onsdag den 28. december 2011

Hindberjahálfrunni

Hindber eru ekki ræktuð af undirrituðum, enda erfitt sökum afstöðu garðsins sem til umráða er til sólarinnar.
Hindber. Mynd af fésbókarsíðu
Gróðrarstöðvarinnar Þallar, 13. ág. 2011.
Fróðleikur um hindber.
Hindber eru hálfrunni, eins og Helgi Þórsson útskýrir í Bændablaðinu 23. sept. 2008:
Það þýðir að engin grein á runnanum lifir meira en tvö ár. Ferillinn er þannig að fyrsta árið vex upp grein sem annað árið blómstrar og kemur með ber og sölnar og deyr að því loknu.
Hindberjarunni þolir hálfskugga skv. Mork.is en á Havenyt.dk segir að of lítil sól komi niður á berunum og að skjól sé einnig mjög æskilegt: “Hindbær kan tåle lidt skygge, men også kun lidt, der skal være sol det meste af dagen i hindbærbedet for at få aromatiske bær. Der skal også være læ, så bierne kan lide at gå på arbejde.” Á natturan.is segir að uppskera hindberjarunna sé afskaplega rýr á Íslandi nema í bestu sumrum, en líklega er það örlítið gamalt viðhorf. Hindberjarunnar geta dafnað vel á Íslandi séu þeir í góðu skjóli sagði Bergrún A. Þorsteinsdóttir aðstoðarskógavörður í hádegisútvarpinu 10. ágúst 2010.

Í Garðheimablaðinu, 1. tbl. 2011 skrifar Jóna Björk Gísladóttir um hindber:
Plönturnar gera kröfu um vel valinn stað í garðinum, sólríkan og skjólgóðan. Þau gera minni kröfur til jarðvegsins en þó er gott að blanda lífrænum áburði saman við moldina áður en þau eru gróðursett og passa að vökva, sé mikill þurrkur úti. Misjafnt er eftir yrkjum hversu háar og umfangsmiklar plönturnar verða, en flestar eru um 2 metrar á hæð eða jafnvel hærri. Því er nauðsynlegt að veita þeim stuðning, þannig að þær leggist ekki niður. Það er hægt að gera á nokkra vegu, t.a.m. með því að styðja við hverja plöntu, stinga staurum niður á hverju horni og bandspotta í kringum svæðið, setja vírgirðingu eða nota önnur tiltæk ráð sem henta hverjum stað fyrir sig.
Hindberjaplöntur fjölga sér með rótarskotum, en rótakerfið nær þó ekki lengra en um 15 cm ofan í jörðina. Því getur verið gott að setja einhvers konar skilrúm 15-20 cm ofan í jörðina í kringum það svæði sem hindberin eiga að fá undir sig, til að halda rótarskotunum á réttum stað. Það má t.d. gera með plastbeðkanti eða með því að smíða kassa utanum hindberjaræktunina. Annars er hætta á að plönturnar skjóti sér yfir í næstu beð eða jafnvel ennþá lengra. Mjög mikilvægt er að halda vel utan um rótarskotin vilji maður að plönturnar fjölgi sér. Þá gefa hindberjaplöntur einungis ávöxt á annars árs sprota og eru því í sífelldri endurnýjun. Þegar sprotarnir eru búnir að gefa af sér ávexti á haustin er gott að klippa þá niður, en passa þarf að fjarlægja ekki ræturnar þannig að nýir sprotar geti vaxið upp frá þeim sem gefa síðan ávöxt ári síðar. Hindberin eru mjög fl jót að dreifa sér, en gera má ráð fyrir að það taki nokkur ár að koma ræktuninni það vel af stað að hún gefi mikið af sér. Algengt er að settar séu niður 3-4 plöntur í upphafi ræktunar með um 50 cm millibili, sem ætti að verða orðið að myndarlegri þyrpingu eftir 4 ár eða svo.

Jón Kristófer Arnarson segir svo frá í Dagskránni 3. júní 2010:
Hindberjaplantan er þyrnóttur hálfrunni sem blómstrar á tveggja ára greinar sem síðan kala niður veturinn eftir. Þá taka sprotar fyrra árs við árið eftir og svo koll af kolli. Klippa þarf dauðar greinar og búa í haginn fyrir hæfilegt magn af nýjum greinum sem koma frá rót.
Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur fjallar um hindber í Mbl. 14. sept. 2002:
Hindber (Rubus idaeus) eru enn sem komið er sárasjaldgæf hér á landi. Þó hefur runninn gefið af sér ágætis uppskeru á nokkrum stöðum og greinilegt að hann getur þrifist með ágætum í skjólsælum görðum. Hindberjarunninn er allólíkur rifsi því hann myndar aldin á greinum frá fyrra ári og eru greinarnar síðan klipptar niðri við jörð að uppskeru lokinni. Alltaf þarf að fjarlægja allar gamlar og dauðar greinar. Gott getur verið að binda upp plönturnar á víra sem strengdir eru á milli staura sem ná upp í 130 cm á hæð. Strengdir eru vírar í 75, 100 og 130 cm hæð. Síðan eru greinarnar bundnar við vírana með garni þannig að um 10-15 cm séu á milli greina. Hæfilegt millibil á milli plantna er 40-50 cm, þannig mynda þær hálfgert limgerði. Líka má rækta plönturnar án stuðnings. Hindber senda út mikið af rótarskotum og þau þarf að uppræta reglulega. 
Ræktun í potti.
Það gefur augaleið að ræktun í potti kemur í veg fyrir að rótarskot hindberjarunna verði vandamál. Á vefnum Making Rainbows segir að þó þurfi að passa upp á sprotafjöldann, því ef sprotarnir verði of margir þá geti þeir stolið næringu og sól hvor af öðrum sem kemur niður á berjafjölda. Þar segir einnig að ólíkt sólberjum og jarðarberjum, vilji hindber ekki láta hita sér um ræturnar – það þarf því að passa að pottarnir hitni ekki um of og baki ræturnar. Rótarkerfi hindberja er grunnt eins og hjá jarðarberjum og því er ekki þörf á mjög djúpum pottum.

Mælt er með því að pottar séu 30 til 40 cm í þvermál og um 20 lítra. Skera á niður eldri sprota um leið og þeir hafa borið ber svo nýrri sprotar fái meira rými til að vaxa.

Villt hindber.
Þorvaldur Pálmason segir frá því á berjavinir.com (ódagsett) að hindber hafi náð náttúrulegri útbreiðslu í birkiskóginum að Mógilsá með rótarskotum og jarðrenglum. Á skogur.is má finna grein frá árinu 2005 um þessa runna á Mógilsá:
Hindberjarunnar vaxa nú á tæplega hálfs hektara svæði á Mógilsá, að mestu undir laufþaki tæplega 40 ára gamals birkiskógar. Nær hann að mynda þar tæplega mannhæðarhátt, þétt runnalag. Hindberjarunnarnir hafa breiðst ört út um skógarbotninn með rótarskotum og jarðrenglum en einnig eru þekkt dæmi um sjálfsánar hindberjaplöntur. Að sögn Þórarins Benedikz er saga hindberjanna orðin aldafjórðungslöng á Mógilsá. Hann gróðursetti sjálfur tíu plöntur á þessum stað árið 1981 og voru þær plöntur ættaðar úr Þrændalögum í Noregi. Hafa þær breiðst út mikið síðan. Tæpum tíu árum síðar, eða árið 1991, varð fyrst vart við umtalsverða berjasprettu og náðu berin þá góðum þroska. Frá þeim tíma hafa hindber náð fullum þroska í flestum árum, einkum í hlýju árferði. 
Í ársskýrslu Aldingarðsins í Kristnesi 2007 er eftirfarandi umfjöllun:
Þann 25/5 Fórum við Helgi og Beate ásamt Þórði sérlegum aðstoðarmanni til Mógilsár að afla þar hindberja rótarskota, en mikil hindberjabreiða er fyrir ofan hús rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá. Þórarinn Benediktson fræddi okkur á því í símtali að þetta væru allt fræplöntur frá Þrændarlögum  og upphaflega hafi um tíu plöntur verið gróðursettar. Enda virtist nokkur munur á klónunum þó allir yxu þeir að einhverju leiti saman.
Á skilti sem þar er að finna segir að fyrstu plönturnar hafi verið
gróðursettar 1982, berin séu æt og þroskist í september.
Hluti af hindberjabreiðunum við Mógilsá, brum að opnast í apríl. 
Í ársskýrslunni segir einnig frá hindberjabreiðunni í Fossvoginum, "á hægrihönd þegar ekið er frá sjúkrahúsi að ræktunarstöð".
Hindber í alfaraleið í Fossvogi.
Gömul og góð ráð.
Í Fálkanum, 15. tbl. apríl 1953, má finna uppskrift að sæmilegri hindberjauppskeru:
Hindberjarunnum er fjölgað með rótarsprotum. Móðurplönturnar þurfa að hafa 1 1/2 meter milli raða, og 1 meter milli plantna í röðinni og vera gróðursettar í djúpan og myldinn, áburðarríkan jarðveg. Þær þola illa þurrk. Ef óskað er eftir að framleiða mikið af rótarsprotum til fjölgunar plöntunum og til sölu, verður að klippa mikið ofan af runnunum en það verður á kostnað uppskeru berjanna, en við þetta eykst hæfileiki plantnanna til fjölgun rótarsprotanna, en moldin þarf að vera laus í sér, myldin og áburðarrík til þess að rótarsprotarnir þroskist vel. [...]

Um ræktun þeirra að öðru leyti er rétt að nefna eftirfarandi. Sumarið hér á landi er tæplega nógu heitt að jafnaði, svo að árlega megi reikna með góðri berjatekju, en ætti þó í flestum árum að vera sæmileg. Velja þarf þeim góðan stað í garðinum þar sem skjól er og nýtur vel sólar. Runnarnir verða aldrei mjög háir, kemur það til af því að greinarnar verða aðeins tveggja ára. Seinni veturinn deyja þær niður að rót. Fyrra sumarið geta þær orðið 1 m á hæð, annað sumarið bera þær greinar hlíðargreinar með berjum ef ræktunin er i góðu lagi. Það haust eru gömlu greinarnar klipptar niður við jörðu. Næsta vor er þeim greinum sem sprottið hafa upp af rótinni sumarið áður fækkað og látnar standa eftir þær kraftmestu, t. d. 5—8 greinar á hverjum runna og um leið er rétt að stytta þær nokkuð til að hliðargreinar myndist. Greinarnar þurfa stuðning, verður þvi að binda þær upp að tréspelku eða styrkja þær á annan hátt.

Þar sem hindber eru ræktuð vegna berjanna, en ekki vegna plöntusölu, er hæfilegt millibil milli plantna, rúmlega 1 m. á hvorn veg. Ekki er ráðlegt að gera plönturnar eldri en 8 ára því eftir það gefa þær litla eða enga uppskeru. Hindber bykja herramannsmatur og hið mesta lostæti.

torsdag den 4. august 2011

Dauðinn og eilífðin

Falls er von af fornu tré segir spakmælið. Meðfylgjandi eru hins vegar myndir af nokkrum trjám sem sofnað hafa dauðadúrnum nokkuð fyrir aldur fram.

Birkihrísla nálægt Nýbýlavegi.
Banamein e.t.v. sumarleysan 2011.
Það er kannski ekki svo skrítið að Íslendingar séu viðkvæmir fyrir því að tré drepist, enda trjágróður og sér í lagi hávaxinn trjágróður ekki mjög algengur hér á landi þar til fyrir um 20-30 árum.
Óheppin ösp í Grasagarðinum í Laugardal.
Mögulega drepin í fegurðarskyni.
Grenitré ofan við Fossvogsdal ásamt
myndarlegum bræðrum sínum.
Í Laufblaðinu 1997/1, bls. 22, var fjallað um dauða grenitrjáa, í kjölfar þess að talsvert af stórum og frískum sitkagrenitrjám hafði gefið upp öndina sumarið áður. Þessa skýringu á samspili umhverfisþátta gaf Guðmundur Halldórsson, sérfræðingur Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, á fyrirbærinu:
Yfirleitt stóðu þessi tré þar sem jarðvegur er frekar illa ræstur og þéttur. Veturinn áður voru mikil frost, sem ollu því að klaki fór djúpt í jörð. Vorið var frekar kalt, þannig að klaki var lengi í jörðu fram eftir vori. Þegar kom fram í maí og vöxtur trjánna fór af stað var jörð ennþá frosin. Þegar sól fór að skína, virðist einstaka tré ekki hafa náð upp nægjanlegu vatni til móts við það sem tapaðist út um barrið. Á sumum stöðum voru þetta tré sem virtust hafa orðið á eftir í lífsbaráttunni og voru þannig líklega eitthvað veikari fyrir. 
Þessir samverkandi þættir, eða jarðvegsgerðin, frostið, vorkuldinn og sólfarið virðast hafa valdið álagi sem dró viðkvæmustu trén til dauða. 
Nokkrar fyrrum tignarlegar aspir neðarlega við Smiðjuveg.
Dauðinn má svo með sanni
samlíkjast, þykir mér,
slyngum þeim sláttumanni,
er slær allt, hvað fyrir er.
Grösin og jurtir grænar,
glóandi blómstrið frítt,
reyr, stör sem rósir vænar
reiknar hann jafnfánýtt.
Úr ljóðinu 'Um dauðans óvissa tíma' e. Hallgrím Pétursson.
Lifandi tré fjölgar lengi greinum, segir spakmælið.
Það á ekki við um þetta uppgrafna birkitré í Fossvoginum.
Kanínuófétin í Elliðaárdal eiga allnokkur tré á samviskunni.

Reynitré í miðbænum sem gefist hafa upp,
við erfið lífsskilyrði, m.a. saltrok.

Birkikvistur heldur fegurð sinni í um 15 ár

Blessaður kvisturinn þurfti að þola lélega vökvun fyrr í sumar
og skrænlaði svolítið.
Birkikvistur er runni sem ekki þarf að klippa reglulega. Hann heldur fegurð sinni í ein 15 ár en upp frá því dregur úr blómgun og greinar fara að feysknast. Þá er gott að skera hann niður, alveg niður undir rót og láta hann síðan vaxa upp aftur.

Ef klippa á runnann í kúlu eða móta hann á annan hátt ætti að gera það um leið og blómgun lýkur, miðsumars.
- segir á rit.is.

Birkikvisturinn á austursvölunum var alinn upp sem sunnukvistur þar til í ágúst 2011, þegar við áttuðum okkur á því að hann var enginn sunnukvistur. Greinarnar á honum eru ekki útsveigðar og alsettar blómum heldur koma á hann blómaklasar á víð og dreif. Hann er lágvaxinn og þéttvaxinn "blendingur tegunda uppruninn i norðausturhluta Asíu" skv. vef Gróðrastöðvarinnar Réttarhóls. Hann er jafnframt "auðræktaður, harðgerður og gríðarlega blómríkur" líkt og fram kemur á draumagardar.is.

Í Tímanum 12 júlí 1979 segir svo frá:
Birkikvistur (S. betulifolia) hefur náð miklum vinsældum og útbreiðslu hin siðari ár, enda fremur harðgerður og mjög fagur í blómi, alsettur hvitum blómsveipum í júlí-ágúst. Verður um 75 cm á hæð, laufin svipuð birkiblöðum.
Á vef Garðplöntusölunnar Borgar segir að birkikvistur verði 0,7-1,5 m á hæð en flestar aðrar heimildir segja að hann verði um 1 m á hæð. Samkvæmt ehow.co.uk eru til dvergafbrigði af spirea sp sem verða einungis um 60 cm og stór afbrigði sem ná 3 m hæð. Í blaði OR, Sumarhúsið (2008) segir að birkikvistur þoli hálfskugga og kjósi fremur sendinn og næringarríkan jarðveg.

Kvisturinn okkar kelur stundum svolítið en vex á móti talsvert á hverju sumri. Reyndar þola nýju greinarnar ekki svo mikið rok - þær brotna þegar verst lætur. Mest blómgast á 2 ára greinar segir á vef Blómavals.

Um snyrtingu skrautrunna 'sem blómstra á annars árs sprota' segir Vilmundur Hansen á facebook-síðunni 'ræktaðu garðinn þinn' að ekki megi klippa ofan af þeim á vorin. Meðal slíkra runna eru meyjarrós (Rosa moyesii), fjallarós (Rosa pendulina), birkikvistur (Spiraea sp.) og sunnukvistur (Spirea nipponica). "Sé það gert er hætt við að allir blómvísar séu klipptir burt. Klippa skal þessa runna síðla sumars eftir blómgun." Mjög ítarlegar leiðbeiningar Kristins H. Þorsteinssonar um klippingu birkikvists voru birtar í Mbl. 7. apríl 2004, leita má að "Klippingar - birkikvistur" á netinu til að finna þær. Víða er hins vegar mælt með því að leyfa birkikvisti að vaxa óáreittur og klippa hann aðeins þegar fjarlægja þarf gamlar greinar (t.d. vegna þurkka eða vorkals). Hann mun enda vinsæll í óklippt limgerði.

Á vef Lystigarðs Akureyrar og Nátthaga er latneskt heiti birkivists sagt vera spirea betulifolia, sem aftur er víðast hvar kallaður Heiðarkvistur á netinu. Nátthagi kallar Spiraea sp. vonarkvist. Kynlegir kvistir þessir plöntusérfræðingar.
Laufblöðin eru falleg. Haustlitirnir eru líka frábærir.
Á vef  Karls Guðjónssonar, garðyrkjustjóra Kirkjugarða Reykjavíkur (ekki lengur á netinu) er svohljóðandi umfjöllun um birkikvist:
Harðgerður runni, þrífst víða um land við sjávarsíðuna, er síðri inn til landsins. Þolir talsverðan skugga. Gerir ekki miklar kröfur til jarðvegs. Sum ár kelur Birkikvistur alveg niður í rót en hann jafnar sig fljótt af því. Notaður í lág limgerði klippt eða óklippt, runnaþyrpingar, einnig auðvelt að forma í t.d. kúlu. Með aldrinum verður mikið af dauðum greinum inní runnanum og getur þá verið ágætt að klippa hann alveg niður og láta hann endurnýja sig þannig, einnig er gott að grisja dauðar greinar innan úr runnanum árlega og opna hann aðeins þannig, en það er nokkuð mikil vinna.

mandag den 1. august 2011

Broddfura sem bragð er að

Tvær broddfurur (pinus aristata) voru keyptar í júlílok 2011 á Flúðum fyrir 2.000 kr. stykkið (víða kosta svipuð eintök 4-5 þúsund). Einni var komið fyrir í sumarbústaðarlandi en systir hennar fékk stað á austursvölunum hér í Kópavogi.

Broddfura vex rólega og er þeim kostum búin að lús sækir ekki í hana (frekar en aðrar fimm nála furur) og hún á að þola vel umhleypinga. Henni er lýst sem harðgerðri en afar seinvaxinni og varað er við því á skog.is að hún drepist úr sveppasjúkdómum í útsveitum og á S- og V-landi. Þröstur Eysteinsson hefur lýst ástandi stofnsins með þessum hætti: Broddfura er nánast horfin úr skógum um allt land nema á Héraði. Furur sem standa stakar og hafa næga birtu verja sig betur en furur sem finna fyrir þrengslum. Eina vörnin er sem sagt að gefa þeim nóg pláss.
Broddfuran er auðþekkt á harpixleifum á
nálunum, sem hefur verið líkt við flösu.
Þá er víst betra að skýla plöntunni fyrir verstu vindhviðunum. Eftirfarandi er bútur úr viðtali í Þjóðviljanum 26. maí 1990 við Ásgeir Svanbergsson deildarstjóra hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur:
En hér á landi er ekki mest um vert að hafa frostþolnar tegundir, heldur plöntur sem þola þennan endalausa vindstrekking og umhleypinga. Ég get nefnt sem dæmi tré sem er alveg geysilega frostþolið, sem er broddfura. Okkur hefur gengið hreint út sagt illa að rækta hana hér á landi, því hún þolir ekki þessar suðvestan hryðjur og storma. Hins vegar þolir hún tuttugu gráðu frost. Spurningin er því „hvar er tré harðgert?" Það er ekki hægt að alhæfa um harðger tré. 
Broddfuran er fyrirmyndar pottaplanta skv. desert-tropicals.com:
The Bristlecone Pine can be used as a container plant for many years, thanks to its extremely slow growth rate. The trees don't like to be transplanted, and they should be put in their definitive locations when they are 2 to 3 feet tall (60-90 cm), at most.
Undir þetta tekur Sigríður Hjartar í Fasteignablaði Mbl. 11. febrúar 2008: "Furur almennt þola illa flutning eftir að þær eru komnar verulega á legg og hæpið er að flytja furur sem eru orðnar meira en meters háar."

“It grows well in semi-shade, and prefers low levels of water”, segir á plantdatabase.co.za. Margar heimildir segja þó að henni líki illa við skugga. Fimm nála furur eins og broddfura, lindifura, sveigfura, runnafura og klettafura eru ekki viðkvæmar fyrir furulús eins og tveggja nála furur eru (t.d. útrýmdi lúsin nánast skógarfuru á Íslandi á 6. áratug 20. aldar, hún herjar ekki jafn mikið á stafafuru).
Trjákvoða / harpix (harpeis).

Þá verður broddfura mjög gömul, meira en 1.500 ára þar sem hún vex villt (náskyld frænka hennar, pinus longaeva, verður mörg þúsund ára og er langlífasta lífvera á jörðinni). En, í görðum er hún "never as long-lived as in the wild, typically living less than 100 years before it succumbs to root decay in the warmer, moister conditions prevalent in most inhabited places" skv. Wikipedia.
Broddfura á Hallormsstað. Úr Lesbók Mbl. 1982.
Fjallafura (sem einnig er hægvaxta háfjallafura) verður til samanburðar ekki eldri 50-70 ára skv. grein um upphaf íslenskrar skógræktar í Lesbók Mbl. 7. júní 1982. Fjallafuran er ættuð frá fjallgörðum Suður og Mið-Evrópu en broddfuran er frá háfjöllum N-Ameríku. Þar segir jafnframt:
Greiní Mbl. 1980.
Smellið til að stækka.
Í raun og veru er það ósköp eðlilegt að háfjallategundir skuli hafa reynst best af öllum þeim fjölda tegunda, sem sáð var til og fluttar voru til landsins á þessu tímabili [1899-1906].
[...]
Í háfjöllum meginlanda eru sumur stutt og hitamismunur dags og nætur getur orðið feikna mikill. Vaxtartíminn er víða skemmri en 90 dagar, og sums staðar er hætta á næturfrostum í öllum mánuðum árs þar sem broddfura og blágreni vaxa hæst yfir sjó.
[...]
Þá má og minna á þá staðreynd, að háfjallatré vaxa fremur hægt frá ári til árs, og margar tegundanna eru lengi að vaxa úr grasi. Fjallafura er ein 10 til 15 ár að búa um sig eftir gróðursetningu og vex þá nauðalítið, en eftir það tekur hún vaxtarkipp og bætir miklu við hæð sína á skömmum tíma. Broddfuran er enn seinni að vaxa og bætir varla meira en 7 til 10 sentímetrum við hæð sína á hverju ári alla ævina.
Sigríður Hjartar segir í Fasteignablaði Mbl. 12. feb. 2007 frá broddfuru sem í fávisku sinni vex um 20 cm árlega og í Mbl. 20. júní 1992 segir Ágústa Björnsdóttir að ársvöxturinn sé 10 - 15 cm að jafnaði. Broddfuran nær allt að 15 m hæð og verður 1 m á breidd.

Furan á svölunum er rúmlega 60 cm á hæð og sýnir ársvöxt upp á um 20 cm. Á gróðrastöðinni var hún sótt í gróðurhús þar sem hún hefur líklega alið fyrstu ár ævi sinnar. Hún mun núna þurfa að aðlagast örlítið hranalegri aðstæðum næstu misserin.

Barrnálar broddfuru lifa í 10 - 17 ár en almennt haldast nálar á furum í 2 - 5 ár. Það kemur aldrei nál í stað nálar sem fellur, líkt og Sigurður Blöndal komst að orði í Sunnudagsblaði Mbl. 15. ágúst 1993. Þessa lýsingu á greinum broddfuru er að finna á vefnum draumagardar.is:
Greinar hennar eru þéttstæðar með stuttum smágreinum. Árssprotar eru 5 – 15 cm langir og eru þeir appelsínubrúnir í fyrstu af löngum nálarslíðrum og hárum sem hylja aðlægar nálar fram í lok júní. Nálar breiða síðan úr sér næsta vor.
Umfjöllun um broddfuru og lindifuru í Mbl. 1992.
Smellið til að stækka.
Broddfura í blóma - af facebookvef
Gróðrarstöðvarinnar Þallar
Broddfura í Kópavogi.
Síðast uppfært í janúar 2014.

torsdag den 3. marts 2011

Bráðlátt blátré í marsbyrjun

Blátoppurinn (s. blåtry) er fyrsta trjáplantan til að vakna af dvala árið 2011 hér í svalagarðinum. Það er víst ekkert óvenjulegt að brum opnist á þessum plöntum í mars.
Á directgardening.com er að finna eftirfarandi fróðleik um blátopp:
Produces large crops of elongated blueberry-like fruits 1-2 years after planting. [...] Two varieties are required for pollination.

Sigríður Hjartar segir frá því í Mbl. 20. feb. 2006 að blátoppur virðist hitastýrð planta (frekar en að birtan stýri dvalartíma) og láti því hlýindakafla rugla sig í rúminu. Kallar hún það góugróður, sem sprettur í mars.

Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1990 segir frá því að almennt hafi þótt hætt við því að blíðviðri á góu vissi á vorharðindi og góugróður væri ekki til frambúðar:
Úti hríðar herðir bál.
Hryggð og kvíði grípa sál.
Gata er tíðum grýtt og hál.
Góublíðan reynist tál.
Oft góuhlýjan blekkir blómin smá.
(Einar M. Jónsson, Brim á skerjum, 1946) 

Í samræmi við þessa vantrú á góublíðu er notkun orðsins góugróður um það sem hverfult þykir og rótlaust svosem skammvinn æskuást eða hugsjónaglóð á sviði framkvæmda og félagsmála.
Það er slatti af blátoppsrunnum rétt hjá sem ekkert eru byrjaðir að hugsa sér til hreyfings [uppfært: þeir fóru svo af stað í lok apríl]. Að líkindum er minn af þessari blessuðu Kamtsjaka tegund sem alltaf fer of snemma af stað. Ágústa Björnsdóttir segist einnig eiga slíkt eintak í Mbl. 22. ágúst 1987:
Blátoppurinn minn er oft svo fljótur á sér að ég fæ sting í brjóstið og óttast vorhretin, en þótt um hann næði á vorin nær hann sér fljótt aftur. [...] Hann er harðgerður og vindþolinn og þolir vel klippingu og hafa margir gaman af að klippa hann í kúlur.
Hafsteinn Hafliðason segir svo frá toppum í Fbl. 27. júlí 2006:
Oft byrja þeir að bruma í vetrarhlýindum síðla vetrar, en það virðist sjaldan gera þeim mikið til. Þótt fyrstu brumin kali þegar hret skella á aftur, eiga þeir önnur brum í varasjóði sem þau skjóta út þegar vorið gengur í garð fyrir alvöru. En af því að flestir toppar blómgast á ársgamla sprota er viðbúið að blómgun farist fyrir hjá þeim þegar þetta kemur fyrir.
Trausti Gunnarsson verslunarstjóri í Blómaval ræðir um kosti blátoppsins í DV 4. júní 1987:
Þá er enn ótalinn einn kostur blátoppsins og raunar annarra toppa. Vorhret skaðar þá ekki hið minnsta. Eins og í vor, er kuldakastið kom eftir ótímabært vor, hafði það engin áhrif, topparnir sem byrjaðir voru að bruma hættu vexti og biðu þangað til aftur hlýnaði og héldu þá áfram að vaxa.
Byko auglýsing - Mbl. 5. júní 1996.
---
Uppfært, ágúst 2011:
Kuldakastið í maí virðist ekki hafa haft áhrif á brumin sem fóru af stað í mars, á meðfylgjandi mynd er blátoppurinn 1. ágúst 2011. Innfellda myndin er tekin ári áður.

søndag den 13. februar 2011

Vetrargræðlingar Guðríðar

Guðríður Helgadóttir skrifaði greinar um meðferð vetrargræðlinga í Mbl. í maí 1998 sem eru fullar af fróðleik. Þær eru endurbirtar hér auk greinastúfs eftir 'SKE' um sama efni sem birtist í DV í maí 1993. Á dönsku er talað um stiklinga (vinterstiklinger) og á ensku afklippur (winter cuttings).

Fyrri hluti umfjöllunar Guðríðar lýtur að vetrarverkunum, klippingu og geymslu.
Meðferð vetrargræðlinga I - Klipping og geymsla
Nú fer hver að verða síðastur að klippa og snyrta til trjágróðurinn í garðinum hjá sér fyrir sumarið. Best er að öll vaxtarmótandi klipping á trjágróðri fari fram á meðan plönturnar eru í dvala, bygging plantnanna sést betur og þær verða síður fyrir skakkaföllum af völdum klippingarinnar. Það hefur löngum verið talin ágætis búbót að nýta afklippur af trjágróðri í græðlinga. Heitið vetrargræðlingar er dregið af því að græðlingarnir eru klipptir að vetri til eða mjög snemma vors og eru þeir lauflausir. Ekki er hægt að fjölga öllum trjátegundum með vetrargræðlingum. Víðitegundir og aspir eru einna auðveldastar, rifsrunnum má gjarnan fjölga með vetrargræðlingum og einnig er til í dæminu að taka vetrargræðlinga af hansarós, sýrenum og jafnvel toppum. Vetrargræðlingataka er eins og öll önnur ræktun, ekki er um einn heilagan sannleik að ræða. Því er um að gera að nota ímyndunaraflið og prófa sig áfram með aðrar tegundir ef áhugi á því er fyrir hendi. 
Vetrargræðlingar eru, eins og áður segir, klipptir að vetri til en ekki er tímabært að stinga þeim í mold fyrr en frost er farið úr jörðu, í lok maí – byrjun júní. Best er að klippa græðlingaefnið strax niður í heppilegar lengdir, setja dálítinn slatta saman í búnt og bregða teygju utan um það. Því næst er græðlingabúntunum pakkað í plast og þau geymd í kæli eða frysti fram á vorið. Fyrir þá sem ekki hafa óendanlega mikið pláss í ísskápum eða frystikistum má geyma pokana með græðlingabúntunum utan dyra en þá þarf að velja þeim skuggsælan stað í skjóli. Ef græðlingarnir hitna of mikið á meðan á geymslunni stendur er hætta á því að þeir fari að vaxa og fer þá dýrmæt orka til spillis. Glærir pokar eru ágætir ef geyma á græðlingana í kæli eða frysti en þeir sem þurfa að geyma þá utandyra ættu frekar að velja hvíta plastpoka. Það dregur úr hættunni á því að hitni í pokunum, hvíta plastið hitnar ekki mikið ef sólin skín á það og skyggir vel á græðlingana sem eru undir því. 
Lengd græðlinga fer mikið eftir því um hvaða tegund er að ræða og hvort stinga á græðlingunum beint í beð eða í potta. Óhætt er að hafa græðlinga sem stinga á í beð töluvert lengri en græðlinga sem stinga á í potta. Vetrargræðlingar af grófgerðum víði, t.d. alaskavíði, tröllavíði, hreggstaðavíði og viðju er ágætt að hafa 20 – 25 cm langa. Græðlingar af fíngerðari víði eins og brekkuvíði og strandavíði mega gjarnan vera 15 – 20 cm langir. Ýmsar víðitegundir eru aðallega ræktaðar sem skrautrunnar og er slíkum græðlingum yfirleitt stungið beint í potta. Í þeim hópi eru bjartvíðir, reklavíðir, grávíðir og jafnvel loðvíðir. Þessir græðlingar þurfa ekki að vera lengri en 10 – 15 cm. Aspargræðlingar sem stinga á í beð mega gjarnan vera 20 – 25 cm langir en ef þeim er stungið í potta þurfa þeir ekki að vera lengri en 10-15 cm eða með 2 – 3 góð brum.
Við klippingu á græðlingunum er mikilvægt að gæta þess að velja einungis gott efni. Græðlingarnir þurfa að vera vel safaspenntir og ekki of grannir. Með því að reyna að beygja græðlingana má auðveldlega sjá hvort þeir eru nógu safaspenntir. Ef þeir svigna auðveldlega eru þeir og linir og slíkir græðlingar ná ekki að mynda rætur eftir stungu. Sverleiki græðlinganna skiptir einnig máli. Ekki er talið gott að nota græðlinga sem eru mikið grennri en venjulegur blýantur. Of grannir græðlingar innihalda ekki nógu mikinn forða til að geta myndað rætur fljótt og vel. 
Þegar teknir eru græðlingar af víði og ösp má nota svo að segja allt tréð í græðlinga. Árssprotarnir, þ.e. greinarnar sem uxu fram síðasta sumar, eru einna fljótastir að mynda rætur en eldri og þykkari greinar eru einnig mjög gott græðlingaefni. Við græðlingatöku á öðrum tegundum, eins og rifsi og hansarós, þarf hins vegar að gæta þess að nota árssprotana. Þó er til í dæminu að tveggja ára gamall viður geti myndað rætur en ekki er gott að treysta á það.
Áhugavert er að sjá að geyma má græðlinga í frysti ef því er að skipta, en flestir pistlar um vetrargræðlinga nefna einungis úti- eða kæligeymslu. Það mun vera 'best' að geyma græðlinga í kæli við um °1 C en frysting getur haft marga kosti, t.d. ef plássið í ísskápnum er takmarkað. Í skýrslu LBHÍ frá 2001 segir að "óhætt sé mæla með söfnun vetrargræðlinga flestra asparklóna frá áramótum og fram í lok marsmánuðar og geymslu þeirra við vægt frost (-3°C). Séu vetrargræðlingar geymdir í talsverðu frosti (-18°C), verður að gæta þess að söfnun fari fram eigi síðar en í febrúarmánuði." Við hljótum að geta heimfært þennan fróðleik yfir á aðrar tegundur.

Við umfjöllun Guðríðar er ekki miklu að bæta. Í DV 5. maí 1993 segir reyndar um brumafjölda græðlinga að æskilegur fjöldi sé almennt 3-4 brum og að lengdin frá endabrumi að enda stiklings skuli vera 1-2 cm. Hljómar skynsamlega.

Úr grein um vetrarstiklinga í DV 5. maí 1993
Smellið til að stækka
Síðari hluti umfjöllunarinnar Guðríðar snýr að vorverkunum.
Meðferð vetrargræðlinga II - Jarðvegsundirbúningur og stunga
Vetrargræðlingar eru klipptir að vetri til, búntaðir og geymdir í kæli þar til frost er farið úr jörðu. Venjulega er hægt að stinga vetrargræðlingum í lok maí – byrjun júní. Mjög auðvelt er að fjölga ösp og víðitegundum með vetrargræðlingum og hefur margur sumarbústaðareigandinn sparað sér drjúgan skilding með því að rækta sínar eigin plöntur. Á móti kemur að ræktunin tekur tíma, tvö til þrjú ár og þetta er talsvert puð...
Nokkrum dögum áður en stinga á græðlingunum eru þeir teknir úr kælinum eða frystinum eftir því sem við á. Ef græðlingarnir eru frosnir verður að láta þá þiðna hægt og rólega til að þeir skemmist ekki. Tveimur til þremur dögum fyrir stunguna er ágætt að raða búntunum í bala þannig að þau standi upp á endann, oddmjói endinn á brumunum á að vísa upp. Því næst er sett vatn í balann og það látið ná vel upp fyrir miðjuna á græðlingunum. Græðlingarnir eru látnir standa í vatninu í tvo til þrjá daga. Á þeim tíma ná þeir að drekka upp vatn og byggja upp safaspennu sem nýtist þeim á meðan þeir eru að mynda rætur. Ekki er gott að láta græðlingana mynda rætur í vatninu því þær rætur eru mjög stökkar og brotna nær undantekningalaust af þegar græðlingunum er stungið í mold. Rætur sem myndast í mold verða miklu seigari og þola betur hnjask.
Á meðan græðlingarnir eru í baði er gott að undirbúa jarðveginn fyrir græðlingastunguna. Fyrst þarf að fjarlægja allt illgresi úr beðinu og svo þarf að stinga það upp. Stungugaffall er einkar heppilegt verkfæri fyrir flesta en einnig eru til ýmsar gerðir af litlum handtæturum. Víðir og ösp þurfa frekar rakaheldinn og frjósaman jarðveg til að þau nái að vaxa eitthvað af viti. Þegar búið er að grófvinna beðið er gott að dreifa kalki og húsdýraáburði ofan á það og blanda saman við jarðveginn. 
Sýnt hefur verið fram á það að græðlingar sem stungið er í gegnum svart plast mynda fyrr rætur og dafna betur en græðlingar sem ekki fá slíkan munað. Svarta plastið hylur jarðveginn þannig að rakinn í efstu jarðvegslögunum verður jafnari, hitastigið verður eilítið hærra og illgresisfræ nær ekki að spíra vegna birtuleysis. Plastið má kaupa á rúllum og er það þá um 2 m breitt. Þegar búið er að stinga upp jarðveginn og blanda í hann áburði er plastið strengt ofan á beðið og jaðrar þess og endar huldir með mold. Það er gert til þess að ekki komist vindur undir plastið og svifti því af. Miðað við 2 m breitt plast má gera ráð fyrir því að beðið verði um 1 m á breidd, um 50 cm fari undir mold á sitt hvorum jaðrinum. 
Þá má fara að stinga græðlingunum (loksins). Víðigræðlingar eru yfirleitt látnir standa á beðinu í tvö sumur og teknir upp þriðja sumarið. Ágætt er að hafa um 15x15 cm millibil milli víðigræðlinga en ívið meira fyrir öspina, þar má millibilið gjarnan vera 30x30 cm. Hverjum græðlingi er stungið það djúpt að u.þ.b. 1/3 af lengd hans stendur upp úr, 2/3 lengdarinnar fara niður í jarðveginn. Eftir að búið er að stinga græðlingunum í gegnum plastið er gott að dreifa dálítilli grús yfir plastið á beðinu til að fergja það. 
Í þurrkatíð er nauðsynlegt að fylgjast með græðlingunum fyrsta kastið og vökva þá ef þurfa þykir. Rótamyndunin tekur 10-20 daga og ef græðlingaefnið hefur verið valið af kostgæfni verða afföll ekki mikil. 
Næsta vor, áður en græðlingarnir laufgast, er ágætt að ganga á beðið og kippa plastinu í burtu. Um svipað leyti þarf að gefa græðlingunum áburð og er tilbúinn áburður þægilegur kostur. Ef notast er við blákorn er ágætt að gefa u.þ.b. 6-8 kg á hverja 100 m2, fyrst í lok maí og svo aftur í byrjun júlí. Einnig eru plönturnar klipptar niður um ca 1/3 af ársvextinum til að þær þétti sig og rótakerfið verði betra. Margir ræktendur hafa reyndar komist að því að þessi klipping er óþörf, rjúpan er svo hrifin af víðibrumunum að hún sér um að hreinsa þau af á veturna. 
Asparplöntur eru látnar standa í tvö til þrjú sumur á græðlingabeðinu en þá er þeim umplantað. Eftir umplöntun þurfa þær að fá meira pláss, fyrsta kastið er ágætt að gróðursetja þær á beð með 70x70 cm millibili en umplöntunin þarf að gerast annað hvert ár þar til þær eru tilbúnar til útplöntunar. 
Græðlingar sem eiga að fara beint í potta eru meðhöndlaðir eins og aðrir vetrargræðlingar fram að stungunni. Þeim er oft stungið 2 – 3 saman í pott (t.d. loðvíði) og er það gert í lok maí – byrjun júní. Smávaxnar tegundir eru tilbúnar á öðru sumri en stærri tegundir má rækta árinu lengur.

ribsplanta - sumargræðlingur
- grein sem brotnaði af stærri runna og var
stungið í pott þar sem hún náði sér vel á strik

Í Mbl. 29. apríl 2005 var tekið viðtal við Guðríði um vetrargræðlinga, hér er brot úr því:
"Ef ætlunin er að stinga þeim beint út í beð þá verða þeir að vera um 20-25 cm langir en ef þeir eiga að fara í gróðurpotta, þá er nóg að þeir séu um 10-15 cm langir," segir Guðríður. Þegar búið er að klippa græðlingana í réttar lengdir eru þeir búntaðir saman, 20-25 stykki í búnti og teygju brugðið um. Búntunum er pakkað inn í plastpoka, límt vel fyrir og sett í ísskáp eða í frysti í allt að þrjá mánuði eða þar til vorar.
"Það er of snemmt að stinga vetrargræðlingunum niður í mars utandyra en þar sem eru gróðurhús má stinga þeim fyrr niður," segir hún. "En best er að bíða fram á vor þegar fer að hlýna. Flestir eiga góðan ísskáp og frysti í dag og geta séð af plássi fyrir græðlinga í nokkrar vikur." 
Guðríður segir að þessi aðferð eigi við um nánast allar víðitegundir, rifs, sólber og ösp. Þeim megi fjölga með vetrargræðlingum og hugsanlega eigi það einnig við um einhverjar tegundir toppa.
[...]
Önnur aðferð en að planta út í beð er að stinga græðlingunum niður í skógarplöntubakka með þrjátíu til fjörutíu hólfum. Yfirleitt er miðað við að tvö til þrjú brum standi upp úr moldinni en brum mynda seinna greinabyggingu á nýjum stofni. Með þessari aðferð verður að gæta þess að halda græðlingunum rökum en ekki rennandi blautum á meðan þeir eru að mynda rætur.  
"Það þarf að passa þá mun betur en græðlinga sem fara í beð," segir Guðríður. "Kosturinn við pottana er að yfirleitt má planta úr þeim strax að hausti en það fer að vísu eftir hversu duglegir þeir eru að mynda rætur. Aftur á móti er gott að græðlingar, sem fara beint í beð, séu í uppeldi í um það bil tvö sumur áður en þeim er plantað út á vaxtarstað. Ef verið er að planta í limgerði er hægt að setja þá beint niður en það eru alltaf einhver afföll og þá myndast bil í limgerðið, sem getur verið erfitt að fylla með plöntu af sömu stærð og sú sem fyrir var.
Varðandi fleiri tegundir en þær sem Guðríður nefnir, veitir Cesil eftirfarandi leiðsögn á malefnin.com í mars 2008:
  • heggur - mjög auðvelt að koma til með græðlingum, hvort sem er vetrar- eða sumargræðlingum, 
  • sunnukvistur - auðveldur í vetrargræðlingum,
  • yllir - auðveldur í ræktun, bestur sem vetrargræðlingur.
Reynir og birki eru ekki jafn hæfar tegundir til græðlingaræktar. "Að jafnaði eiga græðlingar mergmikils trjágróðurs erfiðara með að skjóta rótum, heldur en merglitlar tegundir." - eins og segir í Náttúrufræðingnum, 2. tbl. 16. árg. 1946.

Eftirfarandi tjám og runnum má fjölga með vetrargræðlingum samkvæmt vef Lystigarðsins á Akureyri, ekkert kemur fram um hversu erfitt það er: þinur, þöll, greni (a.m.k. ýmsar tegundir), silfurblað, rifs, stikilsber, lífviður, haf- og kristþyrnir, bersarunni, mjallhyrnir, úlfakvistur, bjarkeyjarkvistur. Þá er gljásýrena sögð henta sem vetrargræðlingur, með orðunum "inni að vori" í sviga. Kannski það eigi við um sýrenur almennt. Af eftirfarandi toppum má taka vetrargræðlinga, skv. Lystigarðinum:
blátoppur, hverfitoppur, loðtoppur, klukkutoppur, sóltoppur, rauðtoppur, heiðatoppur glótoppur, surtatoppur, skógartoppur, flækjutoppur, dúntoppur, skildingatoppur, glæsitoppur, bjöllutoppur, gulltoppur, vindtoppur (nenni ekki að halda áfram að telja). 
Hér eru svo valdir kaflar úr fylgiblaði DV, Gróður og Garðar 13. maí 1992 (SKE):
Vetrargræðlingar: Auðvelt að fjölga plöntum með kynlausri æxlun
Auðvelt er að fjölga ýmsum garðagróðri með græðligum, með svokallaðri kynlausri æxlun. Einfaldasta aðferð kynlausrar æxlunar, fyrir þá sem vilja reyna fjölgun, er að taka trékennda græðlinga að vetri til og stinga þeim svo í mold er vorar. [...] 
Best er að taka græðlingana frá jan.-mars. Er hver græðlingur hafður um 20 cm langur og helst ekki grennri en 0,5 cm, eingöngu er nýttur ársvöxturinn þar sem ungur viður rætir sig mun betur en gamall. Græðlingana þarf svo að geyma á svölum stað fram á vor og vernda þá gegn ofþornun. Ágætt er t.d. að grafa þá niður í snjó meðan hans nýtur, en í rakan sand eftir það. 
Að vori, strax og jörð er orðin þíð eru svo græðlingarnir grafnir upp og er þá ágætt að leggja þá í vatn í 1-2 sólarhringa áður en þeim er stungið í mold til að bæta fyrir það vatnstap sem að græðlingarnir hafa hugsanlega orðið fyrir og flýta fyrir rótarmyndun hjá þeim. Jarðveg þarf að vinna vel áður en græðlingunum er stungið niður og þarf hann að innihalda mikinn áburð, ásamt lífrænum efnum, hjálpar búfjáráburðurinn þar mikið. 
Gæta þarf þess að vökva þá þannig að þeir þorni ekki, sérstaklega fyrstu vikurnar eftir stungu. Geta þá plönturnar [...] oft orðið nógu stórar til gróðursetningar eftir eitt sumar, en þar sem rótarkerfi þeirra er oft fullveikbyggt eftir vöxt aðeins eitt sumar getur verið góður kostur að klippa plönturnar niður eftir fyrsta sumarið og láta þær vaxa næsta sumar óhreyfðar, fást þá kröftugri plöntur og góð græðlingaefni sem þá er hægt að stinga niður næsta vor.
S.K.E.
Að lokum, sem eins konar samantekt, er hér textabútur fenginn að láni úr bókinni "Ræktun í skólastarfi" (1995) eftir Vilmund Hansen.
Vetrarstiklingar
Eins og áður sagði má safna vetrarstiklingum eftir að vexti lýkur á haustin og fram á vor, eða meðan plantan er í dvala. Það er þó talið betra að safna efninu heldur fyrr en seinna til að koma í veg fyrir kalskemmdir. Plöntuhlutana ætti að klippa niður í um 15 sentimetra langa stiklinga og ættu þeir helst ekki að vera grennri en 0,5 sentimetra. Meiri líkur eru á að sverir græðlingar ræti sig en grannir. Þegar efnið er klippt niður, skal reynt að gera það um 1 sentimetra frá efsta brumi. Þegar búið er að klippa stiklingana niður eru þeir búntaðir saman 10–15 þannig að þeir snúi allir eins og teygja sett utan um. Síðan er þeim komið í geymslu. Gott og einfalt ráð til að geyma stiklinga er að grafa þá í sand eða snjóskafl.

Geymsla
Mikilvægt er að halda öndun stiklinganna í lágmarki til þess að forðanæring þeirra rýrni sem minnst þar til þeir eru settir í mold. Æskilegt hitastig við geymslu er 0–4°C. Hvernig sem geymslu stiklinganna er háttað verður að gæta þess að þeir hvorki fúni né ofþorni. Ef hætta er talin á að stiklingar hafi ofþornað, en séu að öðru leyti óskemmdir, þá má leggja þá í vatn í 1–2 sólarhringa áður en þeim er stungið út.
Vilmundur Hansen og Hafsteinn Hafliðason hafa svarað fjölmörgum spurningum um "nýgræðlinga" (vetrargræðlinga) og aspargræðlinga á fésbók. Sjá til dæmis myndirnar að neðan (smellið til að stækka).