mandag den 19. juli 2010

Fjallarifs er ekki keypt út af berjunum

... eins og segir í umræðum um rifsplöntur á Barnalandi.
Fjallarifs á júlídegi 2010.
Þessi fjallarifsplanta (ribes alpinum) var pínulítill snáði þegar við keyptum hana sumarið 2008, í trausti þess að hún þyldi sólarleysið og rokið á litlu norðursvölunum, en hún er seld sem harðgerð, skuggaþolin og vindþolin planta.

Hún lét ekki mikið undir sér fyrsta árið og litlu kvistarnir tveir náðu varla upp fyrir handrið, en 2009 sprakk hún svoleiðis út með metvexti. Hún heldur áfram að stækka og virðist bara ánægð með veðrið enda þótt framan af árinu 2010 hafi ekki verið næstum jafn mikill vöxtur í henni og árið áður. Ber hafa látið á sér kræla, þar er um að ræða "dökkrauð, hárlaus ber sem standa lengi, bragðlítil og talin óæt" eins og segir á vef Lystigarðs Akureyrar. Ég myndi lýsa þeim sem bragðlitlum og þurrum, en alls ekki óætum.
Nýkomin í Kópavog í júní 2008.
Fjallarifsið er notað í lágvaxin og meðalhá limgerði, 0,5-2 m, í venjulega limgerðisræktun duga 4-5 plöntur á meter og ein klipping að vori og ein sumarklipping í júlílok, segir á vef Nátthaga. Mæla má með fjallarifsi sem "afþvíbara" plöntu, til að pota í ker eða pota niður hvar sem er. Runninn okkar er í grófari kantinum, þ.e. blöðin eru tiltölulega stór. Slík afbrigði verða hærri og eru einnig vindþolnari en fíngerðari týpan (sem virðist algengari hér á landi) skv. fylgiblaði Mbl., Garðurinn 14. maí 2000. Það hefur verið gaman að fylgjast með fjallarifsinu okkar í kvöldsólinni sem skín frá Esjunni og plantan er líka fínn vorboði fyrir utan svefnherbergið þar sem hún laufgast snemma, uppúr miðjum mars.

Úr dönsku blaði, hvers nafn er gleymt.
Fjallarifs (alparifs) er "þéttgreinótt og með smávaxin blöð, harðgert og auðvelt í ræktun", skv. natthagi.is. Blöðin líta út eins og lítil (garða)rifs blöð svo það er ekki skrítið þótt sumir rugli henni við rifsberjaplöntu.
Laufblöð í maí.
Fjallarifs er sérbýlisplanta skv. Gróðrastöðinni Mörk og "þarf bæði karl og kvennplöntu ef ætlunin er að fá ber". Það hefur ekki verið neinn skortur á fjallarifsberjum á svölunum og því virðast flugurnar iðnar að bera frjó úr nálægum görðum. Berin eru ekkert sérstök á bragðið, þurrarri og bragðminni en rifsber og þau koma ekki í miklu magni.
Fjallarifsber í lok ágúst
Fjallarifs notað í limgerði.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar