lørdag den 14. september 2013

Svartiskógur í Fossvogi

Í Skógræktarstöðinni í Fossvogi eru 5 — 6 grenilundir með allt að 8—10 m háum trjám. Þrír þeirra hafa verið langmest notaðir [af þröstum], Svartiskógur, austan við aðalhlið Skógræktarstöðvarinnar, Hermannslundur í norðausturhorni Skógræktarinnar og grenilundur neðan skrifstofubyggingarinnar. 
Svo segir frá trjáreitnum Svartaskógi, í Náttúrufræðingnum 4. tbl. 20. des. 1981.

Hvíta línan sýnir sirkabát hvar stígur hefur verið lagður í gegnum Svartaskóg - af kortavef ja.is.
Svartiskógur, sem stendur við Ræktunarstöðina í Fossvogi (Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar, áður Skógræktarstöðin í Fossvogi - Fossvogsstöðin), var opnaður fyrir almenning árið 1986 og gerður að “grenndarskógi” Hvassaleitisskóla árið 2003.

Árið 2013 voru svo gerðir hjóla- og göngustígar frá innkeyrslu að ræktunarstöðinni í gegnum Svartaskóg. Hér eru nokkrar myndir af nýja stígnum og umhverfi hans.

Við norðvestur-innganginn að skóginum
og innkeyrsluna að ræktunarstöðinni.
Fallegir leikir ljóss og skugga.
Hér hefði mátt vera búið að grisja, kannski.
Séð austanmegin frá.
Séð yfir ræktunarsvæði Ræktunarstöðvarinnar.
Heilmikið af silfurreyni í ræktun.
Maríuerla.
Áningarstaður.
Um upphaf stöðvarinnar og þátt Knuds Zimsens er fjallað í grein Hákonar Bjarnasonar í Skógræktarritinu 1983:
Fyrir atbeina borgarstjórans í Reykjavík, Knuds Zimsens, fékk félagið [Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930] ókeypis stórt land í Fossvogi sunnan bæjarins undir gróðrarstöð, sem byrjað var á sumarið 1932. En efni voru lítil og því verki miðaði hægt fyrstu árin. Eftir 1935 var farið að ræða um friðland ofan Reykjavíkur, það er síðar hlaut nafnið Heiðmörk.
Í Skógræktarritinu 1986 fjallar svo Ásgeir Svanbergsson um Fossvogsstöðina frá því hún komst í hendur SR. Það gerðist við það að starfsháttum Skógræktarfélags Íslands var breytt og það gert að sambandsfélagi og stofnuð voru tvö ný skógræktarfélög, í Reykjavík og Hafnarfirði, sem skiptu eignum S.Í. á milli sín. 
Þegar félagið [Skógræktarfélag Reykjavíkur] tók við Fossvogsstöðinni [árið 1946] var hún 7,93 ha landspilda neðst í Fossvogsdalnum austan Hafnarfjarðarvegar, en sunnan Fossvogsvegar. Þessi blettur stækkaði svo með árunum. 1955 var keypt land að Fossvogsbletti 2 b, 2,67 ha að stærð, og nokkru síðar 2,5 ha af Nýbýlalandi 8. Hermann Jónasson, fv. forsætisráðherra, átti lönd þessi og hafði stofnað þar til trjáræktar. Enn stendur sumarbústaður Hermanns í Fossvogi og mestur hluti ræktunar hans.
Þegar ný braut var lögð til Hafnarfjarðar 1971 var stöðin skert vegna þess um 1,4 ha, en aukin nokkru síðar um 5,7 ha norðan Fossvogsvegar. Land Skógræktarfélags Reykjavíkur í Fossvogi er því nú 17,4 ha alls.

Allt þetta land liggur í dalnum norðanverðum og hallar dálítið til suðurs og suðvesturs. Það var fyrrum deiglendi og sumt mýri, grjótlítið, en þarfnaðist framræslu. Jarðvegur er víðast djúpur, nokkuð frjór, en sums staðar súr. Landið var skjóllaust og suðaustanveður hörð og hætt við næturfrostum í dalnum. Meðal fyrstu verkefna var því að bæta framræslu og auka við skjólbelti sem byrjuð höfðu verið. Þarna hafði verið unnið þýðingarmikið starf á árum Skógræktarfélags Íslands, en margs konar vanefni og byrjunarvandkvæði háðu því. Yfir höfðu gengið krepputímar og styrjaldarár. Uppeldi trjáplantna var á byrjunarstigi hérlendis og trjáfræ lítt eða ekki fáanlegt.

Fyrsta starfsár Skógræktarfélags Reykjavíkur voru uppeldisreitir í Fossvogi um 1100 m 2 blettur neðan við núverandi stöðvarhús, en sáðreitir 55 m2. Engar byggingar voru á svæðinu, en túnblettir og móar í kring. Vestan við reitinn stóð belti af álmplöntum frá Beiarn í Noregi, gróðursett 1936, um mannhæðarhátt. Í norðausturhorni reitsins voru álnarháar sitkagreniplöntur í uppeldi, gróðursettar 1943, frá Kenai í Alaska og neðst í reitnum var sitkagreni frá Juneau í Alaska. Álmbeltið stendur að mestu enn í dag og í því elstu trén í stöðinni, en af sitkagreninu standa eftir tveir aðskildir smálundir og eru trén í þeim 10-12 metra há.

Þetta er hjólastígurinn á milli Seljahverfis og
Kópavogs, hér mætti planta nokkrum trjám.
Ef gripið er niður í ársskýrslur Skógræktarfélags Reykjavíkur fyrir 2013 og 2015 má finna upplýsingar um afdrif þessarar eignar:
Lóð félagsins á Suðurlandsbraut 68 var seld fyrir 70 milljónir króna. Félagið eignaðist lóðina eftir sölu á Fossvogsstöðinni á sínum tíma. Þegar Fossvogsstöðin var seld átti að greiða hluta andvirðisins með því að Skógræktarfélagið fengi lóð inni í ræktunarsvæðinu í Fossvogsstöðinni. Þegar félagið kallaði eftir lóðinni kom í ljós að Reykjavíkurborg vildi ekki láta félagið fá lóð þar og var ákveðið að í stað hennar fengi félagið lóð við Suðurlandsbraut. [2013]
Í byrjun þessa árs var síðan keypt jörðin Múlastaðir í Flókadal í Borgarbyggð. Jörðin er um 650 hektarar að stærð, frekar illa hýst en í gildi er skógræktarsamningur við Vesturlandsskóga. Það er von okkar að þarna geti risið fallegur skógur bæði til nytja sem og til yndis. Gaman væri ef hægt væri að skapa aðstöðu fyrir félagsmenn Skógræktarfélagsins til aðkoma þarna og dvelja í íbúðarhúsinu, en til stendur að hefjast handa við að gera við það að utan nú í vor og síðan, smám saman, að gera það íveruhæft. Með þessum kaupum er þörf okkar fyrir nýju skógræktarlandi fullnægt á næstu árum. [2015]

Færslan var síðast uppfærð í ágúst 2015.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar