søndag den 13. februar 2011

Vetrargræðlingar Guðríðar

Guðríður Helgadóttir skrifaði greinar um meðferð vetrargræðlinga í Mbl. í maí 1998 sem eru fullar af fróðleik. Þær eru endurbirtar hér auk greinastúfs eftir 'SKE' um sama efni sem birtist í DV í maí 1993. Á dönsku er talað um stiklinga (vinterstiklinger) og á ensku afklippur (winter cuttings).

Fyrri hluti umfjöllunar Guðríðar lýtur að vetrarverkunum, klippingu og geymslu.
Meðferð vetrargræðlinga I - Klipping og geymsla
Nú fer hver að verða síðastur að klippa og snyrta til trjágróðurinn í garðinum hjá sér fyrir sumarið. Best er að öll vaxtarmótandi klipping á trjágróðri fari fram á meðan plönturnar eru í dvala, bygging plantnanna sést betur og þær verða síður fyrir skakkaföllum af völdum klippingarinnar. Það hefur löngum verið talin ágætis búbót að nýta afklippur af trjágróðri í græðlinga. Heitið vetrargræðlingar er dregið af því að græðlingarnir eru klipptir að vetri til eða mjög snemma vors og eru þeir lauflausir. Ekki er hægt að fjölga öllum trjátegundum með vetrargræðlingum. Víðitegundir og aspir eru einna auðveldastar, rifsrunnum má gjarnan fjölga með vetrargræðlingum og einnig er til í dæminu að taka vetrargræðlinga af hansarós, sýrenum og jafnvel toppum. Vetrargræðlingataka er eins og öll önnur ræktun, ekki er um einn heilagan sannleik að ræða. Því er um að gera að nota ímyndunaraflið og prófa sig áfram með aðrar tegundir ef áhugi á því er fyrir hendi. 
Vetrargræðlingar eru, eins og áður segir, klipptir að vetri til en ekki er tímabært að stinga þeim í mold fyrr en frost er farið úr jörðu, í lok maí – byrjun júní. Best er að klippa græðlingaefnið strax niður í heppilegar lengdir, setja dálítinn slatta saman í búnt og bregða teygju utan um það. Því næst er græðlingabúntunum pakkað í plast og þau geymd í kæli eða frysti fram á vorið. Fyrir þá sem ekki hafa óendanlega mikið pláss í ísskápum eða frystikistum má geyma pokana með græðlingabúntunum utan dyra en þá þarf að velja þeim skuggsælan stað í skjóli. Ef græðlingarnir hitna of mikið á meðan á geymslunni stendur er hætta á því að þeir fari að vaxa og fer þá dýrmæt orka til spillis. Glærir pokar eru ágætir ef geyma á græðlingana í kæli eða frysti en þeir sem þurfa að geyma þá utandyra ættu frekar að velja hvíta plastpoka. Það dregur úr hættunni á því að hitni í pokunum, hvíta plastið hitnar ekki mikið ef sólin skín á það og skyggir vel á græðlingana sem eru undir því. 
Lengd græðlinga fer mikið eftir því um hvaða tegund er að ræða og hvort stinga á græðlingunum beint í beð eða í potta. Óhætt er að hafa græðlinga sem stinga á í beð töluvert lengri en græðlinga sem stinga á í potta. Vetrargræðlingar af grófgerðum víði, t.d. alaskavíði, tröllavíði, hreggstaðavíði og viðju er ágætt að hafa 20 – 25 cm langa. Græðlingar af fíngerðari víði eins og brekkuvíði og strandavíði mega gjarnan vera 15 – 20 cm langir. Ýmsar víðitegundir eru aðallega ræktaðar sem skrautrunnar og er slíkum græðlingum yfirleitt stungið beint í potta. Í þeim hópi eru bjartvíðir, reklavíðir, grávíðir og jafnvel loðvíðir. Þessir græðlingar þurfa ekki að vera lengri en 10 – 15 cm. Aspargræðlingar sem stinga á í beð mega gjarnan vera 20 – 25 cm langir en ef þeim er stungið í potta þurfa þeir ekki að vera lengri en 10-15 cm eða með 2 – 3 góð brum.
Við klippingu á græðlingunum er mikilvægt að gæta þess að velja einungis gott efni. Græðlingarnir þurfa að vera vel safaspenntir og ekki of grannir. Með því að reyna að beygja græðlingana má auðveldlega sjá hvort þeir eru nógu safaspenntir. Ef þeir svigna auðveldlega eru þeir og linir og slíkir græðlingar ná ekki að mynda rætur eftir stungu. Sverleiki græðlinganna skiptir einnig máli. Ekki er talið gott að nota græðlinga sem eru mikið grennri en venjulegur blýantur. Of grannir græðlingar innihalda ekki nógu mikinn forða til að geta myndað rætur fljótt og vel. 
Þegar teknir eru græðlingar af víði og ösp má nota svo að segja allt tréð í græðlinga. Árssprotarnir, þ.e. greinarnar sem uxu fram síðasta sumar, eru einna fljótastir að mynda rætur en eldri og þykkari greinar eru einnig mjög gott græðlingaefni. Við græðlingatöku á öðrum tegundum, eins og rifsi og hansarós, þarf hins vegar að gæta þess að nota árssprotana. Þó er til í dæminu að tveggja ára gamall viður geti myndað rætur en ekki er gott að treysta á það.
Áhugavert er að sjá að geyma má græðlinga í frysti ef því er að skipta, en flestir pistlar um vetrargræðlinga nefna einungis úti- eða kæligeymslu. Það mun vera 'best' að geyma græðlinga í kæli við um °1 C en frysting getur haft marga kosti, t.d. ef plássið í ísskápnum er takmarkað. Í skýrslu LBHÍ frá 2001 segir að "óhætt sé mæla með söfnun vetrargræðlinga flestra asparklóna frá áramótum og fram í lok marsmánuðar og geymslu þeirra við vægt frost (-3°C). Séu vetrargræðlingar geymdir í talsverðu frosti (-18°C), verður að gæta þess að söfnun fari fram eigi síðar en í febrúarmánuði." Við hljótum að geta heimfært þennan fróðleik yfir á aðrar tegundur.

Við umfjöllun Guðríðar er ekki miklu að bæta. Í DV 5. maí 1993 segir reyndar um brumafjölda græðlinga að æskilegur fjöldi sé almennt 3-4 brum og að lengdin frá endabrumi að enda stiklings skuli vera 1-2 cm. Hljómar skynsamlega.

Úr grein um vetrarstiklinga í DV 5. maí 1993
Smellið til að stækka
Síðari hluti umfjöllunarinnar Guðríðar snýr að vorverkunum.
Meðferð vetrargræðlinga II - Jarðvegsundirbúningur og stunga
Vetrargræðlingar eru klipptir að vetri til, búntaðir og geymdir í kæli þar til frost er farið úr jörðu. Venjulega er hægt að stinga vetrargræðlingum í lok maí – byrjun júní. Mjög auðvelt er að fjölga ösp og víðitegundum með vetrargræðlingum og hefur margur sumarbústaðareigandinn sparað sér drjúgan skilding með því að rækta sínar eigin plöntur. Á móti kemur að ræktunin tekur tíma, tvö til þrjú ár og þetta er talsvert puð...
Nokkrum dögum áður en stinga á græðlingunum eru þeir teknir úr kælinum eða frystinum eftir því sem við á. Ef græðlingarnir eru frosnir verður að láta þá þiðna hægt og rólega til að þeir skemmist ekki. Tveimur til þremur dögum fyrir stunguna er ágætt að raða búntunum í bala þannig að þau standi upp á endann, oddmjói endinn á brumunum á að vísa upp. Því næst er sett vatn í balann og það látið ná vel upp fyrir miðjuna á græðlingunum. Græðlingarnir eru látnir standa í vatninu í tvo til þrjá daga. Á þeim tíma ná þeir að drekka upp vatn og byggja upp safaspennu sem nýtist þeim á meðan þeir eru að mynda rætur. Ekki er gott að láta græðlingana mynda rætur í vatninu því þær rætur eru mjög stökkar og brotna nær undantekningalaust af þegar græðlingunum er stungið í mold. Rætur sem myndast í mold verða miklu seigari og þola betur hnjask.
Á meðan græðlingarnir eru í baði er gott að undirbúa jarðveginn fyrir græðlingastunguna. Fyrst þarf að fjarlægja allt illgresi úr beðinu og svo þarf að stinga það upp. Stungugaffall er einkar heppilegt verkfæri fyrir flesta en einnig eru til ýmsar gerðir af litlum handtæturum. Víðir og ösp þurfa frekar rakaheldinn og frjósaman jarðveg til að þau nái að vaxa eitthvað af viti. Þegar búið er að grófvinna beðið er gott að dreifa kalki og húsdýraáburði ofan á það og blanda saman við jarðveginn. 
Sýnt hefur verið fram á það að græðlingar sem stungið er í gegnum svart plast mynda fyrr rætur og dafna betur en græðlingar sem ekki fá slíkan munað. Svarta plastið hylur jarðveginn þannig að rakinn í efstu jarðvegslögunum verður jafnari, hitastigið verður eilítið hærra og illgresisfræ nær ekki að spíra vegna birtuleysis. Plastið má kaupa á rúllum og er það þá um 2 m breitt. Þegar búið er að stinga upp jarðveginn og blanda í hann áburði er plastið strengt ofan á beðið og jaðrar þess og endar huldir með mold. Það er gert til þess að ekki komist vindur undir plastið og svifti því af. Miðað við 2 m breitt plast má gera ráð fyrir því að beðið verði um 1 m á breidd, um 50 cm fari undir mold á sitt hvorum jaðrinum. 
Þá má fara að stinga græðlingunum (loksins). Víðigræðlingar eru yfirleitt látnir standa á beðinu í tvö sumur og teknir upp þriðja sumarið. Ágætt er að hafa um 15x15 cm millibil milli víðigræðlinga en ívið meira fyrir öspina, þar má millibilið gjarnan vera 30x30 cm. Hverjum græðlingi er stungið það djúpt að u.þ.b. 1/3 af lengd hans stendur upp úr, 2/3 lengdarinnar fara niður í jarðveginn. Eftir að búið er að stinga græðlingunum í gegnum plastið er gott að dreifa dálítilli grús yfir plastið á beðinu til að fergja það. 
Í þurrkatíð er nauðsynlegt að fylgjast með græðlingunum fyrsta kastið og vökva þá ef þurfa þykir. Rótamyndunin tekur 10-20 daga og ef græðlingaefnið hefur verið valið af kostgæfni verða afföll ekki mikil. 
Næsta vor, áður en græðlingarnir laufgast, er ágætt að ganga á beðið og kippa plastinu í burtu. Um svipað leyti þarf að gefa græðlingunum áburð og er tilbúinn áburður þægilegur kostur. Ef notast er við blákorn er ágætt að gefa u.þ.b. 6-8 kg á hverja 100 m2, fyrst í lok maí og svo aftur í byrjun júlí. Einnig eru plönturnar klipptar niður um ca 1/3 af ársvextinum til að þær þétti sig og rótakerfið verði betra. Margir ræktendur hafa reyndar komist að því að þessi klipping er óþörf, rjúpan er svo hrifin af víðibrumunum að hún sér um að hreinsa þau af á veturna. 
Asparplöntur eru látnar standa í tvö til þrjú sumur á græðlingabeðinu en þá er þeim umplantað. Eftir umplöntun þurfa þær að fá meira pláss, fyrsta kastið er ágætt að gróðursetja þær á beð með 70x70 cm millibili en umplöntunin þarf að gerast annað hvert ár þar til þær eru tilbúnar til útplöntunar. 
Græðlingar sem eiga að fara beint í potta eru meðhöndlaðir eins og aðrir vetrargræðlingar fram að stungunni. Þeim er oft stungið 2 – 3 saman í pott (t.d. loðvíði) og er það gert í lok maí – byrjun júní. Smávaxnar tegundir eru tilbúnar á öðru sumri en stærri tegundir má rækta árinu lengur.

ribsplanta - sumargræðlingur
- grein sem brotnaði af stærri runna og var
stungið í pott þar sem hún náði sér vel á strik

Í Mbl. 29. apríl 2005 var tekið viðtal við Guðríði um vetrargræðlinga, hér er brot úr því:
"Ef ætlunin er að stinga þeim beint út í beð þá verða þeir að vera um 20-25 cm langir en ef þeir eiga að fara í gróðurpotta, þá er nóg að þeir séu um 10-15 cm langir," segir Guðríður. Þegar búið er að klippa græðlingana í réttar lengdir eru þeir búntaðir saman, 20-25 stykki í búnti og teygju brugðið um. Búntunum er pakkað inn í plastpoka, límt vel fyrir og sett í ísskáp eða í frysti í allt að þrjá mánuði eða þar til vorar.
"Það er of snemmt að stinga vetrargræðlingunum niður í mars utandyra en þar sem eru gróðurhús má stinga þeim fyrr niður," segir hún. "En best er að bíða fram á vor þegar fer að hlýna. Flestir eiga góðan ísskáp og frysti í dag og geta séð af plássi fyrir græðlinga í nokkrar vikur." 
Guðríður segir að þessi aðferð eigi við um nánast allar víðitegundir, rifs, sólber og ösp. Þeim megi fjölga með vetrargræðlingum og hugsanlega eigi það einnig við um einhverjar tegundir toppa.
[...]
Önnur aðferð en að planta út í beð er að stinga græðlingunum niður í skógarplöntubakka með þrjátíu til fjörutíu hólfum. Yfirleitt er miðað við að tvö til þrjú brum standi upp úr moldinni en brum mynda seinna greinabyggingu á nýjum stofni. Með þessari aðferð verður að gæta þess að halda græðlingunum rökum en ekki rennandi blautum á meðan þeir eru að mynda rætur.  
"Það þarf að passa þá mun betur en græðlinga sem fara í beð," segir Guðríður. "Kosturinn við pottana er að yfirleitt má planta úr þeim strax að hausti en það fer að vísu eftir hversu duglegir þeir eru að mynda rætur. Aftur á móti er gott að græðlingar, sem fara beint í beð, séu í uppeldi í um það bil tvö sumur áður en þeim er plantað út á vaxtarstað. Ef verið er að planta í limgerði er hægt að setja þá beint niður en það eru alltaf einhver afföll og þá myndast bil í limgerðið, sem getur verið erfitt að fylla með plöntu af sömu stærð og sú sem fyrir var.
Varðandi fleiri tegundir en þær sem Guðríður nefnir, veitir Cesil eftirfarandi leiðsögn á malefnin.com í mars 2008:
  • heggur - mjög auðvelt að koma til með græðlingum, hvort sem er vetrar- eða sumargræðlingum, 
  • sunnukvistur - auðveldur í vetrargræðlingum,
  • yllir - auðveldur í ræktun, bestur sem vetrargræðlingur.
Reynir og birki eru ekki jafn hæfar tegundir til græðlingaræktar. "Að jafnaði eiga græðlingar mergmikils trjágróðurs erfiðara með að skjóta rótum, heldur en merglitlar tegundir." - eins og segir í Náttúrufræðingnum, 2. tbl. 16. árg. 1946.

Eftirfarandi tjám og runnum má fjölga með vetrargræðlingum samkvæmt vef Lystigarðsins á Akureyri, ekkert kemur fram um hversu erfitt það er: þinur, þöll, greni (a.m.k. ýmsar tegundir), silfurblað, rifs, stikilsber, lífviður, haf- og kristþyrnir, bersarunni, mjallhyrnir, úlfakvistur, bjarkeyjarkvistur. Þá er gljásýrena sögð henta sem vetrargræðlingur, með orðunum "inni að vori" í sviga. Kannski það eigi við um sýrenur almennt. Af eftirfarandi toppum má taka vetrargræðlinga, skv. Lystigarðinum:
blátoppur, hverfitoppur, loðtoppur, klukkutoppur, sóltoppur, rauðtoppur, heiðatoppur glótoppur, surtatoppur, skógartoppur, flækjutoppur, dúntoppur, skildingatoppur, glæsitoppur, bjöllutoppur, gulltoppur, vindtoppur (nenni ekki að halda áfram að telja). 
Hér eru svo valdir kaflar úr fylgiblaði DV, Gróður og Garðar 13. maí 1992 (SKE):
Vetrargræðlingar: Auðvelt að fjölga plöntum með kynlausri æxlun
Auðvelt er að fjölga ýmsum garðagróðri með græðligum, með svokallaðri kynlausri æxlun. Einfaldasta aðferð kynlausrar æxlunar, fyrir þá sem vilja reyna fjölgun, er að taka trékennda græðlinga að vetri til og stinga þeim svo í mold er vorar. [...] 
Best er að taka græðlingana frá jan.-mars. Er hver græðlingur hafður um 20 cm langur og helst ekki grennri en 0,5 cm, eingöngu er nýttur ársvöxturinn þar sem ungur viður rætir sig mun betur en gamall. Græðlingana þarf svo að geyma á svölum stað fram á vor og vernda þá gegn ofþornun. Ágætt er t.d. að grafa þá niður í snjó meðan hans nýtur, en í rakan sand eftir það. 
Að vori, strax og jörð er orðin þíð eru svo græðlingarnir grafnir upp og er þá ágætt að leggja þá í vatn í 1-2 sólarhringa áður en þeim er stungið í mold til að bæta fyrir það vatnstap sem að græðlingarnir hafa hugsanlega orðið fyrir og flýta fyrir rótarmyndun hjá þeim. Jarðveg þarf að vinna vel áður en græðlingunum er stungið niður og þarf hann að innihalda mikinn áburð, ásamt lífrænum efnum, hjálpar búfjáráburðurinn þar mikið. 
Gæta þarf þess að vökva þá þannig að þeir þorni ekki, sérstaklega fyrstu vikurnar eftir stungu. Geta þá plönturnar [...] oft orðið nógu stórar til gróðursetningar eftir eitt sumar, en þar sem rótarkerfi þeirra er oft fullveikbyggt eftir vöxt aðeins eitt sumar getur verið góður kostur að klippa plönturnar niður eftir fyrsta sumarið og láta þær vaxa næsta sumar óhreyfðar, fást þá kröftugri plöntur og góð græðlingaefni sem þá er hægt að stinga niður næsta vor.
S.K.E.
Að lokum, sem eins konar samantekt, er hér textabútur fenginn að láni úr bókinni "Ræktun í skólastarfi" (1995) eftir Vilmund Hansen.
Vetrarstiklingar
Eins og áður sagði má safna vetrarstiklingum eftir að vexti lýkur á haustin og fram á vor, eða meðan plantan er í dvala. Það er þó talið betra að safna efninu heldur fyrr en seinna til að koma í veg fyrir kalskemmdir. Plöntuhlutana ætti að klippa niður í um 15 sentimetra langa stiklinga og ættu þeir helst ekki að vera grennri en 0,5 sentimetra. Meiri líkur eru á að sverir græðlingar ræti sig en grannir. Þegar efnið er klippt niður, skal reynt að gera það um 1 sentimetra frá efsta brumi. Þegar búið er að klippa stiklingana niður eru þeir búntaðir saman 10–15 þannig að þeir snúi allir eins og teygja sett utan um. Síðan er þeim komið í geymslu. Gott og einfalt ráð til að geyma stiklinga er að grafa þá í sand eða snjóskafl.

Geymsla
Mikilvægt er að halda öndun stiklinganna í lágmarki til þess að forðanæring þeirra rýrni sem minnst þar til þeir eru settir í mold. Æskilegt hitastig við geymslu er 0–4°C. Hvernig sem geymslu stiklinganna er háttað verður að gæta þess að þeir hvorki fúni né ofþorni. Ef hætta er talin á að stiklingar hafi ofþornað, en séu að öðru leyti óskemmdir, þá má leggja þá í vatn í 1–2 sólarhringa áður en þeim er stungið út.
Vilmundur Hansen og Hafsteinn Hafliðason hafa svarað fjölmörgum spurningum um "nýgræðlinga" (vetrargræðlinga) og aspargræðlinga á fésbók. Sjá til dæmis myndirnar að neðan (smellið til að stækka).