjólið. Aðalatriðið er að skýla nýjum plöntum vel og sjá um að þær fái næga vökvun, ef langir þurrviðriskaflar koma.
Blómapottar 25x25x25cm

Hitastig lækkar í roki, uppgufun úr blöðum eykst og laufblöð sumra plantna geta rifnað í verstu hviðunum. Eflaust sakna mörg tré sólarljóssins ekki svo mikið þegar þeim er sæmilega skýlt. Hjá okkur í Kópavoginum veita báðar svalirnar skjól fyrir sunnanáttinni, hin ríkjandi austanátt herjar á austursvalirnar en Esjan skýlir norðursvölunum að mestu fyrir roki að norðan (Esju-skjól).
Ríkjandi áttir í Kópavogi, mæling gerð við Marbakkabraut, ekki svo langt
frá léttgarðinum á svölunum okkar.
(Úr skýrslu heilbrigðiseftirlits Hfj. og Kópav., sept. 2008)
Sumar plöntur þurfa bæði sól og sæmilegt skjól til að njóta sín almennilega, t.d. rósir ef þær eiga að blómstra og ávaxtatré ef þau eiga að gefa almennilega af sér. Gamalt hollenskt 'máltæki' segir að 1% meira ljós gefi 1% meiri uppskeru (skv. Vilmundi Hansen á fésbók í septe. 2010).

Jarðvegur, samsetning plantna, áburður o.fl.
Buxus og rósareynir
á eftirmiðdegi í september.
Vilmundur Hansen skrifaði pistilinn "Plantað í ker" á síðuna 'ræktaðu garðinn þinn' á fésbók 29. apríl 2009:
[...] Sömu reglur gilda um jarðveg í kerum og í beðunum. Það verður að vinna jarðveginn vel og gæta þess að frárennsli sé gott.
[...]
Ekki er nauðsynlegt að skipta um jarðveg í kerunum árlega, nóg að gera það á nokkurra ára fresti ef jarðvegurinn er blandaður með áburði á vorin. Ef skipta þarf um jarðveg má nota venjulega gróðurmold í kerið. Hægt að hressa upp á gamla mold með því að blanda hana með lífrænum áburði, moltu eða sveppamassa og nokkrum kornum af tilbúnum áburði.
[...]
Vel kemur til greina að planta fallegum runnum í ker og þeir sem vilja geta sett sumarblóm í kring til að auka litadýrðina. Sígrænir runnar eins og lífvíður (Thuja), buxus (Buxus), barrlind (Taxus), sýprus (Chamaecyparis) einir (Juniperus) og jafnvel bambus (Thamnocalamus) gefa kerunum fallegan svip og standa langt fram eftir vetri. Blómstrandi runnar koma líka vel út í pottum og kerum og nægir að nefna töfratré (Daphne mezereum), lyngrósir (Rhododendron), kirsuberjatré (Prunus) og ýmsa kvisti (Spiraea) og rósir (Rosa).
Í fylgiblaði DV, Hús og garðar 3. júní 1998, er fjallað um ræktun trjáa og runna. Þar segir að þótt slíkar plöntur geti hjarað við þröngan kost, "þurfi jarðvegur að vera minnst 40-50 cm djúpur fyrir runna en tvöfalt dýpri fyrir tré svo að viðunandi vaxtarskilyrði náist og rætur hávaxinna trjáa hafi nægilegt hald. Gras og jurtir komast af með minna."

Beyging orðsins 'ker'
(af bin.arnastofnun.is)
Snöggfrysting róta.
Guðríður Helgadóttir fjallar um 'Vetrarskýlingu' í Mbl. 17. nóv. 1998 og hefur þar eftirfarandi að segja um tré í kerjum:
Ræktun á plöntum í alls kyns kerum hefur aukist mjög undanfarin ár. Oft verða mikil afföll af þessum plöntum yfir veturinn vegna þess að jarðvegurinn í kerunum gegnfrýs snögglega og ræturnar eru ekki alltaf nógu harðgerðar til að þola slíkt.
Hægt er að draga kerin í skjól upp við húsvegg og helst á skuggsælan stað þannig að sólin valdi ekki miklum usla síðla vetrar. Þá þarf hins vegar að muna eftir því að vökva plönturnar í þíðviðri.
Í sama streng tekur 'starfsmaður í Gróðrastöðinni Mörk' í fylgiriti DV, Garðar og gróður, 5. júní 1991:
Ýmis tré og runna má rækta á svölum. Nefna má runnamuru, íslenskan eini, gljámispil og dvergfuru en margar aðrar plöntur koma til greina.
[...]Best er að hafa möl í botninum og moldina þar ofan á. Þykkt malarlagsins fer eftir því hve kerið er djúpt. Ýmsar fleiri plöntur má rækta á svölum en ef þær eiga að standa úti þarf að kanna hvort ræturnar þola frost. Rætur rósa t.d., þola frost illa og það sama á við um fleiri plöntur.
Þótt fjallarifs (alparifs) þoli nánast hvað sem er, nýtur það sín best í sæmilega rúmum potti.

Á einni erlendu vefsíðunni var mælt með því að pottar væru um 45 cm í þvermál og á hæð til þess að rætur fengju sem besta einangrun. Í grein um svalagarða í DV, Hús og Garðar 1. júní 1994 er mælst til þess að pottar séu minnst 50 cm á dýpt og mælt með smágerðum sígrænum gróðri og litlum trjám og runnum.

Ein þumalputtaregla sem víða er gefin upp er að rætur í keri teljist í reynd lifa 2 "USDA Hardiness" svæðum (vaxtarsvæðum) lægra en þær sem eru í jörðinni. Þennan fróðleik um vaxtarsvæði / kuldasvæði má finna á vef Blómavals:
Á hvaða "kuldasvæði" er Ísland' [-]. Hérna þar sem ég bý er yfirleitt 7, en hvað er á Íslandi vonandi getur einhver frætt mig um þetta. 
Talað er um cold zone (kuldasvæði) útfrá þoli ýmissa plantna í ræktun, ég hef mest verið að skoða rósir, við miðum okkur við Norðurlöndin og þá er er zone 8 nyrst í Noregi, Svíþjóð og sambærilegt i Finnlandi 7. Plöntur sem lifa á svæði 5-8 á norðurlöndunum ættu að geta þrifist hér, en það sem er á svæði 5 þarfnast meiri umhirðu og þarf að velja besta staðinn í garðinum. Vona að þetta gefi einhverja hugmynd.
Vaxtarsvæði (harðgervissvæði) samkvæmt
evrópska harðgerviskerfinu (European hardiness zone map).
Að bonzai-a tré, jarðvegsskipti, pottastærð - "of langur ræktunartími í takmörkuðu vaxtarrými" (pottrót).
Á gardeningknowhow.com má finna eftirfarandi punkta:
  • Containers should also be as wide as they are high in order to provide the best possible insulation to the roots.
  • Container-grown trees should be supplemented annually with slow-release fertilizer or use a liquid feed at regular intervals. 
  • Refresh the soil each spring by removing the loose, dry topsoil and replacing it with fresh, compost-enriched soil.
  • Since the size of a tree is usually proportional to the size of its root system, containers, in most cases, will restrict its ultimate size. However, if a tree does begin to outgrow its container, there are options. You can prune the roots back and replant it into the same container or transplant it in another location. Root pruning is a similar technique to bonsai and will help to keep the tree small.
Grein um snúnar rætur í fylgiriti Mbl.,
Garðurinn, 14. maí 2000.
Smellið til að stækka.
Þetta róta-heilræði er að finna á gardenweb.com:
Even if you are not interested in "bonsai-ing" the trees, I think they might benefit from root pruning to stay happy in a container. If the root outgrows a container the tree might go into decline and eventually die. With regular root (and top) pruning, you can probably keep the trees alive indefinitely!
Mynd frá piccsy.com
Á vef Oregonháskóla, oregonstate.edu, er talað um að minnka rótarkefið um einn þriðja sem vísifingursreglu, þegar tréð er orðið of stórt fyrir ílátið sitt.
If a tree starts to outgrow its container, you have several choices. Plant it in the ground, plant it in a larger container, or prune the roots back by one third and plant it back in its current container. Root pruning is a similar technique to bonsai and will help to keep the tree small.
Tískufyrirbrigðið pottagarðar.
Garðrækt í pottum er víst í nokkurri tísku þessi misserin, a.m.k. meðal bloggara, samkvæmt skýrslu sem fyrirtækin Husquarna og Gardena gáfu út 2010, sbr. meðfylgjandi úrklippu.

Úr skýrslu sem unnin var fyrir tvö amerísk fyrirtæki 2010.
Smellið til að stækka.


onsdag den 11. august 2010

Jarðarberjaakrar að eilífu

Let me take you down | 'Cause I'm going to Strawberry Fields | Nothing is real

Jarðarber af óþekktri tegund eru ræktuð á austursvölunum. Í byrjun sumars voru þar 3 plöntur, tvær sem okkur voru gefnar á síðasta ári og ein frá 2008, en nú eru þær orðnar hátt í 20. Tveimur af upprunalegu plöntunum var nefnilega leyft að dreifa sér villt og galið með renglum (e. runners) í allt sumar.
Þröngt á þingi og renglur út um allt.
Vöxturinn hefur verið með ágætum og eins og segir á blomaval.is þurfa jarðarber "ekki að standa í beinni sól, þau eru góð á milli runna sem varpa ekki of miklum skugga á þær." Þessar plöntur fá nóg af morgunsólinni þegar henni er að skipta.

Það væri auðvitað æskilegt ef meiri sólar nyti við, enda gæfi þá plantan af sér fleiri ber. Á havenyt.dk segir frá leyndarmálum jarðarberjaræktunar:

Jordbær trives som plante bedst i halvskygge under skovlignende forhold, men den sætter mange flere bær i fuld sol. Groft sagt, er hemmeligheden ved at dyrke jordbær, at plante dem i solen og give dem de forhold, som planterne behøver for at trives, nemlig fugtighed helt op i jordoverfladen og masser af humus i jorden.

(Stutt þýðing: Kjöraðstæður jarðarberjaplöntunnar eru hálfskuggi en fleiri ber fást í fullri sól. Í grófum dráttum er leyndarmálið við að rækta jarðarber næg sól, rakur jarðvegur og nóg af lífrænum efnum í jörðinni).

Reyndar eru sumar plantnanna saman í potti, sem getur verið óæskilegt. Eins og segir á howdididoit.com á að vera bil á milli til að tryggja að hver planta fái næga sól:

Unless you have very large containers, place only one plant in each container; strawberry plants should be about two feet [60 cm] apart from each other so that they get plenty of sunlight.
Þessar er búið að klippa frá móðurplöntunum.
Til mikils er vænst af þeim næsta sumar.
Á askmumnow.com segir að 8-10 cm skuli vera á milli plantna í pottum og að pottarnir skuli vera um 30 cm víðir. Byrja má þó á minni potti og þumalputtareglan er, eins og segir á gardenaction.co.uk, "If the plants outgrow the pot (the roots start popping out of the base of the pot) then pot into a slightly larger pot."

Auðveldara er að athuga með ber og annað sem tengist plöntunum ef þær eru ekki að flækjast hver í annarri.
Ein ný í myndarlegum potti á svalagólfinu.
Fyrir óvana getur verið erfitt að átta sig á hvernig fjölgun með renglum á sér stað og hvernig slíkri fjölgun er stjórnað og hún aðstoðuð. Í stuttu máli er best að bíða eftir því að litlir vísar að rótum, nokkurs konar hnúar, byrji að myndast við endann á renglunni og þá er renglan fest niður í mold, t.d. með hálfri bréfaklemmu, svo hún fjúki ekki til.
Tvær í takinu í þessum potti.
Klippa má á tengslin við móðurplöntuna þegar dótturplantan er orðin nægilega rótföst og búin að mynda fínan vöxt ofan moldar.

Á eftirfarandi síðu eru fínar leiðbeiningar um 'runners' og annað sem tengist jarðarberjum, með skýringarmyndum:
makearainbow.typepad.com/.../2007/06/strawberry_runn
makearainbow.typepad.com/.../2007/10/potting-on-the
makearainbow.typepad.com/.../2008/03/strawberries
Brotin bréfaklemma notuð til að halda á meðan plantan festir sig.
Renglur sem nýgræðingar reyna að skjóta út eru
klipptar af jafnóðum svo þeir einbeiti sér að eigin vexti. 
Um jarðarber og ræktun þeirra er aðeins fjallað í Mbl. 21. júní 2004:

Jarðarberin má rækta á ýmsan hátt, t.d. í beði, kerjum eða pottum eða gróðurskálum. [...]. Til að flýta uppskerunni er best að rækta jarðarber í gróðurreit eða undir hlíf á sólríkum og skjólgóðum stað. Þau vaxa samt ágætlega án aðstoðar en uppskeran er þá seinna á ferðinni. Gæta þarf að vökvuninni sérstaklega um blómgunar- og sprettutímann.

Auðvelt er að fjölga jarðarberjaplöntum því [þær] mynda renglur sem síðan ræta sig í moldinni. Eigi ekki að fjölga [plöntunum] eru þessar renglur fjarlægðar strax, svo plantan leggi ekki of mikla orku í vöxt þeirra.

Skynsamlegt er hins vegar að taka frá gróskulegar renglur til fjölgunar, því plönturnar duga ekki nema í u.þ.b. 5-7 ár. Renglunum er þá stungið í mold og með tímanum vaxa upp nýjar plöntur.


Einnig er ræktað kál í kerjum á svölunum og hefur það braggast og bragðast vel, þótt reyndar hafi hvítkálið misheppnast og hnúðkálið ætli ekki að verða fullorðið.

Blaðsalat 'lollo rosso'
Eikarlaufasalat
Úr  myndbandi Jim Sturgess með
laginu Strawberry Fields Forever

mandag den 26. juli 2010

Áburðargjöf til gjalda

Rauðrifsið fær gjöf á næsta ári, gasgrillið fær ekkert.
Sumarið 2011 verður áburðargjöfin tekin með trompi, lítill poki af Blákorni ætti að koma manni langt.

Blákorn er klórsnauður NPK-áburður* með kalki, magnesíum, brennisteini og bór, skv. vef Byko. Húsasmiðjan útskýrir stafina eitthvað á þessa leið:
N - Köfnunarefni = Framleiðsla og vöxtur.
P - Fosfór = Orkubúskapur, rótarkerfi og vefir.
K- Kalí= Vatnsbúskapur, rótarkerfi og vefir.

Nokkra punkta um áburð setur Vilmundur Hansen niður í pistlinum "Áburðarmolar", á síðunni 'ræktaðu garðinn þinn' á facebook 6. apríl 2009:
- Varasamt er að bera meira en 10-15 grömm af tilbúnum áburði kringum ungar trjáplöntur sem nýbúið er að gróðursetja. Þremur til fjórum árum seinna má auka skammtinn í 30- 40 grömm.- Áburðarsölt í tilbúnum áburði leysast upp á nokkrum vikum ef honum er dreift á yfirborð. - Áburður má ekki lenda upp við stofn plantna heldur á að dreifa honum um það bil 5 til 10 sm frá þeim.
Kornin eiga víst ekki að snerta plöntur beint, hvorki rætur né annað, því þær draga í sig vökva og virka eins og salt (brennir arrrhh).

Fyrir þá sem hugsa illa í fermetrum og grömmum er meðfylgjandi tafla af Gardabaer.is mjög handhæg (sami texti er á vef Húsasmiðjunnar):

 Fyrri áburðargjöf ca. 15. maíSeinni áburðargjöf ca. 15.-20. júníDæmi um áburðartegundAthugasemd
Grassvæði3 kg/100 fermetra2 kg/100 fermetraBlákorn/Graskorn
Sumarblóm3-5 kg/100 fermetraBlákorn
Fjölæringar3 kg/100 fermetra2 kg/100 fermetraBlákorn
Matjurtir10 kg/100 fermetra3-5 kg/100 fermetraBlákorn og ÞrífosfatTil helminga af hverri teg.
Tré og runnar10 grömm pr. plöntuBlákorn/Trjákornca. kúfuð matskeið

Auglýsing úr DV 7. maí 1997

Hversu oft?
Líkt og fram kemur í grein um tré og runna í DV 3. júní 1998 skal bera áburð á "í gróandanum eða frá því að jörð þiðnar og fram á mitt sumar en helst ekki síðar." Byko.is segir að bera skuli Blákorn á um 3-4 sinnum yfir vaxtartímann frá maí fram í miðjan júlí.

Þessi umfjöllun er úr grein í Mbl. 11. maí 1997:
"YFIRLEITT er sá gróður sem fer í algjöra vanhirðu sá gróður sem ekki fær áburð. Það er sá gróður sem lýsnar og maðkurinn sækir fyrst í. Það er beint samhengi á milli trjánna, runnanna, blómanna og grassins og við þurfum að gefa þessu öllu áburð tvisvar og helst þrisvar á sumri," segir Jón Júlíus Elíasson, skrúðgarðyrkjumeistari. Margir hafa það fyrir reglu að gefa áburð 20. maí, 20. júní og 20. júlí.
[1] Fyrsta áburðargjöfin á að vera með köfnunarefnisríkum áburði, (t.d. græðir 1a eða græðir 6) en köfnunarefnið örvar vöxt plantnanna og nýtist því vel þegar þær eru að koma úr vetrardvala.[2] Síðan er gott að gefa blákorn eða köfnunarefni í annað skipti um það bil 20. júníKöfnunarefnisríkan áburð á hins vegar ekki að gefa síðsumars, því að það er ekki rétt að pína plöntur til þess að halda áfram vexti fram á haustið. [3] Þess vegna er rétt að gefa fosfór- og kalíríkan áburð í kringum 20. júlí. Fosfór og kalí fara ofan í rótina og stöngulinn og byggja plönturnar upp fyrir vetrardvalann auk þess sem fosfórinn nýtist vel á blómgunartímanum í júlí og ágúst.

Auglýsing úr Mbl. 4. maí 2003
Köfnunarefni er ríkt í kaffikorg sem fellur til á flestum betri heimilum, ekki verra að geta nýtt hann. Sú saga gengur að kaffikorgur sé súr, en hið rétta mun vera að sýran fari að mestu úr við uppáhellingu.

Hreinn Óskarsson skógarvörður gefur í skyn að byrja megi að bera á gjafir strax í apríl í grein á rit.is, það er væntanlega háð því að frost sé úr jörðu:
Spurning sem margir hafa velt fyrir sér er hvenær má bera á gróður að vori. Þetta er breytilegt og fer m.a. eftir tíðarfari. Vitað er að rótarvöxtur hefst áður en laufblöð fara að springa út. Í tilraun sem gerð var með áburðargjöf á skógarplöntur hér á landi kom í ljós að þær nýttu áburð sem var borinn á í lok apríl. Um var að ræða birki og greni og voru þessar tegundir ekki byrjaðar að laufgast á þessum tíma, en rótarvöxtur var hins vegar byrjaður. Flest ár má bera á trjáplöntur í byrjun maí og þá ætti áburðurinn ekki að fara til spillis í vorrigningum. Ef seinleystur áburður er notaður má bera á fyrr, enda leysist slíkur áburður upp á nokkrum mánuðum og jafnvel árum.
Frost fer fyrr úr jörðu þegar um pottaðar plöntur er að ræða og minna þarf að hafa áhyggjur af vorleysingum í slíku vernduðu umhverfi.
Afganskur bóndi ber áburð á valmúablóm - kakoola.com
Verð
Verðið á Blákorni virðist svipað 2010 og það var í verðkönnun NS 2009 hér að neðan, Byko selur pokann á 1.190 og Garðheimar á 1.430 kr.

 5 kg poki

Blómaval
1.699

Býflugan og blómið
1.245


Garðheimar
1.290

Olís
1.320
N1
1.495

Byko
1.290* NPK hlutföllin í Blákorni eru 12-12-17 og á meindyravarnir.is hvert þessara efna útskýrt:

KÖFNUNAREFNI (N)
Köfnunarefni er í próteini, hvötum og blaðgrænu. Skortur dregur úr vexti, einkum blaða. Ungar jurtir verða ljósgrænar en eldri gular og visnar. Grös skríða fljótt. [...]

Köfnunarefni eykur blaðvöxt. Köfnunarefnisríkar blöndur gefur maður gjarnan snemma á vorin. Eftir því sem líður á sumarið gefur maður gjarnan blöndu með litlu köfnunarefni. Mikil köfnunarefnisgjöf mið- eða síðla sumars leiðir til mikils vaxtar fram eftir hausti og eru plöntur þá ver búnar undir veturinn. Haustið er tími "herðingar fyrir veturinn".


FOSFÓR (P)
Fosfór er í kjarnsýrunum og efnum sem notuð eru við orkuflutning. Skortur dregur úr vexti. Litur plantna verður dökkgrænn eða blágrænn. Rætur verða óeðlilega litlar og blómgun seinkar. Flestar jurtir þurfa 1-1,8kg. á þúsund fermetra á ári.

Fosfór skortur hefur áhrif á blómgun og er plöntunum nauðsylegt, þó í litlu magni. Skorti þrífosfat, minnkar vetrarþol. Þrífosfat hefur reynst vel gegn mosa í grasflötum.


[Vilmundur Hansen bætir við í grein um jarðveg í DV 8. maí 2003: Fosfór eykur rótarvöxt, flýtir fyrir blómgun, aldin- og fræmyndun. Fosfórskortur lýsir sér í því að blöðin verða rauðblá á neðra borði en síðan gul. Rótarvöxtur verður rýr og það dregur úr blómgun.]

KALÍ (K)
Kalí er nauðsynlegt vegna salt- og sýrujafnvægis, en er ekki í lífrænum efnum í jurtunum. Skortur veldur grágrænum, gulgrænum eða gulum lit. Nytjatún þurfa allt að 10 kg á þúsund fermetra á ári.

Kalí hefur áhrif á vöxt rótarkerfisins og eykur vetrarþol, er nauðsynlegt. Talsvert kalí er í íslenskum jarðvegi og þarf því ekki að gefa mikið K á útjörð og móa, t.d. fyrir beit húsdýra eða með litlum skógarplöntum.


[Vilmundur Hansen bætir við í DV 8. maí 2003: Kalí er nauðsynlegt við ljóstillífun sem er undirstaðan í lífstarfsemi plantnanna. Kalí eykur frostþol, mótstöðu gegn þurrki og sveppasjúkdómum. Skortur lýsir sér í því að ung blóð verða gul og visna, einkum á blaðjöðrunum. Gott er að bera á aukaskammt afkali um miðjan júlí til að draga úr líkum á kali.]
Auglýsing úr riti Garðyrkjufélags Íslands
dreift með Mbl. 27. maí 2010

onsdag den 21. juli 2010

Súlublæösp - reðurtákn?


Aspir þykja ekki flottur pappír í dag, mörgum finnst þær frekar til plássins og sögur eru sagðar af innrás þeirra í klóakleiðslur.

Í lok júní 2010 var ljóst að það væri e.t.v. pláss fyrir eina plöntu enn á austursvölunum, hún þyrfti að vera mjó um sig og vilji var til þess að hún væri þokkalega hávaxin (næði upp fyrir handrið) og hefði slatta af temmilega stórum laufum. Í einkagarðinum við húsið sem stendur við Garðyrkjustöðina Borg í Hveragerði er þessi feikilega háa trésúla og um leið og við komum auga á hana vissum við að svarið væri fundið.

Súluösp /súlublæösp (Populus tremula 'Erecta') er útlitslega hæverskari en breiðari systur sínar sem hafa dreift sér um allar borgir og sveitir sl. 30 ár í því sem nefnt hefur verið 'aspafárið mikla' (Mbl. 2001 - umfjöllun um Garðahlyn). Greinarnar vaxa upp meðfram stofninum og því er hún lítið að byrgja manni sýn eða hindra för að gasgrillinu. Svo er að sjá hvort hún komist í klóakið í gegnum pottinn sem hún stendur í.

Á Englandi er hún kölluð 'sænsk ösp' (Swedish Aspen), þar sem hún er upphaflega frá Svíþjóð. Laufblöðin eru rauðleit þegar þau myndast, geta verið alveg rauð í sumum tilfellum. Þetta er vegna þess að ný blöð innihalda enga blaðgrænu í fyrstu, skv. sherwoods-forests.com. Hins vegar eru þau með tvö karótenóíð, lycopene og xanthophyll (gul og rauð litarefni). Blaðgrænan kemur svo með sól og hlýja loftinu og blöðin fá þennan fallega græna lit.

Þetta er ösp, þannig að hún vext hratt og hentar það vel ungu óþolinmóðu fólki. Greinarnar eru bundnar saman til þess að þær vaxi enn betur samhliða stofninum. Í görðum stækkar hún víst um ca. 0,5 m á ári, eitthvað á hún því eftir að teygja sig upp í svalirnar fyrir ofan næsta sumar.

Virginíuheggur er hlífa skal


Hjá gróðrastöðinni Kjarr í Ölfusi keyptum við þennan Virginíuhegg um miðjan júlí 2010. Tréð var sett á norðursvalirnar og fær því ekki mikið beint sólarljós, það verður að vera í lagi því plássið er eiginlega búið austanmegin.

Plantan hefur það til brunns að bera að breiða ekki mikið úr sér, vera nokkuð há (yfir 1,5 m) og síðast en ekki síst er hún fjólublá! Það mætti giska á að heggurinn sé 2-3 ára og verðið var 2080 kr.

Á vef Borgar segir um þennan hegg, sem kemur víst ekki frá Virginíu:

"Hæð 4-6 m, blöð fyrst græn síðan dökk purpurarauð. Blóm hvít í hangandi klösum. Harðgerður."

Á vefnum Tré og runnar segir að plantan vilji sól, en vonir standa til þess að þessi láti sér nægja birtu en takmarkaða sól, e.t.v. blómstrar hann þá eitthvað minna.

Virginíuheggur Prunus virginiana er ekki jafn þekktur og frændi hans Heggur prunus padus, en prunus-ættkvíslin er víst af rósaætt skv. grein í Mbl. frá 1994. Þar segir um venjulegan hegg að hann sé "mjög skuggþolinn en blómgast því betur þeim mun meiri birtu sem hann nýtur."

Samkvæmt höfundi greinarinnar er heggurinn mjög harðger "þótt reyndar þurfi að fylgjast vel með honum og úða í maðksumrum". Þessu síðastnefnda getum við vel trúað því fjólublái vinur okkar er svolítið götóttur eftir maðk. Samkvæmt Guðríði Helgadóttur (Mbl. 1997) kjamsar maðkur á trjám frá vori og fram í miðjan júní og býr sér þá til púbu. Mánuði síðar vaknar hann til lífsins sem fiðrildi, makast og verpir við brum heppinna trjáa. Hann verður nógu feitur í júníbyrjun til að hann sjáist með berum augum. Best að hafa augun hjá sér næsta vor og sumar.

Samkvæmt Wikipedia færslu Prunus virginiana verður hann ekki hærri en 5 m, sem er ágætt því þá fer hann ekki mikið upp fyrir svalir nágrannans fyrir ofan. Á annarri vefsíðu stóð reyndar að hann geti orðið 6-9 m og vildi sól eða hálfskugga. Gróðrastöðin Mörk segir um yrkið okkar 'Lúsifer' að hann verði 5-7 m, sé skuggþolinn og þurfi nokkuð skjól. Elstu blöðin roðni upp úr miðju sumri og síðsumars sé allt tréð orðið vínrautt.

Enska nafnið á trénu er 'Chokecherry' og vísast þar til bragðsins af berjum þess, sem mun vera biturt og 'ómilt' (e. astringent). Samt má nota þau í sultu, sjáum til með það.

Rauðber, rifsber, rauðrifs

Aðeins þrjár tegundir trjáa hafa vaxið hér frá því fyrir landnám (en eftir síðustu ísöld), skv. skog.is. Það eru birki, ilmreynir og blæösp. Í Dvöl, 1.tbl. 9. árg. 1941 skrifaði Hákon Bjarnason: " Ribsrunnar eru víða ræktaðir hér á landi, enda er ribsið svo harðgert, að það sáir sér út af sjálfsdáðum, næstum því á hverju ári. Má nú orðið fara að telja það meðal innlendra plantna."

Ingibjörg í Hveragerði seldi okkur tvo stæðilega rfisberjarunna (rifs, ribs, rips) í júní 2010 á einhverjar 1400 kr. stykkið og voru þeir settir þétt saman í stóran gróðurkassa úr Húsasmiðjunni.

Líklega er um að ræða hið 'gamla og góða' ribes spicatum - Röd Hollandsk. Á síðunni hjá Ingibjörgu er því lýst með einföldum hætti: "Berjarunni 1,5-2 m. Rauð ber. Harðgerður." 
Blómakassinn úr Húsó
(við lökkuðum okkar)

Þeir hafa dafnað ágætlega þótt ekki sé von á mikilli uppskeru í ár. Hver rauðrifs-planta getur gefið af sér 6 kg við bestu aðstæður og ef heppnin er með fáum við kannski 2-4 kg af hvorum næsta sumar. Ef hámarks uppskera á að nást þarf garðarifs "þokkalega sólríkan og skjólgóðan stað" segir Ágústa Björnsdóttir í Mbl. 6. júní 1992.

Reyndar hefur leiðinda blaðlús verið að herja á runnana undanfarnar vikur og þær eru að sjálfögðu ekki vel liðnar. Notast hefur verið við umhverfisvæn meðöl á borð við grænsápublöndu og þaraáburð (Maxicrop), ef lúsin fer ekki að hverfa getur hún átt von á mjólkurbaði eða dauðdaga af völdum sítrusolíu.

Klipping nýrra rifsrunna
(smellið til að stækka)
Mikið er skrafað um rétta klippingu rifsberjarunna í greinum og pistlum og tönnlast á því að mesta uppskeran sé af 2-5 ára greinum. Eftirfarandi bútur er af vef Benedikts Björnssonar búfræðings:
Þennan runna klippum við því eins og birkikvistinn.  Við tökum elstu greinarnar alveg niður við rót og skiljum ekki eftir stubb. Kúnstin er þó að taka þær áður en þær fara að skyggja á miðju runnans þannig að nýjar greinar hætti ekki að koma upp úr miðju hans.  Endurnýjun þarf alltaf að vera í gangi með 5-7 aðalstofna sem ekki eru of miklir um sig þannig að alltaf séu að koma nýir frá rótinni.  Þannig hleypum við 1-2 nýjum stofnum upp frá rótinni á hverju ári og klippum um leið 1-2 gamla stofna alveg niður við rót.

Klipping eldri rifsrunna
(smellið til að stækka)
Á vefnum Making a rainbow eru fínar leiðbeiningar um klippingu rifsberjarunna, með myndum.

Kristinn H. Þorsteinsson upplýsir í Garðinum, fylgiblaði Mbl. 12. maí 2001, að rauðribs blómstri "mest á greinum sem eru tveggja til fimm ára en eftir það dregur úr blómguninni, þó ekki svo mikið að hann mælir með því að hver grein fái að lifa kringum 10–12 ár. Þannig verði runninn stór og stæðilegur."

Rifs-ættkvíslin er frekar skuggþolin og margir runnar innan hennar 'grjótharðgerðir' eins og Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur lýsir í grein í Mbl. 1998. Greininni lýkur á þessari skemmtilegu smásögu:
Starfsmaður í ónefndri garðyrkjustöð í Reykjavík var eitt sinn spurður að því hvað væri hægt að rækta norðan megin við hús, hálfpartinn undir tröppum, í norðangarra og seltu. Starfsmaðurinn hugsaði sig aðeins um og sagði svo við garðeigandann: "Hefurðu íhugað að rækta bara stein?"

tirsdag den 20. juli 2010

Smáhæðartréð rósareynir


Rósareynirinn var keyptur hjá Borg í Hveragerði sumarið 2010. Það fóru nokkur blöð af honum í roki þegar hann slóst við handrið, en annars virðist honum líða sæmilega.

Ekki eru mikið af íslenskum upplýsingum um hann á netinu, en við eigum víst von á bleikum berjum ef heppnin verður með okkur.

Við vorum til í að prófa reyni en vildum þó ekki yrki sem yrði mjög stórt. Breski vefurinn Trees-online segir að sorbus rosea sé lítið tré (small height tree) og að gera megi ráð fyrir að það nái 4 m hæð á 10 árum. Á þeirri síðu er tréð selt í 12 lítra ílátum sem stungið er í jörðina, ekki berróta eða með rótar'hnaus' sem settur er ofan í holu. Á kevockgarden.co.uk segir að tréð verði einungis 3 m hátt og verði jafnstórt á breiddina.

Á alentradgard.se segir að Rosafruktig Rönn sé lítið fallegt tré og á spjallsíðunni alltomtradgard.se segir að Sorbus rosea hafi einungis nýlega verið flokkaður sem sérstök tegund. Áður hafi hann verið talinn undirtegund Kasmírreynis, Sorbus cashmeriana (Pink). Á shootgardening.co.uk segir að rósareynir gangi einnig undir nafninu Sorbus cashmiriana 'Rosiness'. Á liverpoolbotanicalsociety.co.uk er sagan sögð með þessum hætti:
Sorbus rosea was introduced to cultivation through Ness [Botanic Gardens], it was wild sourced from Gillgit in Pakistan in the 1980’s and has whitish pink berries.
Á vef Borgar er reyndar engum rósareyni lýst, en þessi lýsing á kínareyni gæti passað, ef sölumaðurinn var að plata okkur:
Hæð 3-6m, runni eða tré, ljósbleik blóm, rauðbleik ber, dökkgræn fínleg blöð. Rauðgulir til rauðir haustlitir. Nægjusamur, þarf gott frárennsli.
Um reynitré almennt segir Vilmundur Hansen á 'ræktaðu garðinn þinn' síðu sinni á Facebook að þau verði 60-140 ára gömul.
Viðbót júlí 2012:
Í Frækorninu 30 sem gefið er út af Skógræktarfélagi Íslands er rósareyni lýst á eftirfarandi hátt: "[...] margstofna runni, 3-4 m á hæð. Blóm og aldin eru ljósbleik. Rauðgulir til rauðir haustlitir."

Ég get ekki sagt að þessi lýsing passi við aðrar lýsingar á plöntunni eða okkar reynslu, rósareynir er alls enginn runni. Í Frækornssneplinum er jafnframt að finna þessa lýsingu á kasmírreyni og öðrum áhugaverðum reyni sem kenndur er við rúbín: 
Kasmírreynir (Sorbus casmiriana) er margstofna runni, 4-6 m á hæð, með ljósbleik blóm og hvít ber. Haustlitir blaða eru gulir til appelsínugulir og miðtaug eldrauð. 
Rúbínreynir (Sorbus bissetii) er lágvaxið tré eða stór runni, 3-4 m á hæð. Blómsveipirnir eru ljósir og reyniberin bleik sem lýsast. Laufblöðin verða rauð á haustin.
Svo virðist sem lýsingin á kasmírreyni sé annmörkum háð, því hann virðist geta verið margstofna tré líka. Hér eru t.a.m. lýsingar af vef garðyrkjustöðvarinnar Borg, úr riti OR, Sumarhúsið (2008) og af vef Garyrkjustöðvar Ingibjargar:
Hæð 5-7 m lítið fínlegt tré sem laufgast snemma á vorin. Blóm ljósbleik, síðan stór hvít ber. Rauðgulir haustlitir. Harðgerður. (Borg)
 [...] oftast margstofna með uppréttar aðalgreinar en frekar slútandi hliðargreinar og getur orðið um 10 m á hæð. Blóm kasmírreynis eru ljósbleik, berin eru hvít að lit og haldast lengi á trénu fram eftir hausti, bragð þeirra þykir frekar rammt. Haustlitur blaða er gulur en stundum slær á þau appelsínugulum blæ með eldrauðri miðtaug. (OR)
Bleik stór blóm í klösum í júlí, stór hvít ber á haustin, rauðir haustlitir. Harðgerður og vindþolinn. Margstofna tré 2-5 m. (Ingibjörg)

mandag den 19. juli 2010

Blátoppur er frísklega dökkgrænn

Blátoppur er "þéttgreindur runni er getur orðið um og yfir tveggja metra hár." segir í blaði OR, Sumarhúsið frá 2008. 

Blátoppurinn í júlí 2010 

Blátoppurinn er fyrsta plantan sem komið var fyrir í svalagarðinum, keyptur í Blómavali ásamt buxusnum sumarið 2008. Hann óx nokkuð árið eftir en varla hægt að tala um hann sem "þéttvaxinn runna", en þannig er þessari plöntu almennt lýst. Líklega er það skortur á áburðargjöf, því skuggþolinn á hann að vera og "mjög harðger" sbr. lýsing Lystigarðs Akureyrar. Til að þétta blátopp má klippa hann á vorin. Hann verður allt að 3 m að sögn Hafsteins Hafliðasonar í Fbl. 27. júlí 2006.

Þessi blátoppur var brautryðjandi í svalaræktuninni og það var óneintanlega gaman að sjá hann koma aftur til lífsins eftir fyrsta veturinn í rokinu á svölunum. Kannski verður 2011 sumarið sem hann slær í gegn og fær "margar grannar greinar" eins og Blómaval segir að hann eigi hafa, hann á að dafna "mjög vel um allt land, innan garða sem utan." Blátoppsplöntur "þrífast allar vel nema nokkrar plöntur frá Kamtsjatka sem fara af stað of snemma á vorin og kala nær árlega", segir í ritinu Kálfamói sem Reykjavíkurborg gaf út 2008.

Blátoppurinn þegar hann kom
heim, í júní 2008
Reyndar virðist blátoppur vera ertandi fyrir slímmhúð og buxus hættulegur hjarta og taugakerfinu, skv. lista Lýðheilsustöðvar yfir 'skaðlegar jurtir'. Best að leyfa börnunum ekki að kjamsa á þessum.

Í fylgiblaði Mbl., Garðurinn 14. maí 2000 er fjallað aðeins um Blátopp:
Blátoppur er sá toppur sem helst er klipptur, en hann er mjög veðurþolinn og sterkur. Almennt má segja um toppa að maðkar sækja ekki mikið á þá og þeir eru skuggþolnir. Ýmis afbrigði eru til af blátoppi og er bláberjatoppurinn Þokki eitt þeirra sem náð hefur talsverðri útbreiðslu á síðustu árum. Hann vex ívið hægar en blátoppur, en lauf hans heldur fersklegra yfirbragði lengur fram á haust.
Á vef Karls Guðjónssonar, garðyrkjustjóra Kirkjugarða Reykjavíkur, islandia.is/kalli (ekki lengur aðgengilegur) segir svo frá:
Harðgerður runni, vind seltu og skuggþolinn. Þrífst um allt land. Hentar í klippt eða óklippt limgerði, sem stakur runni, í runnaþyrpingar eða sem botngróður í trjábeðum. Gerir ekki miklar kröfur til jarðvegs. Er seltuþolin og nokkuð skuggþolinn. 
Í ræktun í gróðrarstövum er afbrigðið Bergtoppur 'Lonicera caerulea var altaica' og er hann af sumum talin harðgerðari en aðaltegundin. Einnig er til afbrigðið Berjablátoppur 'Lonicera caerulea var edulis' sem er með ætum berjum, hann er ekki mikið í almennri ræktun ennþá, en hann er til í tilraunaræktun og er vonandi stutt í að hann verði til sölu í öllum gróðrarstöðvum.  
Blómin gulhvít, tvö og tvö saman í blaðöxlunum Blómstrar samhliða laufgun í maí júní. Aldin er blá ber sem eru samvaxin tvö og tvö.
Við leit á netinu að latneska heiti blátopps, Lonicera caerulea, má gjarnan finna umfjöllun um bláu berin á runnanum, Gróðrarstöðin Mörk segir að þau séu óæt en á erlendum vefsíðum segir að þau séu ljúffeng. Líklega er verið að ræða um sitthvort afbrigðið, sbr. þessi orðs Sigurðar Arnarsonar:
Ekki er mikill munur á blátopp og berjablátopp en sá klónn sem hér er mest ræktaður af berjablátoppi er með örlítið mjórri blöð og ílöng ber og því er hægt að greina þá frændur í sundur án þess að borða berin. Berin á venjulegum blátoppi eru ævintýralega bragðvond [...]

Buxus allt árið"Búx - Boxviður (lat. Buxus sempervirens)
Sígrænn, smáblaða runni sem forma má á ýmsa vegu með klippingu. Getur staðið utandyra frá vori til hausts. En á veturna þarf runninn að vera í óupphituðum gróðurskála. ++"


Þessi lýsing er tekin af vef Blómavals og ++ þýðir að plantan sé viðkvæm en "geti staðið úti á sumrin".

Þetta passar ekki alveg við okkar reynslu, sem er meira í ætt við lýsingu frá Garðplöntusölunni Borg sem segir frá buxus sem "hefur lifað í um 10 ár hér úti í garði og lítið sem ekki látið á sjá nema bælst undan snjóþunga".

Stærri buxus plantan var keypt dýrum dómum í Blómaval sumarið 2008 og hefur unað sér vel þessa tvo vetur sem hún hefur staðið úti á svölum. Satt að segja vissum við ekki að hún væri sígræn þegar hún var keypt, héldum á tímabili að hún væri gervitré þegar hún felldi engin lauf.

Það mun vera vorsólin sem fer illa með sígrænar plöntur sem eru úti yfir veturinn, uppgufun verður úr blöðunum en ræturnar ná ekki neinu vatni úr frosnum jarðveginum. Eða eins og Guðríður Helgadóttir útskýrir í Mbl. 9. nóv. 2002:
"Þær halda laufblöðum sínum allt árið og þegar vetrarsólin skín á blöðin hitna þau heilmikið. Til þess að kæla sig niður opna plönturnar varaop sín og við það gufar vatn út um opin en vegna þess að jörð er frosin ná plönturnar ekki að taka upp vatn í stað þess sem gufar út. Afleiðingarnar eru þær að ystu endar blaðanna visna og ef þetta ástand varir lengi geta plönturnar orðið brúnar og ljótar yfirlitum. Frostskaðar af þessu tagi koma oft ekki fram fyrr en plönturnar hefja vöxt að vori til. Ungar plöntur með óþroskað rótakerfi eru í sérstakri hættu á því að sólbrenna."

Við umpottuðum þeirri stóru sumarið 2010 í talsvert stærri pott, það verður spennandi að sjá hvort það skilar sér í einhverju.

Minna eintakið var keypt vorið 2010 og við hyggjumst skreppa með hana í 'kalda vetrargeymslu', það mun víst vera betra á meðan ræturnar eru að styrkjast. Stærra eintakið verður áfram úti, bara að muna að vökva smá endrum og sinnum yfir veturinn.

Runninn er hægvaxta og stundum er eins og hann 'standi bara þarna', þetta er ekki stuðrunni.
Í vetrarbúningi

Fjallarifs er ekki keypt út af berjunum

... eins og segir í umræðum um rifsplöntur á Barnalandi.
Fjallarifs á júlídegi 2010.
Þessi fjallarifsplanta (ribes alpinum) var pínulítill snáði þegar við keyptum hana sumarið 2008, í trausti þess að hún þyldi sólarleysið og rokið á litlu norðursvölunum, en hún er seld sem harðgerð, skuggaþolin og vindþolin planta.

Hún lét ekki mikið undir sér fyrsta árið og litlu kvistarnir tveir náðu varla upp fyrir handrið, en 2009 sprakk hún svoleiðis út með metvexti. Hún heldur áfram að stækka og virðist bara ánægð með veðrið enda þótt framan af árinu 2010 hafi ekki verið næstum jafn mikill vöxtur í henni og árið áður. Ber hafa látið á sér kræla, þar er um að ræða "dökkrauð, hárlaus ber sem standa lengi, bragðlítil og talin óæt" eins og segir á vef Lystigarðs Akureyrar. Ég myndi lýsa þeim sem bragðlitlum og þurrum, en alls ekki óætum.
Nýkomin í Kópavog í júní 2008.
Fjallarifsið er notað í lágvaxin og meðalhá limgerði, 0,5-2 m, í venjulega limgerðisræktun duga 4-5 plöntur á meter og ein klipping að vori og ein sumarklipping í júlílok, segir á vef Nátthaga. Mæla má með fjallarifsi sem "afþvíbara" plöntu, til að pota í ker eða pota niður hvar sem er. Runninn okkar er í grófari kantinum, þ.e. blöðin eru tiltölulega stór. Slík afbrigði verða hærri og eru einnig vindþolnari en fíngerðari týpan (sem virðist algengari hér á landi) skv. fylgiblaði Mbl., Garðurinn 14. maí 2000. Það hefur verið gaman að fylgjast með fjallarifsinu okkar í kvöldsólinni sem skín frá Esjunni og plantan er líka fínn vorboði fyrir utan svefnherbergið þar sem hún laufgast snemma, uppúr miðjum mars.

Úr dönsku blaði, hvers nafn er gleymt.
Fjallarifs (alparifs) er "þéttgreinótt og með smávaxin blöð, harðgert og auðvelt í ræktun", skv. natthagi.is. Blöðin líta út eins og lítil (garða)rifs blöð svo það er ekki skrítið þótt sumir rugli henni við rifsberjaplöntu.
Laufblöð í maí.
Fjallarifs er sérbýlisplanta skv. Gróðrastöðinni Mörk og "þarf bæði karl og kvennplöntu ef ætlunin er að fá ber". Það hefur ekki verið neinn skortur á fjallarifsberjum á svölunum og því virðast flugurnar iðnar að bera frjó úr nálægum görðum. Berin eru ekkert sérstök á bragðið, þurrarri og bragðminni en rifsber og þau koma ekki í miklu magni.
Fjallarifsber í lok ágúst
Fjallarifs notað í limgerði.

Snækóróna 'mont blanc' (ilmsnækóróna)


Snækórónan var keypt hjá Gróðrarstöðinni Réttarhól fyrir norðan í júní 2010. Á síðu stöðvarinnar segir um runnann:

"Ljósgræn blöð, hvít sterkilmandi blóm. Þarf frjósaman, gljúpan, frekar þurran jarðveg. [...] Brotnar stundum vegna snjóálags."

"Meðalharðger. Þarf að snyrta árlega, má klippa alveg niður", segir á vef Lystigarðsins á Akureyri.

Hvort sem maður fylgir tilmælum Lystigarðsins um árlega snyrtingu eða ekki er eftirfarandi víst rétta aðferðin við að klippa hana niður og til, skv. Valborgu á Garðurinn.is:

"Best væri ef þú klipptir innan úr runnanum elstu greinarnar eftir þörfum og myndir þannig yngja hann smám saman upp, án þess að það komi niður á blómgun. Ef þú klippir ofan af runnanum kemur það niður á blómguninni næsta sumar. Það er fínt að klippa runnan núna [í ágúst] eða um leið og hann er búinn að blómstra. Ef þú ætlar að klippa eða grisja mikið innan úr runnanum er betra að gera það síðla næsta vetur á meðan plantan er enn í dvala."

Runninn hefur tvisvar verið blóm vikunnar í Morgunblaðinu, í sept. 1980 og aftur í ágúst 1990. Þar kemur m.a. fram að ilmur blómanna sé svo unaðslegur að plantan sé stundum nefnd ilmsnækóróna. 

Smellið á myndina til að gera hana læsilega.
---
Uppfært í ágúst 2011: Eftir kuldakastið í maí 2011 hætti snækórónan vexti en nokkur fjöldi bruma var þá farinn af stað. Síðar um sumarið var plantan send í sveitina, í Grímsnesið, þar sem hún jafnaði sig ekki og verður því að teljast hafa horfið til feðra sinna. 

Sunnukvistur þarf um einn fermetra til að njóta sín

"... en fái hann nægilegt rými er hann mjög tilkomumikill" segir Guðríður (væntanlega Helgadóttir) í Mbl grein frá 1998.
Þessa stuttu lýsingu er að finna á vef Garðplöntusölunnar Borgar:
Spiraea nipponica - Sunnukvistur - Hæð 1-1,5 m. Blóm hvít í júní-júlí, greinar áberandi útsveigðar. Blómsæll, þurr, bjartur vaxtarstaður. Harðgerður.
Greinarnar sveigjast í boga alsettar blómum.
Úr blaði OR, Sumarhúsið (2008):
Sunnukvistur (Spirea nipponica) er einn fegursti kvisturinn sem við höfum í ræktun hérlendis og þótt víðar væri leitað. Hann er nokkuð harðgerður, 1,5–2,5 m á hæð og breidd, þéttgreinóttur með slútandi greinar ofan til. Blómin eru hvít og sitja eftir greinunum endilöngum. Hann er sólelskur og þolir hálfskugga en þá dregur úr blómgun. Hann telst vera nokkuð vindþolinn og unir sér best í kalk- og næringarríkum, léttum og vel framræstum jarðvegi.

Um snyrtingu skrautrunna 'sem blómstra á annars árs sprota' segir Vilmundur Hansen á 'ræktaðu garðinn þinn' á facebook að ekki megi klippa ofan af þeim á vorin. Meðal slíkra runna eru meyjarrós (Rosa moyesii), fjallarós (Rosa pendulina), birkikvistur (Spirea sp.) og sunnukvistur (Spirea nipponica). "Sé það gert er hætt við að allir blómvísar séu klipptir burt. Klippa skal þessa runna síðla sumars eftir blómgun."


(Þessi samantekt var útbúin vegna meints sunnukvists á svölunum sem reyndist síðan vera birkikvistur. Greinarnar á okkar eintaki sveigjast ekki út í boga alsettar blómum, sem er hins vegar einkennandi fyrir sunnukvist. Textinn hér stendur áfram fyrir sínu fyrir þá sem vilja fræðast um sunnukvist.)
Laufblöðin á sunnukvisti eru talsvert fráburðin laufblöðum
birkikvistsins en erfitt getur verið að greina á milli blómanna.