mandag den 13. august 2012

Appelsínugul fluga - lauffluga (blaðfluga)

Ég hef orðið mikið var við appelsínugular flugur á trjágróðri á svölunum undanfarin ár. Í óðagoti hef ég jafnvel drepið eina eða tvær.

Fyrir nokkru sá ég ábendingu um að þetta væri í reynd Blaðfluga - Lyciella rorida, sbr. umfjöllun um hana á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ). Til allrar hamingju er um að ræða meinlaust, ef ekki bara gagnlegt skordýr.
Óskýr mynd síðuhaldara af blaðflugum á gljámispli í Kópavogi.
Eftirfarandi er brot úr umfjöllun NÍ:
Ísland
Fundin frá höfuðborgarsvæðinu norður að Esjurótum og Hvanneyri í Borgarfirði, austur um Suðurlandsundirlendið til Skóga undir Eyjafjöllum
Lífshættir
Blaðfluga heldur sig fyrst og fremst í skuggsælu gróðurþykkni í görðum og byggð eða á öðrum áhrifasvæðum okkar manna, s.s. trjárækt með ríkulegum undirgróðri og í lúpínubreiðum. Flugurnar eru oftast lítt áberandi og hafa hægt um sig inni í þykkninu en þyrlast upp ef styggð kemur að. Þær nærast á sveppþráðum á laufblöðum en leita aldrei í blóm. Blaðfluga þolir kulda ágætlega og kemur helst út úr fylgsnum sínum á svölum síðsumarkvöldum. Þá geta flugurnar gulu laðast að ljósi innan við opna glugga. Flugurnar fara að sjást í júní, eru algengastar síðsumars og á ferli langt fram á haustið. Lirfurnar lifa á rotnandi plöntuleifum í jarðvegi og safnhaugum svo og á gerlum og sveppþráðum í rotmassanum. Enginn skaði er af blaðflugum. 
Almennt
Blaðflugan er nýlegur landnemi hér á landi. Hún fannst fyrst árið 2001 á takmörkuðu svæði í Suðurhlíðunum í Reykjavík, í nágrenni Fossvogskirkjugarðs. Á næstu árum fjölgaði henni hratt og útbreiðslusvæðið stækkaði með hverju árinu. Má nú ganga að henni vísri hvarvetna á Suðurlandsundirlendi þar sem álitleg gróðurþykkni finnast, allt austur undir Eyjafjöll. Hún fannst fyrst í Borgarfirði 2010. 
Blaðfluga er einlit gul á lit og því áberandi þegar hana ber fyrir augu. Hún þykir óvenjuleg og vakti því fljótlega athygli þegar henni tók að fjölga í görðum höfuðborgarbúa.
Mynd fengin að láni af vef NÍ.
Í Danmörku er paddan kölluð løvflue. Það virðist nóg fyrir hana að einhver raki sé til staðar á gróðri og það er víst ekki óalgengt að sjá þær á kartöfluplöntum. Lirfur þeirra nærast á rotnandi plöntuleifum.
Mynd fengin að láni af fugleognatur.dk
- ljósmyndari Lillian Redam 
Þess ber að geta að á ferðinni er önnur appelsínugul (og svört) fluga, vespa sem ber heitið rifsþéla. Umfjöllun um hana má finna hér.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar