torsdag den 4. august 2011

Birkikvistur heldur fegurð sinni í um 15 ár

Blessaður kvisturinn þurfti að þola lélega vökvun fyrr í sumar
og skrænlaði svolítið.
Birkikvistur er runni sem ekki þarf að klippa reglulega. Hann heldur fegurð sinni í ein 15 ár en upp frá því dregur úr blómgun og greinar fara að feysknast. Þá er gott að skera hann niður, alveg niður undir rót og láta hann síðan vaxa upp aftur.

Ef klippa á runnann í kúlu eða móta hann á annan hátt ætti að gera það um leið og blómgun lýkur, miðsumars.
- segir á rit.is.

Birkikvisturinn á austursvölunum var alinn upp sem sunnukvistur þar til í ágúst 2011, þegar við áttuðum okkur á því að hann var enginn sunnukvistur. Greinarnar á honum eru ekki útsveigðar og alsettar blómum heldur koma á hann blómaklasar á víð og dreif. Hann er lágvaxinn og þéttvaxinn "blendingur tegunda uppruninn i norðausturhluta Asíu" skv. vef Gróðrastöðvarinnar Réttarhóls. Hann er jafnframt "auðræktaður, harðgerður og gríðarlega blómríkur" líkt og fram kemur á draumagardar.is.

Í Tímanum 12 júlí 1979 segir svo frá:
Birkikvistur (S. betulifolia) hefur náð miklum vinsældum og útbreiðslu hin siðari ár, enda fremur harðgerður og mjög fagur í blómi, alsettur hvitum blómsveipum í júlí-ágúst. Verður um 75 cm á hæð, laufin svipuð birkiblöðum.
Á vef Garðplöntusölunnar Borgar segir að birkikvistur verði 0,7-1,5 m á hæð en flestar aðrar heimildir segja að hann verði um 1 m á hæð. Samkvæmt ehow.co.uk eru til dvergafbrigði af spirea sp sem verða einungis um 60 cm og stór afbrigði sem ná 3 m hæð. Í blaði OR, Sumarhúsið (2008) segir að birkikvistur þoli hálfskugga og kjósi fremur sendinn og næringarríkan jarðveg.

Kvisturinn okkar kelur stundum svolítið en vex á móti talsvert á hverju sumri. Reyndar þola nýju greinarnar ekki svo mikið rok - þær brotna þegar verst lætur. Mest blómgast á 2 ára greinar segir á vef Blómavals.

Um snyrtingu skrautrunna 'sem blómstra á annars árs sprota' segir Vilmundur Hansen á facebook-síðunni 'ræktaðu garðinn þinn' að ekki megi klippa ofan af þeim á vorin. Meðal slíkra runna eru meyjarrós (Rosa moyesii), fjallarós (Rosa pendulina), birkikvistur (Spiraea sp.) og sunnukvistur (Spirea nipponica). "Sé það gert er hætt við að allir blómvísar séu klipptir burt. Klippa skal þessa runna síðla sumars eftir blómgun." Mjög ítarlegar leiðbeiningar Kristins H. Þorsteinssonar um klippingu birkikvists voru birtar í Mbl. 7. apríl 2004, leita má að "Klippingar - birkikvistur" á netinu til að finna þær. Víða er hins vegar mælt með því að leyfa birkikvisti að vaxa óáreittur og klippa hann aðeins þegar fjarlægja þarf gamlar greinar (t.d. vegna þurkka eða vorkals). Hann mun enda vinsæll í óklippt limgerði.

Á vef Lystigarðs Akureyrar og Nátthaga er latneskt heiti birkivists sagt vera spirea betulifolia, sem aftur er víðast hvar kallaður Heiðarkvistur á netinu. Nátthagi kallar Spiraea sp. vonarkvist. Kynlegir kvistir þessir plöntusérfræðingar.
Laufblöðin eru falleg. Haustlitirnir eru líka frábærir.
Á vef  Karls Guðjónssonar, garðyrkjustjóra Kirkjugarða Reykjavíkur (ekki lengur á netinu) er svohljóðandi umfjöllun um birkikvist:
Harðgerður runni, þrífst víða um land við sjávarsíðuna, er síðri inn til landsins. Þolir talsverðan skugga. Gerir ekki miklar kröfur til jarðvegs. Sum ár kelur Birkikvistur alveg niður í rót en hann jafnar sig fljótt af því. Notaður í lág limgerði klippt eða óklippt, runnaþyrpingar, einnig auðvelt að forma í t.d. kúlu. Með aldrinum verður mikið af dauðum greinum inní runnanum og getur þá verið ágætt að klippa hann alveg niður og láta hann endurnýja sig þannig, einnig er gott að grisja dauðar greinar innan úr runnanum árlega og opna hann aðeins þannig, en það er nokkuð mikil vinna.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar