onsdag den 9. oktober 2013

Tré eftir Joyce Kilmer

Upphaf og endir ljóðsins Trees e. Joyce Kilmer frá 1913:
«I think that I never shall see
A poem as lovely as a tree.
[-]
Poems are made by idiots like me,
But only God can make a tree».
Sömu ljóðlínur í norskri, íslenskri, sænskri, þýskri og franskri þýðingu:
"Jeg vet at jeg får aldri se
et dikt så herlig som et tre,
[-]
Et dikt kan lages av enhver,
men bare Gud kan dikte trær."
(Þýðing Andre Bjerke)

Víst er að aldrei fæ ég séð
nokkurt ljóð svo fagurt sem tré.
[-]
Ljóð eru ort af aulum eins og mér,
en aðeins guð getur skapað tré.
(Þýðing HS)

Ett träd får jag nog aldrig se
som mera skönhet oss kan ge
än blott ett enda träd i lund
som ser Guds verk uti var stund,
[-]
Smått folk som jag klär dikt i skrud,
men träden skapas blott av Gud.  
(Þýðing Roland von Malmborg)

Ich denke ich sollt niemals erschauen
Ein Gedicht so lieblich wie ein Baum
[-]
Dummköpfe wie ich können Gedichte machen
Aber nur Gott kann einen Baum erschaffen. 
(Þýðing Ulrike Schoof-Kaiser) 
 
Je pense que je ne verrai jamais
Un poème beau comme un arbre.
[-]
Les poèmes sont créés par des fous comme moi,
Mais Dieu seul peut créer un arbre. 
(Þýðing Catherine Réault-Crosnier)
Blæösp.

mandag den 7. oktober 2013

Óður til birkikvists

Hér er illa gerð GIF hreyfimynd af birkikvisti, rétt í tæka tíð áður slíkar myndir detta úr tísku. 


Tmi er kominn til að senda þennan runnaling burt og losa hann um leið úr viðjum pottsins.

torsdag den 19. september 2013

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur er gjöf sem Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstjóri BYKO, og fjölskylda hans færðu [Skógræktarfélagi Kópavogs] að gjöf 28. nóvember 1997. Guðmundarlundur er skógi vaxið 7 ha svæði og er mikil lyftistöng fyrir allt félagslífið. Hefur félagið miklar framtíðaráætlanir um þetta svæði. Hyggst félagið byggja upp góða útivistaraðstöðu þar sem skólabörn geta komið með kennurum sínum og fræðst um alla hluti sem skóginum tengjast og upplifað náttúruna.
Svo segir frá í Mbl 23. september 1999, bls. 57. Í minningargrein um Guðmund, í Mbl. 30. nóv. s.á., er greint frá upphafi ræktunarinnar:
Skógræktarlandinu sínu í Vatnsendalandi í Kópavogi var hann stoltur af. Það var Guðmundi hvíld frá dagsins amstri að fara í skógræktina eftir vinnu. Þarna hafði hann ræktað skóg í yfir 30 ár af mikilli eljusemi, þegar hann gaf Skógræktarfélagi Kópavogs landið í byrjun 1998. Þar heitir nú Guðmundarlundur.
Eftir aldamótin var svæðið stækkað og telur það nú um 11 hektara. Í tilkynningu félagsins árið 2001 var lundurinn kallaður hálendisgróðurvin við höfuðborgarsvæðið og verður það að teljast viðeigandi lýsing.

Ef heppnin er með í för og helst líka snjallsími með GPS er hægt að finna Guðmundarlund, ofan við hesthúsin í Vatnsendahverfi í Kópavogi. Þar er vaxinn þokkalegasti skógarlundur á berum mel, með stígum, leiktækjum og grillaðstöðu. Þá er í lundinum Hermannsgarður, en Hermann Lundholm sem lést árið 2007 eftirlét Skógræktarfélagi Kópavogs gróður úr garði sínum og var gróðursafninu komið fyrir í Guðmundarlundi.

Smellið á myndina til að stækka. Smellið hér til að sjá kortið í pdf skjali.
Skjalið er útbúið af Bjarka Þóri Valberg á umhverfissviði Kópavogsbæjar.
Í Guðmundarlundi er mikið af opnum svæðum, fullmikið.

Af skogkop.is.
Leiðbeiningar að Guðmundarlundi frá Breiðholtsbraut (af hrfi.is):
  • Guðmundarlundur er rétt hjá hesthúsunum við Heimsenda í Kópavogi (Elliðavatns megin). Breiðholtsbraut er ekin í átt að Víðidal, beygt á ljósunum við Vatnsendahvarf (hjá nýju World Class og Bónus). 
  • Keyrt er eftir Vantsendavegi þar til komið er í þriðja hringtorgið þá er tekin síðasta beygjan að Þingmannaleið. 
  • Þar er skilti sem segir Heimsendi. Sú gata er keyrð þar til Heimsendi er á hægri hönd og þá á að vera skilti á vinstri hönd sem segir Guðmundarlundur. 
  • Keyrt upp á hæðina þar til komið er að skógræktarsvæði með grænu hliði, þar er Guðmundarlundur.

Þess má geta að í Gljáhelluhrauni í Hafnarfirði er furulundur sem fengið hefur nafnið Guðmundarlundur, í minningu um Guðmund Þórarinsson, kennara og frumkvöðul í skógrækt í nágrenni Hafnarfjarðar. Einnig má geta Hermannslundar í Svartaskógi, Fossvogsdal í Reykjavík, en það er grenilundur sem kenndur er við Hermann Jónasson, fv. forsætisráðherra. 

lørdag den 14. september 2013

Svartiskógur í Fossvogi

Í Skógræktarstöðinni í Fossvogi eru 5 — 6 grenilundir með allt að 8—10 m háum trjám. Þrír þeirra hafa verið langmest notaðir [af þröstum], Svartiskógur, austan við aðalhlið Skógræktarstöðvarinnar, Hermannslundur í norðausturhorni Skógræktarinnar og grenilundur neðan skrifstofubyggingarinnar. 
Svo segir frá trjáreitnum Svartaskógi, í Náttúrufræðingnum 4. tbl. 20. des. 1981.

Hvíta línan sýnir sirkabát hvar stígur hefur verið lagður í gegnum Svartaskóg - af kortavef ja.is.
Svartiskógur, sem stendur við Ræktunarstöðina í Fossvogi (Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar, áður Skógræktarstöðin í Fossvogi - Fossvogsstöðin), var opnaður fyrir almenning árið 1986 og gerður að “grenndarskógi” Hvassaleitisskóla árið 2003.

Árið 2013 voru svo gerðir hjóla- og göngustígar frá innkeyrslu að ræktunarstöðinni í gegnum Svartaskóg. Hér eru nokkrar myndir af nýja stígnum og umhverfi hans.

Við norðvestur-innganginn að skóginum
og innkeyrsluna að ræktunarstöðinni.
Fallegir leikir ljóss og skugga.
Hér hefði mátt vera búið að grisja, kannski.
Séð austanmegin frá.
Séð yfir ræktunarsvæði Ræktunarstöðvarinnar.
Heilmikið af silfurreyni í ræktun.
Maríuerla.
Áningarstaður.
Um upphaf stöðvarinnar og þátt Knuds Zimsens er fjallað í grein Hákonar Bjarnasonar í Skógræktarritinu 1983:
Fyrir atbeina borgarstjórans í Reykjavík, Knuds Zimsens, fékk félagið [Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930] ókeypis stórt land í Fossvogi sunnan bæjarins undir gróðrarstöð, sem byrjað var á sumarið 1932. En efni voru lítil og því verki miðaði hægt fyrstu árin. Eftir 1935 var farið að ræða um friðland ofan Reykjavíkur, það er síðar hlaut nafnið Heiðmörk.
Í Skógræktarritinu 1986 fjallar svo Ásgeir Svanbergsson um Fossvogsstöðina frá því hún komst í hendur SR. Það gerðist við það að starfsháttum Skógræktarfélags Íslands var breytt og það gert að sambandsfélagi og stofnuð voru tvö ný skógræktarfélög, í Reykjavík og Hafnarfirði, sem skiptu eignum S.Í. á milli sín. 
Þegar félagið [Skógræktarfélag Reykjavíkur] tók við Fossvogsstöðinni [árið 1946] var hún 7,93 ha landspilda neðst í Fossvogsdalnum austan Hafnarfjarðarvegar, en sunnan Fossvogsvegar. Þessi blettur stækkaði svo með árunum. 1955 var keypt land að Fossvogsbletti 2 b, 2,67 ha að stærð, og nokkru síðar 2,5 ha af Nýbýlalandi 8. Hermann Jónasson, fv. forsætisráðherra, átti lönd þessi og hafði stofnað þar til trjáræktar. Enn stendur sumarbústaður Hermanns í Fossvogi og mestur hluti ræktunar hans.
Þegar ný braut var lögð til Hafnarfjarðar 1971 var stöðin skert vegna þess um 1,4 ha, en aukin nokkru síðar um 5,7 ha norðan Fossvogsvegar. Land Skógræktarfélags Reykjavíkur í Fossvogi er því nú 17,4 ha alls.

Allt þetta land liggur í dalnum norðanverðum og hallar dálítið til suðurs og suðvesturs. Það var fyrrum deiglendi og sumt mýri, grjótlítið, en þarfnaðist framræslu. Jarðvegur er víðast djúpur, nokkuð frjór, en sums staðar súr. Landið var skjóllaust og suðaustanveður hörð og hætt við næturfrostum í dalnum. Meðal fyrstu verkefna var því að bæta framræslu og auka við skjólbelti sem byrjuð höfðu verið. Þarna hafði verið unnið þýðingarmikið starf á árum Skógræktarfélags Íslands, en margs konar vanefni og byrjunarvandkvæði háðu því. Yfir höfðu gengið krepputímar og styrjaldarár. Uppeldi trjáplantna var á byrjunarstigi hérlendis og trjáfræ lítt eða ekki fáanlegt.

Fyrsta starfsár Skógræktarfélags Reykjavíkur voru uppeldisreitir í Fossvogi um 1100 m 2 blettur neðan við núverandi stöðvarhús, en sáðreitir 55 m2. Engar byggingar voru á svæðinu, en túnblettir og móar í kring. Vestan við reitinn stóð belti af álmplöntum frá Beiarn í Noregi, gróðursett 1936, um mannhæðarhátt. Í norðausturhorni reitsins voru álnarháar sitkagreniplöntur í uppeldi, gróðursettar 1943, frá Kenai í Alaska og neðst í reitnum var sitkagreni frá Juneau í Alaska. Álmbeltið stendur að mestu enn í dag og í því elstu trén í stöðinni, en af sitkagreninu standa eftir tveir aðskildir smálundir og eru trén í þeim 10-12 metra há.

Þetta er hjólastígurinn á milli Seljahverfis og
Kópavogs, hér mætti planta nokkrum trjám.
Ef gripið er niður í ársskýrslur Skógræktarfélags Reykjavíkur fyrir 2013 og 2015 má finna upplýsingar um afdrif þessarar eignar:
Lóð félagsins á Suðurlandsbraut 68 var seld fyrir 70 milljónir króna. Félagið eignaðist lóðina eftir sölu á Fossvogsstöðinni á sínum tíma. Þegar Fossvogsstöðin var seld átti að greiða hluta andvirðisins með því að Skógræktarfélagið fengi lóð inni í ræktunarsvæðinu í Fossvogsstöðinni. Þegar félagið kallaði eftir lóðinni kom í ljós að Reykjavíkurborg vildi ekki láta félagið fá lóð þar og var ákveðið að í stað hennar fengi félagið lóð við Suðurlandsbraut. [2013]
Í byrjun þessa árs var síðan keypt jörðin Múlastaðir í Flókadal í Borgarbyggð. Jörðin er um 650 hektarar að stærð, frekar illa hýst en í gildi er skógræktarsamningur við Vesturlandsskóga. Það er von okkar að þarna geti risið fallegur skógur bæði til nytja sem og til yndis. Gaman væri ef hægt væri að skapa aðstöðu fyrir félagsmenn Skógræktarfélagsins til aðkoma þarna og dvelja í íbúðarhúsinu, en til stendur að hefjast handa við að gera við það að utan nú í vor og síðan, smám saman, að gera það íveruhæft. Með þessum kaupum er þörf okkar fyrir nýju skógræktarlandi fullnægt á næstu árum. [2015]

Færslan var síðast uppfærð í ágúst 2015.

mandag den 9. september 2013

Gljáhlynur douglasii (Douglashlynur) þarf styttra frostlaust tímabil en hugsanlega meira skjól

“Gljáhlynur Acer glabrum með grannar greinar og óvenjulega fínleg blöð, vex hægt en kelur aldrei.” (Hugrún Jóhannesdóttir, Garðurinn 2008, lýsing á hlyntegundum í garði einum í Garðabæ). Af gljáhlyn eru ýmis yrki, m.a. einn sem stundum er kallaður Douglashlynur (Douglas maple), Acer glabrum var. douglasii.

Lystigarðurinn lýsir Douglashlyn sem kröftugum runna, “hæð allt að 6 m, með uppréttar eða örlítið skástæðar greinar, árssprotar rauðir. Heldur minna og fíngerðara afbrigði en aðaltegundin, greinar stíft uppréttar og mjög grannar.”

Á vef Mustila trjásafnsins í S-Finnlandi, mustila.fi, segir svo frá:
Native to the northwest of North America, Douglas maple is one of the hardiest maple species. A small tree in habit which sometimes remains shrubby, it grows in mixed forest on the lower slopes and in the valleys of the Rocky Mountains. It is a pioneer species, one of the first to appear after a forest fire or clear felling. 
Douglas maple is at its showiest in spring with the sun shining through the bright green flowers and foliage. Its autumn colour is a warm yellow, sometimes with a reddish tint. The large old trees near Alppiruusulaakso (Rhododendron Valley) were planted in the early decades of the 1900s. There are younger trees growing on Pohjoisrinne (Northern Slope).
Kveikjan að þessum pistli var innslag Gróðrarstöðvarinnar Þallar á facebook 7. sept. sl.:
Garðahlynur (Acer pseudoplatanus) er almennt talinn harðgerðasta hlyntegundin til ræktunar hérlendis ásamt gljáhlyn (Acer glabrum var douglasii) sem er runni.
Í athugasemd við færsluna var þessu bætt við: “[Gljáhlynur þarf] sæmilegt skjól en er bráðfallegur og kelur afar lítið sem, er sjaldgæft með hlyni á Íslandi enda ættaður frá Alaska” (Valur Þór Norðdahl, facebook 2013).

Yrkið Acer glabrum var. douglasii (douglashlynur) er einmitt sá gljáhlynur sem á uppruna sinn til S-Alaska. Hann verður allt að 9 m hár í heimkynnum sínum samkvæmt þarlendum vefsíðum.

Acer glabrum subsp. douglasii. Myndin er af  af Wikimedia Commons.
Ólafur Sturla í Náttahaga hefur m.a. þetta að segja um gljáhlyn var. douglasii, í riti sínu 'Aukin fjölbreytni í yndisskógrækt' (maí 2009):
Runnkenndur hlynur frá Suðaustur-Alaska, verður um 2-3 metrar á hæð. Þarf skógarskjólið! Fallegt og fínlegt innslag í skógarjaðarinn. [...] Myndar árlega mikið af góðu fræi í Nátthaga. [...]
Plantdatabase.co.uk veitir okkur áhugaverða innsýn í vaxtamöguleika douglashlyns, samanborið við venjulegan gljáhlyn og garðahlyn (leturbr. mínar):
  • um venjulegan gljáhlyn: “This plant requires a minimum of 180 frost free days to grow successfully.  It has average drought tolerance. [...] This is a erect tree/shrub has a fast rate of growth and has a multiple stem growth form, and has an ultimate height of 9.1m [...] Height at 20 years 4.6m [...]”
  • um garðahlyn: “This plant requires a minimum of 140 frost free days to grow successfully. It has average drought tolerance. [...] This is a erect tree has a moderate rate of growth and has a single stem growth form, and has an ultimate height of 30.5m [...] Height at 20 years 18.3m [...]” 
  • um douglashlyn: “This plant requires a minimum of 120 frost free days to grow successfully. It has low drought tolerance. [...] This is a erect tree/shrub has a moderate rate of growth and has a single stem growth form, and has an ultimate height of 9.1m [...] Height at 20 years 6.1m [...]”
Þetta kemur heim og saman við þá staðreynd að venjulegur gljáhlynur (aðaltegundin) hefur drepist í ræktun hjá Lystigarðinum samkvæmt vef garðsins, þótt eitt eintak sé þar til á lífi, á meðan var. douglasii þrífst þar “bærilega”. 

Á ruggedcountryplants.com kemur fram að douglasgljálynur sé vanur 500-760 mm úrkomu árlega. Samkvæmt Vísindavefnum er meðalúrkoma áranna 1961-1990 í Reykjavík nálægt 800 mm. Talsvert meiri í syðstu sveitum Íslands, svo að nemur tvöföldun eða meira. Talsvert minni á Norðurlandi, “ekki síst á svæðinu norðan Vatnajökuls þar sem hún er um helmingi minni en í Reykjavík”.

Niðurstaða: Það gæti verið sniðugt að prófa douglasgljáhlyn á stöðum á Íslandi þar sem sumrin eru of stutt fyrir garðahlyn, þó ekki á Norðurlandi. Hugsanlega er það rétt hjá Ólafi í Nátthaga með skjólþörfina, hann þolir minni þurrka og kannski líka minna rok en garðahlynur og almennur gljáhlynur. Ég er samt ekki sannfærður um að hann þurfi svo mikið skjól.

Svo vill til að um 180 frostlausir dagar eru það sem þarf til að rækta korn (hveiti og hafra), samkvæmt glærukynningu Valdimars Stefánssonar í “Lan 103 – VII” frá 2006, sem er aðgengileg á vef framhaldsskólans á Húsavík, fsh.is.

Á síðu Sigurðar Þórs Guðjónssonar, nimbus.blog.is, segir 29. sept. 2012 að meðaltal frostlausa tímans í Reykjavík frá 1920, þegar Veðurstofan var stofnuð, sé “143 dagar en 147 árin 2001-2011”.

Í bókinni Loftin blá eftir Pál Bergþórsson er að finna þennan hlutfallslega samanburð á frostlausa tímanum eftir landshlutum, en bókin er frá 1957:
Norðan lands er frostlausi tíminn á sumrin víðast um 100 dagar við sjóinn, en styttri inni í landinu. Lengst verður frostleysan við strönd Suður- og Vesturlands, eða allt að því 160 dagar, og meira en 170 dagar í Vestmannaeyjum, en jafnvel minni en 100 dagar í sumum innsveitum. Allt eru þetta meðaltölur og miðaðar við síðustu áratugi, [...]
Acer glabrum subsp. douglasii. Myndin er af  af Wikimedia Commons.
Þess ber að geta að douglashlynur er ekki viðurkennt nafn á Íslandi þegar þessi orð eru skrifuð, ekki heldur dögglingslynur.

latína Acer glabrum var. glabrum Acer glabrum var. Douglasii
finnska kääpiövaahtera (dverghlynur) alaskanvaahtera (alaskahlynur)
sænska klipplönn (sbr. Klippbergen (Rocky Mountains, Klettafjöll)) kaskadlönn *
enska rocky mountain maple douglas maple
* Douglashlynur fékk nafnið kaskadlönn árið 2006: "underarten är inskränkt till Kaskadbergen i SV Canada och NV USA" (undirtegundin er bundin við Þrepafjallgarðinn (e. Cascade Range) í SV Kanada og NV BNA).


fredag den 28. juni 2013

Pluggbox - græðlingabox

Ég rakst á þetta sniðuga box í magasíni í Finnlandi, verðið um 22 evrur, rúmlega 3.500 krónur. Varan er framleidd í Svíþjóð og hugmyndasmiðurinn heitir Albert Eriksson frá Ed í Dalsland, Suður-Svíþjóð.

Á fyrstu dönsku vefsíðunum sem poppa upp við netleit er verðið 140-183 danskar, um 3.200-4.000 krónur.

Litla garðabúðin selur gripinn á rúmlega 5.000 krónur. Í gegnum Amazon.com má kaupa tvö stykki á rúmlega 5.000 íslenskar, með sendingarkostnaði innanlands í Bandaríkjunum. Þar er þetta selt undir nafninu Daled Compact Plant Trainer Mini Greenhouse Germination Kit. Varan er einnig seld undir nafninu Agralan, en mér finnst nú Pluggbox fallegra.


kan rengøres i opvaskemaskine.segir í lýsingunni á þessari vöru.

Skjaskot af Amazon.com.
Kynningarmyndbönd á YouTube á sænsku og ensku.

Fjallafura að koma upp í apríl.
Tilbúin planta í júlí.

lørdag den 1. juni 2013

Fiðrildalirfur

Á Reykjavíkursvæðinu eru einkum 3 tegundir fiðrilda sem valda trjáskaða, og er garðaúðun beint gegn þessum þrem kvikindum: haustfeta (operophthera brumata l.), víðifeta (hydriomena furcata thunberg) og skógvefara (epinotia salandriana l.) [hér er mögulega átt við tígulvefara, epinotia solandriana].  
[...] Fiðrildalirfur eru yfirleitt nokkuð matvandar, vilja aðeins éta af ákveðnum tegundum plantna. Skógvefarinn lifir nær eingöngu á birkilaufi, á þó til að fara á víði en ekki er það algengt. Víðifetinn sækir aðallega á víði og bláberjalyng, en étur stundum birki, rauðber og ræktaðar rósir. Haustfetinn er fjölhæfur í fæðuvali, sækir m.a. á reyni, birki, víði, hegg, álm, hlyn, rauðber, ræktaðar rósir og fleiri runna - raunar má segja að hann geti lagst á flest lauftré, þrífst þó yfirleitt ekki á ösp.
- Jón Gunnar Ottósson: Maðkurinn og eitrið, Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1983.
Hér að neðan er útdráttur úr tveimur greinum frá lokum síðustu aldar, um fiðrildalirfur.
Haustfeti



DV, Hús og garðar 6. maí 1998, Pétur Ólason:

Kannið ástand trjánna
„Fiðrildin verpa á haustin og lirfan klekst út á vorin. Aðaleyðileggingin er því snemma á vorin, stundum svo snemma að tréin ná ekki að laufgast eða um miðjan maí. Best er að strjúka trjágreinarnar og athuga hvort nagað brum losnar af en önnur visbending er ef trén laufgast óeðlilega seint. Þetta á sérstaklega við um víði og gljámispil en stundum étur maðkurinn laufin jafnóðum og þau koma. Birkið aftur á móti er yfirleitt byrjað að laufgast og ef það er maðkur í því spannar það blöðin saman utan um maðkinn.

Sé ástandið slæmt borgar sig að eitra en ef bara eitt og eitt brum er étið er ekki ástæða til uppnáms því lirfurnar klekjast bara út einu sinni á ári og það fer eftir stofnstærð þeirra hversu skaðinn er mikill. Hann eykst því ekkert þó lengra líði á sumarið. Haustfeti sækir á hegg.

DV, Hús og garðar 9. júní 1993, höf. óuppgefinn:

Lífsferill
Lirfurnar skríða úr eggjum í maí og er klaktíminn háður hitastigi. Fyrst eru lirfurnar litlar, líkar 1-2 sm tvinnaspotta og byrja að bora sig inn í brumblöðin. Brumin opnast smám saman og laufblöðin vaxa og lirfurnar vaxa líka. Vöxturinn er einnig háður hitastigi. Tveimur vikum eftir klak er lirfan farin að vefja blöðum utan um sig. Á því stigi sjáum við lirfurnar og segjum: „Maðkurinn er kominn".

Vöxturinn er háður hitastigi, þannig að tímasetningin á þessum atburðum getur hnikast til. Lirfan veldur mestum skaða í júní og fram í júlí og étur allt af blaðinu nema blaðæðar. Að því búnu skríður hún ofan í moldina, fyrir neðan tréð til að púpa sig. Púpurnar klekjast svo út sem fiðrildi í ágúst til að maka sig. Kvendýrin verpa eggjum á stofn og greinar plantnanna. Hjá haustfeta klekst púpan út seinna (í október) og kvendýrið, sem er vængjalaust skríður upp stofn plöntunnar til að hitta fleygt karldýrið til mökunar og varps. Eggin geymast til næsta vors.
DV, Hús og garðar 9. júní 1993.
Varnaraðgerðir
Hægt er að koma í veg fyrir varp hjá haustfeta með því að nota límborða sem settur er utan um stofn runna og trjáa [um mánaðarmótin ágúst-september]. Til er efni "Tree tangelfoot" í túpu eða úðabrúsa. Til að eyða eggjum er úðað í desember-mars með tjöruefnum [þau eru ekki notuð lengur, til eru náttúrulegar olíur sem nota má í sama tilgangi - aths. blogghöfundar]. Þá má ná árangri með því að hrista trén, úða með vatni eða grænsápulegi eða tína lirfurnar úr laufinu.

Ef útlit er fyrir faraldur eftir hlýjan vetur er skordýraeitri úðað áður en mesta tjónið verður, eða fyrstu tvær vikurnar í júní. Þá er um að gera að nota kvæmi sem hafa viðnám gegn meindýrum.
Rifs eftir fund með lirfu haustfeta



Í Skógræktarritinu 1983, síðu 36 (bls.tal 34), er yfirgripsmikill listi yfir feta og önnur fiðrildi ásamt matseðli hvers og eins.

tirsdag den 21. maj 2013

Blóðrifs - ljósareyð blómuribes

Ribes sanguineum 'Færeyjar' (hefur verið uppnefnd Færeyjarifs og var á tímabili kölluð blóðrifs upp á norsku).
Blómar tíðliga á vári. Blómurnar ljósareyðar. Mest nýtti runnur í Føroyum til girðing. Harðbalin. Hettar er villinislagið. Úr útnyrðings Amerika.
Svona er ljósareyð blómuribes lýst á vef færeysku umhvørvisstofunnar (us.fo).

Blóðrifs í Garðheimum.
Af blóðrifsi virðast ræktuð tvö yrki hér á landi. Annars vegar ‘Færeyjar’ og hins vegar ‘Koja’. Meira er ræktað af Færeyjaryrkinu, sem ber bleik eða rauðbleik (ljósrauð) blóm. Gardplontur.is segja hana harðgerða, vindþolna og vilja sólríkan vaxtarstað. Yrkið 'Koja' er frekar viðkvæmt og ber dökkrauð blóm og aldin þess eru blásvört, skv. Ingibjorg.is. Það yrki er ekki eins þróttmikið og ‘villta’ yrkið, samkvæmt us.fo.

Lítil blóðrifsplanta kostaði kr. 2.350.- í Garðheimum sumarið 2012, en til samanburðar kostaði hún 500-1.500 kr. í Danmörku skv. þarlendum vefsíðum, á sama tíma (23-62 dkr.). Danir rækta mest ‘Koja’ að því er virðist, en einnig nokkur önnur yrki.

Sumarið 2012 fór síðueigandi og kleip nokkra sumargræðlinga af plöntu sem óx við sæmileg skilyrði á opnu svæði í Kópavogi (sjá myndir neðst). Græðlingarnir rótuðu sig allir mjög vel og voru flestir geymdir í köldu gróðurhúsi (IKEA plastkössum) yfir veturinn. 
Græðlingur af blóðrifs (t.v.) undir lok ágústmánaðar 2012
Undir lok maí 2013
Undir lok júní 2013
Undir lok ágúst 2013
Þessi lýsing er af vef Yndisgarða:
Ljósrauðir blómklasar, þolir klippingu sérlega vel, sterk kryddkennd lykt af blöðum og árssprotum. Góð í stórvaxin limgerði og skjólbelti. Haustar sig seint og er ekki öruggt nema á svæði A [SV-hornið].
Á dönsku wikipedia síðunni (þar sem vitnað er í Plantebeskrivelser frá 2003) segir að blóðrifs vaxi upprétt og greinarnar séu grófar með fáum hliðargreinum. Þar kemur fram að lyktin af blómunum sé svolítið römm og minni á hland karlkyns dýra (ret ram og minder om visse handyrs urin). Jafnframt að berin séu ljósblá, bragðist svipað og sólber en séu ekki jafn safarík. Mestmegnis séu það fuglar sem leggi þau sér til munns. Blóðrifs kjósi hálfskugga en þrífist einnig í fullri sól. Í Danmörku blómstrar blóðrifs í apríl/maí en á Íslandi í maí/júní.

Á haveabc.dk kemur fram að blóðrifs geri ekki miklar kröfur til jarðvegs eða vaxtarstaðar og þrífist nánast hvar sem er. Það geti vaxið í hálfskugga en verðskuldi fulla sól. Unnt sé að skera greinar af þegar blóðrifs byrjar að blómgast og setja í vatn inni, blómin opnist þá hvítgul. Þrátt fyrir að það blómgist ríkulega komi yfirleitt fá ber. Það verði ekki hærra en 175-200 cm, og svipað á breidd. Aðrar danskar síður segja að það verði 3 m.

Samkvæmt vef Lystigarðsins á Akureyri er þar til ein planta sem kom frá gróðrastöðinni Mörk 1984 og hefur kalið meira eða minna gegnum árin.

Á kanlir.dk segir að það séu ekki margir blómstrandi runnar sem jafn auðvelt er að rækta og blóðrifs (“ikke mange blomstrede buske, der er så nemme at dyrke som blodribs”). Til að runninn blómstri sem mest borgi sig að þynna hann á hverju ári, með því að fjarlægja ca. fjórðung af elstu greinunum eftir blómstrun. Börkurinn á elstu greinunum sé dekkstur og því sé auðvelt að þekkja þær. Mælt er með blóðrifsi í óklippt limgerði, en sé það klippt þá kemur það niður á blómguninni.

Þetta myndi líklega kallast hálfskuggi. 
Blómin útstæð og klukkulaga - myndir frá júní 2012.


Runninn vex undir stærðarinnar birkitré.

lørdag den 4. maj 2013

Vikur í botn blómapotta - óþarfur og dýr

Ekki veit ég hver taldi mér trú um að möl (helst vikur, til dæmis Hekluvikur) gerði gagn í botninum á blómapottum. En ég mun ekki kaupa vikur aftur í slíkum tilgangi. Það gerir víst ekki annað gagn en að þyngja pottinn og færa þyngdarpunkt hans neðar.
"There is a pervasive myth that putting gravel in the bottom of containers helps drainage. It doesn't - it actually encourages the soil to soak up water stay wet. Don't put gravel in the bottom of your pots." - containergardening.about.com
"Read Kerry's post to learn the science behind this, but the fact is, gravel will actually cause your container to hold onto water. She uses coffee filters, paper towels or a bit of window screen to keep the soil from spilling out." - weblogs.baltimoresun.com
"As long as there is a hole in the bottom of the container, water will find its way out without the need for stones." - guardian.co.uk

Pottaplöntur í ágúst 2012.

Úr grein í ritinu Sumarhúsið og garðurinn.

søndag den 31. marts 2013

Moltumars - erlend mold

Undanfarin ár hef ég keypt svolítið af tilbúinni gróðurmold í pokum. Yfirleitt hefur það verið gamla góða Flúðamoldin, sem er moltaður sveppamassi blandaður við mómold frá Hvítárholti og vikur úr Heklu. Þótt hún sé oft óþarflega gróf þá hefur maður sæmilega tilfinningu fyrir næringarinnihaldinu og auðvitað á maður styðja við íslenska framleiðslu, það á ekki að þurfa að flytja mold til Íslands. Flúðamoldin hefur stundum verið á sæmilegu verði í Bónus og Múrbúðinni, um 600 kr. fyrir 20 lítra (kostaði undir 400 árið 2008/2009 í Bónus), sama magn kostar um og yfir þúsundkall í Byko og öðrum dýrum búðum.
Mold í Bónus - mynd bætt við í apríl 2013.
Í mánuðinum sem er að líða braut ég odd af oflæti mínu og keypti útlenska mold í Byko, Florabella potgrond, 20L á kr. 1249.- Nógu finnst mér það dýrt, en hún var álitlegri en Hreppamoldin (sama/svipað og Flúðamold), sem fékkst bara í 6L pakkningu á 350 kall (1160 fyrir 20L).

Ég get ekki annað sagt en að moldin virðist nokkuð vönduð, af lit, áferð og þéttleika að dæma. Hún er áburðarblönduð og frá viðurkenndum þýskum framleiðanda, Klasmann. Hún verður aðallega notuð í pottaplöntur innanhúss en eitthvað útivið líka. Reyndar er svolítið af arfafræi í henni, ekkert stórvægilegt.

Einnig var til sölu í Byko einhver Europris generic mold, 50L á kr. 1290.-, en hún höfðaði ekki til mín.
Af netinu

Af netinu, mars 2013

Auglýsing frá Bónus, maí 2009

Florabella