tirsdag den 20. juli 2010

Smáhæðartréð rósareynir


Rósareynirinn var keyptur hjá Borg í Hveragerði sumarið 2010. Það fóru nokkur blöð af honum í roki þegar hann slóst við handrið, en annars virðist honum líða sæmilega.

Ekki eru mikið af íslenskum upplýsingum um hann á netinu, en við eigum víst von á bleikum berjum ef heppnin verður með okkur.

Við vorum til í að prófa reyni en vildum þó ekki yrki sem yrði mjög stórt. Breski vefurinn Trees-online segir að sorbus rosea sé lítið tré (small height tree) og að gera megi ráð fyrir að það nái 4 m hæð á 10 árum. Á þeirri síðu er tréð selt í 12 lítra ílátum sem stungið er í jörðina, ekki berróta eða með rótar'hnaus' sem settur er ofan í holu. Á kevockgarden.co.uk segir að tréð verði einungis 3 m hátt og verði jafnstórt á breiddina.

Á alentradgard.se segir að Rosafruktig Rönn sé lítið fallegt tré og á spjallsíðunni alltomtradgard.se segir að Sorbus rosea hafi einungis nýlega verið flokkaður sem sérstök tegund. Áður hafi hann verið talinn undirtegund Kasmírreynis, Sorbus cashmeriana (Pink). Á shootgardening.co.uk segir að rósareynir gangi einnig undir nafninu Sorbus cashmiriana 'Rosiness'. Á liverpoolbotanicalsociety.co.uk er sagan sögð með þessum hætti:
Sorbus rosea was introduced to cultivation through Ness [Botanic Gardens], it was wild sourced from Gillgit in Pakistan in the 1980’s and has whitish pink berries.
Á vef Borgar er reyndar engum rósareyni lýst, en þessi lýsing á kínareyni gæti passað, ef sölumaðurinn var að plata okkur:
Hæð 3-6m, runni eða tré, ljósbleik blóm, rauðbleik ber, dökkgræn fínleg blöð. Rauðgulir til rauðir haustlitir. Nægjusamur, þarf gott frárennsli.
Um reynitré almennt segir Vilmundur Hansen á 'ræktaðu garðinn þinn' síðu sinni á Facebook að þau verði 60-140 ára gömul.
Viðbót júlí 2012:
Í Frækorninu 30 sem gefið er út af Skógræktarfélagi Íslands er rósareyni lýst á eftirfarandi hátt: "[...] margstofna runni, 3-4 m á hæð. Blóm og aldin eru ljósbleik. Rauðgulir til rauðir haustlitir."

Ég get ekki sagt að þessi lýsing passi við aðrar lýsingar á plöntunni eða okkar reynslu, rósareynir er alls enginn runni. Í Frækornssneplinum er jafnframt að finna þessa lýsingu á kasmírreyni og öðrum áhugaverðum reyni sem kenndur er við rúbín: 
Kasmírreynir (Sorbus casmiriana) er margstofna runni, 4-6 m á hæð, með ljósbleik blóm og hvít ber. Haustlitir blaða eru gulir til appelsínugulir og miðtaug eldrauð. 
Rúbínreynir (Sorbus bissetii) er lágvaxið tré eða stór runni, 3-4 m á hæð. Blómsveipirnir eru ljósir og reyniberin bleik sem lýsast. Laufblöðin verða rauð á haustin.
Svo virðist sem lýsingin á kasmírreyni sé annmörkum háð, því hann virðist geta verið margstofna tré líka. Hér eru t.a.m. lýsingar af vef garðyrkjustöðvarinnar Borg, úr riti OR, Sumarhúsið (2008) og af vef Garyrkjustöðvar Ingibjargar:
Hæð 5-7 m lítið fínlegt tré sem laufgast snemma á vorin. Blóm ljósbleik, síðan stór hvít ber. Rauðgulir haustlitir. Harðgerður. (Borg)
 [...] oftast margstofna með uppréttar aðalgreinar en frekar slútandi hliðargreinar og getur orðið um 10 m á hæð. Blóm kasmírreynis eru ljósbleik, berin eru hvít að lit og haldast lengi á trénu fram eftir hausti, bragð þeirra þykir frekar rammt. Haustlitur blaða er gulur en stundum slær á þau appelsínugulum blæ með eldrauðri miðtaug. (OR)
Bleik stór blóm í klösum í júlí, stór hvít ber á haustin, rauðir haustlitir. Harðgerður og vindþolinn. Margstofna tré 2-5 m. (Ingibjörg)

Ingen kommentarer:

Send en kommentar