lørdag den 26. januar 2013

Trén eftir Kafka

Trén eftir Franz Kafka, íslensk þýðing (HS)

Því við erum sem trjástofnar í snjónum. Tilsýndar liggja þeir bara á yfirborðinu og með smávegis krafti ætti maður að geta stjakað þeim burt. Nei, það getur maður ekki, því þeir eru fastir í jörðu. En sjáðu til, jafnvel það er bara tilsýndar.


Þýska (upprunalegi textinn) - Die Bäume
Denn wir sind wie Baumstämme im Schnee. Scheinbar liegen sie glatt auf, und mit kleinem Anstoß sollte man sie wegschieben können. Nein, das kann man nicht, denn sie sind fest mit dem Boden verbunden. Aber sieh, sogar das ist nur scheinbar.
Danska - Træerne
For vi er som træstammer i sneen. Tilsyneladende ligger de glat ovenpå, og med et lille stød burde man kunne skubbe dem væk. Nej, det kan man ikke, for de er fast forbundet med jorden. Men se, sågar dét er kun tilsyneladende.
Enska – The Trees
"For we are as tree-trunks in the snow. Apparantly they are merely resting on the surface of the snow, and a little push would be enough to knock them over. No, that's not the case, for they are firmly attached to the ground. But see, even that is only seemingly the case."
Tilbrigði við íslensku þýðinguna (HS)
Því við erum sem trjástofnar í snjónum. Tilsýndar liggja þeir einfaldlega á yfirborðinu, og með smávegis krafti ætti maður að vera fær um að stjaka þeim burt. Nei, það getur maður ekki, því þeir eru fastbundnir jörðinni. En sjáðu, jafnvel það er bara tilsýndar.

onsdag den 9. januar 2013

Silfurber (hreisturblað / sveipsilfurblað)


Silfurber (hreisturblað / sveipsilfurblað)

Inngangur
Elaeagnus umbellata er lýst á vef Lystigarðs Akureyrar sem 2-4 m runna sem nota má í þyrpingar, rækta stakstæðan, í steinhæðir eða beðjarðra. Þar kemur fram að hann sé ekki í ræktun í garðinum sem stendur en hann sé “á óskalista”.

Samkvæmt upplýsingum sem undirritaður hefur kynnt sér ber runninn að jafnaði ávöxt fimm til sex árum eftir að sáð er fyrir honum (sylva.org; Natural Food Institute, Wonder Crops. 1987 – pfaf.org). Hins vegar getur hann við góðar aðstæður gert það við þriggja ára aldur, þegar hann hefur náð 1,2 til 1,4 m hæð (fs.fed.us). Plantan er fljótvaxin og getur orðið 5 m að hæð og breidd á sex árum (Allan & Steiner, 1965 – sylva.org). Í Danmörku er runninn sagður ná 3-4 m hæð (haven2011.nn5.dk).

Runninn er sagður mjög saltþolinn og prýða vel í limgerðum, jafnvel á veðrasömustu stöðum. (Rosewarne experimental horticultural station. Shelter Trees and Hedges. – pfaf.org). Einnig geti hann nýst sem vindbrjótur. Hann vex best í mikilli birtu, þolir léttan skugga en ungplöntur þola illa skugga (sylva.org). Hann þolir talsverðan þurrk þegar hann er komin á legg.  

Rætur runnans geta notið góðs af sambúð við geislasvepp af ættkvíslinni Frankia, líkt og elri, sem bindur nitur úr lofti. Runninn er þannig jarðvegsbætandi (köfnunarefnisaukandi) (Cornell.edu). Helst kýs hann sendinn, vel framræstan jarðveg og kann ágætlega við sig í leirkenndum, næringarsnauðum jarðvegi.

Silfurber blómstrar hvítgulum blómum á vorin og blómin munu vera í uppáhaldi hjá býflugum. Ilmurinn er víst heillandi líka. Um berin er fjallað hér að neðan.
Mynd: theinkyspinnery.blogspot.com
Nafnið
Opinbera íslenska heitið á Elaeagnus umbellata virðist vera hreisturblað eða sveipsilfurblað. Bæði laufblöð og ber eru silfursveipuð, eða þakin silfurhreistri. Ég hyggst hins vegar notast við þjálla og fallegra nafn, silfurber eða silfurberjarunni. Silfurblað er frátekið fyrir ættingjann Eleagnus commutata, en báðir eru af silfurblaðaætt (Elaeagnaceae). Í Danmörku ber silfurberjarunninn nafnið sveipsilfurblað (skærm-sølvblad), á sænsku kóreskt silfurblað (koreansk silverbuske), á norsku japanskt silfurblað (japansk sølvbusk) og á ensku m.a. japanskt silfurber og haustber (japanese silverberry; autumnberry; einnig autumn olive).

Ágeng tegund á sumum svæðum
Silfurber er talið til ágengra tegunda í flestum ríkjum Bandaríkjanna, einnig í Kanada og Ástralíu. Í nokkrum ríkjum BNA er silfurber flokkað sem ágengt illgresi og plöntun þess bönnuð. Auðvelt mun vera að toga nýgræðlinga upp með rótum og tiltölulega auðvelt að ná fullorðnum einstaklingum upp í heilu lagi (þegar raki er í jörðu). Runninn á uppruna sinn í Kína, Kóreu og Japan og var fluttur til Bandaríkjanna um 1830 sem skrautrunni, til notkunar í skjólbelti og til að nota í baráttu við gróður- og jarðvegseyðingu, m.a. á námusvæðum. Í Bretlandi hefur silfurberjarunninn verið ræktaður í yfir 200 ár án þess að hafa verið flokkaður sem ágengur (sylva.org).

Runninn þolir mjög vel klippingu og vex tvíefldur upp ef hann er klipptur alveg niður.

Mynd: destinationoakland.com
Lýkópen (e. lycopene) í silfurberjum
Silfurberjarunninn gefur vel af sér af bragðmiklum berjum, sem munu vera litlu minni en rifsber. Hægt er að nota þau í sultur, þurrka þau og borða hrá. Best mun vera að tína þau fyrir fyrsta frost (psa-rising.com). Á þeirri síðu er haft eftir Marion Waak Newman:
"If you eat them then, the tartness will pucker your mouth, but sweetness is your reward. The flavor is reminiscent of several fruits from currants and cranberries to peaches."

Árleg uppskera mun vera frá 4 til 14 kg (psa-rising.com). Nýlega var uppgötvað að silfurber eru besta uppspretta lýkópens sem völ er á. Gefum islenskt.is orðið, um hvað lýkópen er:
“Lýkópen er í flokki karótínóíða sem gefur tómötunum rauða litinn, er öflugt andoxunarefni og er talið veita vörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameini í blöðruhálskirtli og meltingarvegi.

Tómatar almennt eru mjög ríkir af lýkópen. Lýkópen magnið í Heilsutómötunum er að lágmarki 9 mg í 100 g sem er nær þrefalt það magn sem mælist í hefðbundnum tómötum.”

Lýkópen finnst víst bara í rauðum ávöxtum. Í silfurberjum er að lágmarki 30 mg af lýkópeni í 100 g, en meðaltalið mun vera 40 til 50 mg í 100 g (cornell.edu).

Berin eru einnig rík af vítamínum og auk þess próteini, sem mun vera nokkuð sérstakt. Hafa þau hlotið viðurnafnið “Goji ber vestursins” vegna heilnæmra eiginleika sinna.
Ræktun af fræi
Fræin eiga að spíra eftir fjögurra vikna heitörvun og síðan 12 vikna kaldörvun (heirloomseedswap.com). Heitörvun mun hins vegar ekki vera forsenda sprírunar (fs.fed.us).


Heimildir
Sylva.org:
http://www.sylva.org.uk/forestryhorizons/documents/Autumn_olive_QJF20060413.pdf
Pfaf.org:
http://www.pfaf.org/user/Plant.aspx?LatinName=Elaeagnus+umbellata
Cornell.edu:
http://www.fruit.cornell.edu/berry/production/pdfs/autumnolive.pdf
fs.fed.us:
http://www.fs.fed.us/database/feis/plants/shrub/elaumb/all.html
66 Square Feet:
http://66squarefeet.blogspot.com/2012/09/autumn-olives.html
heirloomseedswap.com:
http://www.heirloomseedswap.com/item/888

Mynd: good4youherbals.tumblr.com

lørdag den 5. januar 2013

Grenifræ og furufræ

Það tíðkast, í venjulegu árferði, að tína greniköngla í október og furuköngla í nóvember, til þess að ná úr þeim fræjunum. Hins vegar er lítið því til fyrirstöðu að ná úr þeim fræjum í desember og byrjun janúar, fyrir okkur sem erum gleymin. 
Fræ af furu (líklegast stafafuru) vinstra megin
og fræ af greni (líklegast sitkagreni) hægra megin.
Fyrsta árs furufræplanta í flagði.
Furutré á öðru ári.
I. Sitkagreni
Mikið er af sitkagreni út um allt höfuðborgarsvæðið (og víðar) til að tína köngla af. Í það minnsta held ég að það sé einkum grenið frá Sitka sem skreytist könglum hér á landi, ég á ekki svo gott með að greina grenitegundir. Þetta hefur Vísindavefurinn að segja um hvaða grenitegundir þroska helst fræ (Þröstur Eysteinsson):
Sitkagreni [Picea sitchensis] þroskar oftast fræ, í miklu magni um það bil einu sinni á áratug. Rauðgreni [Picea abies] og sitkabastarður [Picea x lutzii] þroska sjaldnar fræ og fremur sjaldgæft er að blágreni [Picea engelmannii] og hvítgreni [Picea glauca] blómstri og þroski fræ.
Við Hvaleyrarvatn 2008.
II. Stafafura
Stafafura (Pinus contorta) er algengasta furan í íslenskri skógrækt, enda sérlega nægjusöm um jarðveg. Fræ stafafuru eru jafnan tilbúin í nóvember og hún heldur fræinu í könglinum að mestu leyti fram undir áramót.
Fura 2011.
Eftirfarandi leiðbeiningar um meðferð stafafurufræs byggja á grein úr Gróandanum, 2. tbl. 11. árg. ágúst 1996 (höf. ekki nefndur) og grein Jóns Geirs Péturssonar skógarfræðings í Sumarhúsinu og garðinum, 4. tbl. 13. árg. 2005, birt á á rit.is 12. okt. 2005.

1. Söfnun - könglar
Stafafurufræjum safnað í nóv. / lok nóv. Könglar snúnir af, gott að vera í hönskum.

2. Þurrkun
Könglar geymdir við 20-25°, opnast eftir 1-2 daga. Eftir opnun er fræið hrist út en það ber að meðhöndla varlega.

3. Geymsla
Vel þurrt í lokuðu íláti við 0-4°.

4. Sáning
Þegar frost er úr jörðu, eða um miðjan maí. Ekki róta mold yfir fræin, má þjappa með hendinni til að fræ sé í góðri snertingu við mold. Plastkeila yfir fræin gæti verið hugmynd til að örva spírun og verja gegn fuglum og músum. Í grein Jóns Geirs er mælt með 4-5 fræjum undir hverri keilu. Best mun vera að sá í rofna gróðurþekju, ekki í gróðurlaust land (vegna holklaka) eða gróna jörð (spírar ekki).

5. Eftirfylgni
Plöntur koma flestar upp sama sumar, mælt er með tilbúnum áburði á smáplönturnar.

III. Könglar
Greniköngla er  auðvelt að snúa af greinunum og þeir þurfa ekki meira en nokkra klukkutíma við stofuhita til að fræin byrji að hrynja úr í talsverðu magni (hægt að hrista fræið úr í bréfpoka eða slá í þá með léttu selbiti). Um stafafuruköngla gildir annað, líkt og segir í franangreindi grein Jóns Geirs:
[Könglunum] er safnað með því að snúa þá af og þarf lag til að ná þeim án þess að skemma greinarnar. Eins eru þeir hvassir viðkomu og þarf því að nota vettlinga.
Furufræ t.v. og grenifræ t.h. 
Furukönglarnir þurfa lengri tíma við stofuhita heldur en grenikönglarnir til að opnast, um tvo sólarhringa. Eitthvað er af gömlum könglum á stafafurutrjám en þeir þekkjast ágætlega frá hinum á litnum.

Eitt sem ekki er tekið fram í neinum leiðbeiningum er að það er svolítið af furulús (pineus pini), eða mordýrum (collembola) í furukönglunum. Þetta er nánast eingöngu vandamál þegar um er að ræða köngla sem byrjaðir eru að opnast þegar þeir eru tíndir.

IV. Meðhöndlun og sáning
Um meðhöndlun fræsins áður en því er sáð má notast við leiðbeiningar Þórarins Benedikz, Meðhöndlun trjáfræs fyrir sáningu úr ritinu Við ræktum, Reykjavík maí 2002 (áherslubr. mínar):

"Meðhöndlun trjáfræs fyrir sáningu                       
Fræ trjátegunda hagar sér mjög misjafnlega við spírun. Fræ margra tegunda þarf enga sérstaka meðhöndlun og spírar fljótlega eftir sáningu. Í þeim hópi má nefna: birkitegundir, elritegundir, flestar lerkitegundir (fjallalerki, Larix lyallii undanskilið), margar furutegundir, þ.m.t. bergfura, fjallafura, 
gráfura og stafafura og sömuleiðis flestar grenitegundir.

Þeim tegundum er sáð strax, oftast án nokkurrar meðhöndlunar. Fræið er hulið með lagi af mold eða vikursandi. Lagið skal vera helmingi þykkara en fræið er svert. Undantekning er fræ birkis og elris [sem og furu]. Ef þurfa þykir má strá örlitlum vikursandi yfir það, en þá þarf að glitta í fræið.

Kaldörvun
Þessi aðferð hentar flestum tegundum sem ræktaðar eru hér á landi og er afar einföld:
1. Fræið er látið liggja í vatni í tvo sólarhringa.
2. Vatninu er hellt af og fræið sett í plastpoka sem er lokað vandlega og geymt í kæliskáp við 2-5 C í mismunandi langan tíma, sem er breytilegur eftir tegundum:
    2 a. 14-21 dags kaldörvun hentar lerki, greni og tveggja nála furutegundum. Einnig flýtir sú meðferð mikið fyrir spírun sitkagrenis og stafafuru.
    2 b. 30-40 daga kaldörvun hentar flestum þintegundum (Abies) og mörgum runnum.
    2 c. 60-90 daga kaldörvun þarf fyrir sveigfuru (Pinus flexilis), runnafuru (P. Pumila) og margar runna- og lauftrjátengudir t.a.m. Hlyn (Acer), sandþyrni (Hippophaea), toppa (Lonicera) og sírenur (Syringa).
    2 d. 120+ daga kaldörvun er oft notuð fyrir ýmsar 5 nála furutegundir, t.d. lindi- (Pinus cembra) og Makedóníufuru (P. Peuce), fjallalerki (Larix lyallii) og fyrir reynitegundir (Sorbus). Þó getur spírun dregist í 2 ár, þrátt fyrir langan örvunartíma. Þannig spírar hluti af fræinu árið seinna. Oftast er fræi af þessum tegundum sáð að hausti. Spírun getur tekið tvö ár og sú hætta er fyrir hendi að fræið verði étið af músum áður en það nær að spíra.
[...]
Ég vona að þessar upplýsingar komi ykkur að gagni og veiti ykkur hér með leyfi til að nota þær, en að sjálfsögðu að því tilskildu að málfræðin sé leiðrétt.
- Þórarinn Benedikz, Mógilsá"

Afraksturinn úr fjórum grenikönglum.
Varðandi tíma sáningar segir þetta um fræ stafafuru í fyrrnefndri grein á rit.is:
Best er að sá snemma vors, fljótlega eftir að klaki fer úr jörðu. Að hausti er meiri hætta á því að mýs eða fuglar éti fræið. Sáningin gengur síðan þannig fyrir sig að fræinu er sáð á jarðvegsyfirborðið án þess að rótað sé yfir það. Til bóta er að þjappa fræið létt með hendi til að það fái betri snertingu við jarðveginn.
Í plöntuvísi á plants.usda.gov kemur eftirfarandi fram, um sitkagrenifræ:
Propagation by Seed: Picea sitchensis seed requires no pretreatment if the seed is sown fresh, however a period of cold unifies and hastens germination (Dirr & Heuser 1987). Sow stored seeds as early in the year as possible. Preferably sow the seeds in a position in light shade. Seeds should be stored in a cool place and should not be allowed to dry out.
IV. Árangur af beinni sáningu?
Hér að framan er fjallað um sáningu beint í jörðu. Hægt er að sætta sig við hlutfallslega takmarkaðan árangur af fræsáningu beint í jörð, með því að sá nógu mörgum fræjum. Til að tryggja hærri spírun má sá fræjum í bakka og potta.

Mæla má með grein eftir Jón Geir Pétursson og Aðalstein Sigurgeirsson, Beinar sáningar á barrtjárfræi, í Skógræktarritinu 1997 (á skog.is). Eins og segir þar fylgir beinni sáningu meiri notkun á fræi og minni stjórn á umhverfisþáttum sem ráða spírun fræsins og plöntumyndun. Jarðvinnsla er forsenda fyrir góðum árangri, svo fræið komist í snertingu við jarðveginn.

Í tilraun félaganna var heildarspírun stafafuru 41% (8% við lok fyrsta sumars, 33% við loka næsta sumars), en 27% hjá sitkagreni (9% fyrsta sumar, 18% næsta). Með plastkeilum fór hlutfallið upp í 70% og 46%, en keilurnar auka hita, halda raka að fræinu og koma í veg fyrir vindrof. Ekki mældist munur eftir því hvort fræin voru óþakin eða þakin mold eða vikri. Látið er að því liggja að spírun á fyrsta sumri (árið 1993) hafi ekki verið betri en raun varð vegna þess að það var þurrt framan af og fremur kalt.

Sérstaklega er bent á í greininni að með beinni sáningu er komist hjá vandamálum sem tengjast aflögun rótarkerfis stafafuru, við ræktun eða gróðursetningu. Sitkagrenið og stafafururnar sem uxu i plastkeilum sýndu betri lifun, keilurnar drógu úr kuldanæðingi og virtust virka á móti frostlyftingu.

Aðalsteinn Sigurgeirsson hefur einnig sýnt að notast má við einnota plastglös (hvít eða glær) sem botninn er skorinn úr, jafnvel í gróðurlausu landi. Hann skellir lúku af mold (ca. 2 msk.) úr furuskógi í holu (gróp), leggur plastglasið á hvolf ofan á og stingur furufræjum niður um gatið. Eða blandar jarðvegi úr furuskógi saman við stafafurufræ. Verri árangur næst ef einungis eru gerð lítil göt á botninn í glasinu. Þar sem margar plöntur vaxa upp saman grisjar hann eftir 5-7 ár og skilur þá beinvöxnustu og hæstu plöntuna eftir.
Samanburður á lifun, úr grein Jóns og Aðalsteins.
Smellið til að stækka.
Fram kemur í greininni að næringarskortur virtist hamla árangri af bæði sáningu og gróðursetningu grenis, afföll hafi orðið mun meiri af því heldur en stafafuru, sem hafi einnig vaxið mun meira. Tilraunin fór fram í Mosfelli í Grímsnesi, þar sem jarðvegur er mjög snauður af næringarefnum.

Í frétt á skog.is þann 10. okt. 2011 segir frá tilraun skógarvarðarins á Suðurlandi við að sá fræi stafafuru beint í jörð 7 árum áður, í Mosfelli. Niðurstöður hans voru í stuttu máli að bein sáning sé "vænleg aðferð sem stunda mætti í meira mæli hér á landi."
7 ára stafafura í Mosfelli.
Mynd Hreins Óskarssonar, skógarvarðar á Suðurlandi, af skog.is.
V. Fyrsta árið.
Plantan sem vex upp af fræinu, kímplantan, skiptist í kímrót, kímstöngul og kímblöð. Kímblöð plantna af þallarætt eru 2-34 saman (t.d. 4-24 á furu) í einum krans (hvirfing). "Flest nálatré (barrtré) komast ekki nema á kímblaðastigið fyrsta árið, sé þeim sáð úti" (Ólafur B. Guðmundsson, Garðyrkjuritið 1990).

Hægt er að mæla með plastglösunum fyrir sáningu bæði furu og grenis. Eftirfarandi er úr grein Hákons Bjarnasonar um sitkagreni í Skógræktarritinu 1970:
Uppeldi sitkagrenis í gróðrarstöðvum er snöggtum erfiðara og meiri vandkvæðum bundið en annarra trjátegunda. Kemur þar fyrst til, að fræin eru lítil [hafa minna veganesti frá móðurinni en mörg önnur fræ, eins og segir á öðrum stað í greininni] og ungviðið viðkvæmt, en að auki er plöntum á fyrsta ári mjög hætt við kali, einkum á haustin. Afföll geta því oft orðið mikil þegar illa árar. Hér á landi hefur það ráð verið upp tekið fyrir mörgum árum, að sá öllu sitkagrenifræi undir gleri. Með því móti má verja sáðplönturnar fyrir hrakveðrum og þær verða miklu þroskaðri en ella að haustlagi og því auðveldara að verja þær holklaka yfir veturinn. Á allra síðustu árum hefur plast komið æ meira í stað glers, og vænta má að allt uppeldi verði brátt eingöngu í plasthúsum.
Ennfremur segir þar um dreifsetningu* (priklun) smáplantna:
Við dreifsetningu verður að setja sitkagreni með snöggtum meira bili á milli plantna en rauðgreni, varla undir 8 cm bili í röðinni. Sitkagrenið þarf að hafa nægilegt vaxtarrými fyrir neðstu greinakransana. Fari svo að þeir skemmist eða nái ekki nægum þroska, getur það valdið nokkurra ára vaxtartregðu eftir að plantan hefur verið gróðursett. 
* Þegar plöntur eru teknar úr fræbeðum, þar sem þær hafa verið í 2-3 ár og gróðursettar í dreifbeð með ákveðnu millibili (skilgreining af minjasafn.is - skógræktarverkfæri).
Sáðplanta / fræplanta / kímplanta
(d. sætteplante, frøplante, kimplante)