fredag den 28. juni 2013

Pluggbox - græðlingabox

Ég rakst á þetta sniðuga box í magasíni í Finnlandi, verðið um 22 evrur, rúmlega 3.500 krónur. Varan er framleidd í Svíþjóð og hugmyndasmiðurinn heitir Albert Eriksson frá Ed í Dalsland, Suður-Svíþjóð.

Á fyrstu dönsku vefsíðunum sem poppa upp við netleit er verðið 140-183 danskar, um 3.200-4.000 krónur.

Litla garðabúðin selur gripinn á rúmlega 5.000 krónur. Í gegnum Amazon.com má kaupa tvö stykki á rúmlega 5.000 íslenskar, með sendingarkostnaði innanlands í Bandaríkjunum. Þar er þetta selt undir nafninu Daled Compact Plant Trainer Mini Greenhouse Germination Kit. Varan er einnig seld undir nafninu Agralan, en mér finnst nú Pluggbox fallegra.


kan rengøres i opvaskemaskine.segir í lýsingunni á þessari vöru.

Skjaskot af Amazon.com.
Kynningarmyndbönd á YouTube á sænsku og ensku.

Fjallafura að koma upp í apríl.
Tilbúin planta í júlí.

lørdag den 1. juni 2013

Fiðrildalirfur

Á Reykjavíkursvæðinu eru einkum 3 tegundir fiðrilda sem valda trjáskaða, og er garðaúðun beint gegn þessum þrem kvikindum: haustfeta (operophthera brumata l.), víðifeta (hydriomena furcata thunberg) og skógvefara (epinotia salandriana l.) [hér er mögulega átt við tígulvefara, epinotia solandriana].  
[...] Fiðrildalirfur eru yfirleitt nokkuð matvandar, vilja aðeins éta af ákveðnum tegundum plantna. Skógvefarinn lifir nær eingöngu á birkilaufi, á þó til að fara á víði en ekki er það algengt. Víðifetinn sækir aðallega á víði og bláberjalyng, en étur stundum birki, rauðber og ræktaðar rósir. Haustfetinn er fjölhæfur í fæðuvali, sækir m.a. á reyni, birki, víði, hegg, álm, hlyn, rauðber, ræktaðar rósir og fleiri runna - raunar má segja að hann geti lagst á flest lauftré, þrífst þó yfirleitt ekki á ösp.
- Jón Gunnar Ottósson: Maðkurinn og eitrið, Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1983.
Hér að neðan er útdráttur úr tveimur greinum frá lokum síðustu aldar, um fiðrildalirfur.
Haustfeti



DV, Hús og garðar 6. maí 1998, Pétur Ólason:

Kannið ástand trjánna
„Fiðrildin verpa á haustin og lirfan klekst út á vorin. Aðaleyðileggingin er því snemma á vorin, stundum svo snemma að tréin ná ekki að laufgast eða um miðjan maí. Best er að strjúka trjágreinarnar og athuga hvort nagað brum losnar af en önnur visbending er ef trén laufgast óeðlilega seint. Þetta á sérstaklega við um víði og gljámispil en stundum étur maðkurinn laufin jafnóðum og þau koma. Birkið aftur á móti er yfirleitt byrjað að laufgast og ef það er maðkur í því spannar það blöðin saman utan um maðkinn.

Sé ástandið slæmt borgar sig að eitra en ef bara eitt og eitt brum er étið er ekki ástæða til uppnáms því lirfurnar klekjast bara út einu sinni á ári og það fer eftir stofnstærð þeirra hversu skaðinn er mikill. Hann eykst því ekkert þó lengra líði á sumarið. Haustfeti sækir á hegg.

DV, Hús og garðar 9. júní 1993, höf. óuppgefinn:

Lífsferill
Lirfurnar skríða úr eggjum í maí og er klaktíminn háður hitastigi. Fyrst eru lirfurnar litlar, líkar 1-2 sm tvinnaspotta og byrja að bora sig inn í brumblöðin. Brumin opnast smám saman og laufblöðin vaxa og lirfurnar vaxa líka. Vöxturinn er einnig háður hitastigi. Tveimur vikum eftir klak er lirfan farin að vefja blöðum utan um sig. Á því stigi sjáum við lirfurnar og segjum: „Maðkurinn er kominn".

Vöxturinn er háður hitastigi, þannig að tímasetningin á þessum atburðum getur hnikast til. Lirfan veldur mestum skaða í júní og fram í júlí og étur allt af blaðinu nema blaðæðar. Að því búnu skríður hún ofan í moldina, fyrir neðan tréð til að púpa sig. Púpurnar klekjast svo út sem fiðrildi í ágúst til að maka sig. Kvendýrin verpa eggjum á stofn og greinar plantnanna. Hjá haustfeta klekst púpan út seinna (í október) og kvendýrið, sem er vængjalaust skríður upp stofn plöntunnar til að hitta fleygt karldýrið til mökunar og varps. Eggin geymast til næsta vors.
DV, Hús og garðar 9. júní 1993.
Varnaraðgerðir
Hægt er að koma í veg fyrir varp hjá haustfeta með því að nota límborða sem settur er utan um stofn runna og trjáa [um mánaðarmótin ágúst-september]. Til er efni "Tree tangelfoot" í túpu eða úðabrúsa. Til að eyða eggjum er úðað í desember-mars með tjöruefnum [þau eru ekki notuð lengur, til eru náttúrulegar olíur sem nota má í sama tilgangi - aths. blogghöfundar]. Þá má ná árangri með því að hrista trén, úða með vatni eða grænsápulegi eða tína lirfurnar úr laufinu.

Ef útlit er fyrir faraldur eftir hlýjan vetur er skordýraeitri úðað áður en mesta tjónið verður, eða fyrstu tvær vikurnar í júní. Þá er um að gera að nota kvæmi sem hafa viðnám gegn meindýrum.
Rifs eftir fund með lirfu haustfeta



Í Skógræktarritinu 1983, síðu 36 (bls.tal 34), er yfirgripsmikill listi yfir feta og önnur fiðrildi ásamt matseðli hvers og eins.