mandag den 5. oktober 2015

Sitkagreni í september

Sitkagreni var nokkuð í fréttum um miðbik september. Fyrst var sagt frá mælingu á hæsta tré landsins sem sýndi að tréð, sem vex á Kirkjubæjarklaustri, væri orðið um 27 m hátt. Það stóð í um um 25 m fyrir 3 árum síðan.


Um svipað leyti bárust fréttir af grisjun sitkagrenis við Miklubraut. Það hefur látið nokkuð á sjá sl. áratug vegna sitkalúsar og hugsanlega einnig vegna salts og tjöru. Líkt og systir þeirra við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri eru trén rúmlega hálfrar aldar gömul.


Mynd með frétt RÚV: "Saltrok skemmdi grenitréin [sic]" 23.07.2015



Eftirfarandi er brot af áskorun Skógræktar ríkisins og skógræktarfélaga frá maí 2014, sem birt er á skogur.is. Áskoruninni var beint að Reykjavíkurborg og tengdist umræðu í fjölmiðlum um að trén væru ónýt og rétt væri að fella þau.
[...] Trén skýla bæði fyrir vindi og hávaða. Þau  eru mikilvæg til hreiðurgerðar þröstum og öðrum smáfuglum sem lifa meðal annars á lúsum og maðki á trjám og runnum. Trén stuðla þannig beint og óbeint að því að garðeigendur í Hlíða- og Háaleitishverfi úða minna eitri gegn meindýrum í görðum sínum. En grenitrén stóru taka líka í sig mikið svifryk vegna þess hve yfirborð barrnála og greina er gríðarmikið, jafnt sumar sem vetur. Samanlagt yfirborð sitkagrenitrjánna við Miklubraut samsvarar yfirborði fjölmargra knattspyrnuvalla. Rykið sest á trén allan ársins hring, líka á vetrum þegar svifryksmengun er mest, því barrtré fella ekki lauf á haustin. Rykið loðir vel við trén og í rigningu skolast það niður í jarðveginn í stað þess að svífa um með vindinum og berast í öndunarfæri manna þegar þornar.
    Rétt er að skora á forsvarsfólk umhverfismála í Reykjavík að leyfa sitkagrenitrjánum við Miklubraut að standa og hlúa vel að þeim með vægri grisjun og áburðargjöf. [...] 

Hér er svo mynd af trjánum þegar þau voru nýkomin niður.

Á þessum sama tíma stóð síðuhaldari í gróðursetningu sitkagrenis í Grimsnesi. Fallegur 35 gata bakki frá Kjarri í Ölfusi (tæpar 6.000 kr.), stórar tveggja ára plöntur. Moltu var blandað við hinn rýra jarðveg og dagblaðapappír notaður til að styrkja plönturnar í samkeppninni við grasið.

Líkt og segir á veg Skógræktarfélags Reykjavíkur nær sitkagreni "oft 30-40 metra hæð og verður 6-700 ára gamalt." Í heimkynnum sínum í Alaska hafa sitkagrenitré mælst yfir 60 metra há.


søndag den 4. januar 2015

Forðanæring í furufræi er gómsæt

Berfrævingar (e. gymnosperm, af gríska orðinu gymnos - nakinn) eru fræplöntur sem mynda ber (óvarin) fræ á milli hreisturkenndra blaða í könglum. Þetta má lesa í umfjöllun um köngla á heimasíðu Ágústar H. Bjarnasonar, ahb.is.
Fræin hafa einungis fræskurn (e. seed coat) til að hlaupa upp á en engan varnarhjúp eða blómhlíf (aldin) eins og dulfrævingar. Muninum á þessum tveimur af fimm fylkingum plönturíkisins er svo lýst í grein Hákonar Bjarnasonar, Um berfrævinga, í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1951-1952, bls. 23:
[...] hjá berfrævingum liggja eggin, og síðar fræin, ofan á fræblöðunum, en á dulfrævingum eru fræblöðin vaxin utan um eggið og mynda lokað eggleg. 

Auk fræskurnarinnar eru furufræ samsett af kími eða plöntufóstri (e. embryo) og forðanæringu eða egglegskjarna (e. nucellus). Forðanæringin er fiturík og full af næringu sem plantan sem vex upp af fræinu, kímplantan (e. seedling), nýtir eftir að fræið hefur spírað.

Forðanæringin þykir gómsæt, sér í lagi er fræ lindifuru vinsælt og er það í daglegu tali nefnt furuhneta. Vísast hér í umfjölunina Alternation of Generations á vef University of Miami, Department of Biology, www.bio.miami.edu.

Kímplantan skiptist í kímrót, kímstöngul og kímblöð. Kímblöð plantna af þallarætt eru 2-34 saman í einum krans (hvirfingu), á furu eru þau 4-24 saman. Til samanburðar skiptast dulfrævingar í einkímblöðunga og tvíkímblöðunga.