mandag den 19. juli 2010

Blátoppur er frísklega dökkgrænn

Blátoppur er "þéttgreindur runni er getur orðið um og yfir tveggja metra hár." segir í blaði OR, Sumarhúsið frá 2008. 

Blátoppurinn í júlí 2010 

Blátoppurinn er fyrsta plantan sem komið var fyrir í svalagarðinum, keyptur í Blómavali ásamt buxusnum sumarið 2008. Hann óx nokkuð árið eftir en varla hægt að tala um hann sem "þéttvaxinn runna", en þannig er þessari plöntu almennt lýst. Líklega er það skortur á áburðargjöf, því skuggþolinn á hann að vera og "mjög harðger" sbr. lýsing Lystigarðs Akureyrar. Til að þétta blátopp má klippa hann á vorin. Hann verður allt að 3 m að sögn Hafsteins Hafliðasonar í Fbl. 27. júlí 2006.

Þessi blátoppur var brautryðjandi í svalaræktuninni og það var óneintanlega gaman að sjá hann koma aftur til lífsins eftir fyrsta veturinn í rokinu á svölunum. Kannski verður 2011 sumarið sem hann slær í gegn og fær "margar grannar greinar" eins og Blómaval segir að hann eigi hafa, hann á að dafna "mjög vel um allt land, innan garða sem utan." Blátoppsplöntur "þrífast allar vel nema nokkrar plöntur frá Kamtsjatka sem fara af stað of snemma á vorin og kala nær árlega", segir í ritinu Kálfamói sem Reykjavíkurborg gaf út 2008.

Blátoppurinn þegar hann kom
heim, í júní 2008
Reyndar virðist blátoppur vera ertandi fyrir slímmhúð og buxus hættulegur hjarta og taugakerfinu, skv. lista Lýðheilsustöðvar yfir 'skaðlegar jurtir'. Best að leyfa börnunum ekki að kjamsa á þessum.

Í fylgiblaði Mbl., Garðurinn 14. maí 2000 er fjallað aðeins um Blátopp:
Blátoppur er sá toppur sem helst er klipptur, en hann er mjög veðurþolinn og sterkur. Almennt má segja um toppa að maðkar sækja ekki mikið á þá og þeir eru skuggþolnir. Ýmis afbrigði eru til af blátoppi og er bláberjatoppurinn Þokki eitt þeirra sem náð hefur talsverðri útbreiðslu á síðustu árum. Hann vex ívið hægar en blátoppur, en lauf hans heldur fersklegra yfirbragði lengur fram á haust.
Á vef Karls Guðjónssonar, garðyrkjustjóra Kirkjugarða Reykjavíkur, islandia.is/kalli (ekki lengur aðgengilegur) segir svo frá:
Harðgerður runni, vind seltu og skuggþolinn. Þrífst um allt land. Hentar í klippt eða óklippt limgerði, sem stakur runni, í runnaþyrpingar eða sem botngróður í trjábeðum. Gerir ekki miklar kröfur til jarðvegs. Er seltuþolin og nokkuð skuggþolinn. 
Í ræktun í gróðrarstövum er afbrigðið Bergtoppur 'Lonicera caerulea var altaica' og er hann af sumum talin harðgerðari en aðaltegundin. Einnig er til afbrigðið Berjablátoppur 'Lonicera caerulea var edulis' sem er með ætum berjum, hann er ekki mikið í almennri ræktun ennþá, en hann er til í tilraunaræktun og er vonandi stutt í að hann verði til sölu í öllum gróðrarstöðvum.  
Blómin gulhvít, tvö og tvö saman í blaðöxlunum Blómstrar samhliða laufgun í maí júní. Aldin er blá ber sem eru samvaxin tvö og tvö.
Við leit á netinu að latneska heiti blátopps, Lonicera caerulea, má gjarnan finna umfjöllun um bláu berin á runnanum, Gróðrarstöðin Mörk segir að þau séu óæt en á erlendum vefsíðum segir að þau séu ljúffeng. Líklega er verið að ræða um sitthvort afbrigðið, sbr. þessi orðs Sigurðar Arnarsonar:
Ekki er mikill munur á blátopp og berjablátopp en sá klónn sem hér er mest ræktaður af berjablátoppi er með örlítið mjórri blöð og ílöng ber og því er hægt að greina þá frændur í sundur án þess að borða berin. Berin á venjulegum blátoppi eru ævintýralega bragðvond [...]

Ingen kommentarer:

Send en kommentar