onsdag den 2. august 2017

Göngustígur úr viðarkurli

Hér er hreyfimynd af göngustíg sem lagður var fyrir 2 árum með ókeypis trjákurli / viðarkurli frá Gámaþjónustunni í Hafnarfiði. Nánast engin jarðvegsvinna fór fram áður en kurlinu var dreift heldur var það lagt yfir slóða sem hafði myndast við umgang og því er lögun gangstígsins frjálslegri en ella. Stígurinn fer yfir lítt gróinn móa og mosaþembur og helst á sínum stað þótt blási en rennur til við umgang ef halli er mikill. Eftir að reynsla var komin á stíginn var grjóti hlaðið hér og þar til að hindra að kurlið renni burt. Kurlið, sem mikið til er úr vörubrettum, er mjúkt undir fót.


onsdag den 11. januar 2017

„Hnífapör eiga að vera eins og venjulega af því að lífið á að vera eins og venjulega. Venjulegt líf þarf maður ekki að skammast sín fyrir, í venjulegu lífi tekur maður til í eldhúsinu, heldur öllu í röð og reglu á svölunum og sér um börnin. Það er nefnilega meira verk en margur hyggur. Að hafa svalir.“
- Fredrik Backman: Britt-Marie var hér (þýðing Jóns Daníelssonar 2015). 
Svalaræktun á matjurtum fær reglulega umfjöllun víða í þjóðfélaginu en minna er fjallað um trjárækt á svölum. Það er svo að trjárækt í stórum pottum og ílátum er ágætlega hentug fyrir runna og hægvaxta eða lítil tré. Ella er kjörið að nýta svalir fyrir uppeldi á trjáplöntum sem til stendur að setja á varanlegan stað síðar - reka þar persónulega gróðrarstöð.

Í Frækorninu nr. 35 sem kom út í lok árs 2016 fjallar Hafsteinn Hafliðason um skógrækt á svölum. Hann rekur réttilega að heppilegt sé að nýta veggpláss og hafa skóginn á hillum, annað hvort í pottum eða í bökkum, 12-15 cm háum og 25-30 cm breiðum. Ræktunin sem hann mælir með á mest skylt við smátrjárækt (bonsai-trjárækt) því þar er lýst aðferðum við að halda trjám í dvergvexti með því að taka 1/3 af toppsprota og 2/3 af hliðarvexti þegar vaxtartímabili lýkur og best sé að notast við barrtré.  

Suðursvalir, ágúst 2015.

Suðursvalir, desember 2015.
Frækornið nr. 35 (2. tbl. 216). Teikningin er eftir Helga Þórsson.