onsdag den 28. december 2011

Hindberjahálfrunni

Hindber eru ekki ræktuð af undirrituðum, enda erfitt sökum afstöðu garðsins sem til umráða er til sólarinnar.
Hindber. Mynd af fésbókarsíðu
Gróðrarstöðvarinnar Þallar, 13. ág. 2011.
Fróðleikur um hindber.
Hindber eru hálfrunni, eins og Helgi Þórsson útskýrir í Bændablaðinu 23. sept. 2008:
Það þýðir að engin grein á runnanum lifir meira en tvö ár. Ferillinn er þannig að fyrsta árið vex upp grein sem annað árið blómstrar og kemur með ber og sölnar og deyr að því loknu.
Hindberjarunni þolir hálfskugga skv. Mork.is en á Havenyt.dk segir að of lítil sól komi niður á berunum og að skjól sé einnig mjög æskilegt: “Hindbær kan tåle lidt skygge, men også kun lidt, der skal være sol det meste af dagen i hindbærbedet for at få aromatiske bær. Der skal også være læ, så bierne kan lide at gå på arbejde.” Á natturan.is segir að uppskera hindberjarunna sé afskaplega rýr á Íslandi nema í bestu sumrum, en líklega er það örlítið gamalt viðhorf. Hindberjarunnar geta dafnað vel á Íslandi séu þeir í góðu skjóli sagði Bergrún A. Þorsteinsdóttir aðstoðarskógavörður í hádegisútvarpinu 10. ágúst 2010.

Í Garðheimablaðinu, 1. tbl. 2011 skrifar Jóna Björk Gísladóttir um hindber:
Plönturnar gera kröfu um vel valinn stað í garðinum, sólríkan og skjólgóðan. Þau gera minni kröfur til jarðvegsins en þó er gott að blanda lífrænum áburði saman við moldina áður en þau eru gróðursett og passa að vökva, sé mikill þurrkur úti. Misjafnt er eftir yrkjum hversu háar og umfangsmiklar plönturnar verða, en flestar eru um 2 metrar á hæð eða jafnvel hærri. Því er nauðsynlegt að veita þeim stuðning, þannig að þær leggist ekki niður. Það er hægt að gera á nokkra vegu, t.a.m. með því að styðja við hverja plöntu, stinga staurum niður á hverju horni og bandspotta í kringum svæðið, setja vírgirðingu eða nota önnur tiltæk ráð sem henta hverjum stað fyrir sig.
Hindberjaplöntur fjölga sér með rótarskotum, en rótakerfið nær þó ekki lengra en um 15 cm ofan í jörðina. Því getur verið gott að setja einhvers konar skilrúm 15-20 cm ofan í jörðina í kringum það svæði sem hindberin eiga að fá undir sig, til að halda rótarskotunum á réttum stað. Það má t.d. gera með plastbeðkanti eða með því að smíða kassa utanum hindberjaræktunina. Annars er hætta á að plönturnar skjóti sér yfir í næstu beð eða jafnvel ennþá lengra. Mjög mikilvægt er að halda vel utan um rótarskotin vilji maður að plönturnar fjölgi sér. Þá gefa hindberjaplöntur einungis ávöxt á annars árs sprota og eru því í sífelldri endurnýjun. Þegar sprotarnir eru búnir að gefa af sér ávexti á haustin er gott að klippa þá niður, en passa þarf að fjarlægja ekki ræturnar þannig að nýir sprotar geti vaxið upp frá þeim sem gefa síðan ávöxt ári síðar. Hindberin eru mjög fl jót að dreifa sér, en gera má ráð fyrir að það taki nokkur ár að koma ræktuninni það vel af stað að hún gefi mikið af sér. Algengt er að settar séu niður 3-4 plöntur í upphafi ræktunar með um 50 cm millibili, sem ætti að verða orðið að myndarlegri þyrpingu eftir 4 ár eða svo.

Jón Kristófer Arnarson segir svo frá í Dagskránni 3. júní 2010:
Hindberjaplantan er þyrnóttur hálfrunni sem blómstrar á tveggja ára greinar sem síðan kala niður veturinn eftir. Þá taka sprotar fyrra árs við árið eftir og svo koll af kolli. Klippa þarf dauðar greinar og búa í haginn fyrir hæfilegt magn af nýjum greinum sem koma frá rót.
Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur fjallar um hindber í Mbl. 14. sept. 2002:
Hindber (Rubus idaeus) eru enn sem komið er sárasjaldgæf hér á landi. Þó hefur runninn gefið af sér ágætis uppskeru á nokkrum stöðum og greinilegt að hann getur þrifist með ágætum í skjólsælum görðum. Hindberjarunninn er allólíkur rifsi því hann myndar aldin á greinum frá fyrra ári og eru greinarnar síðan klipptar niðri við jörð að uppskeru lokinni. Alltaf þarf að fjarlægja allar gamlar og dauðar greinar. Gott getur verið að binda upp plönturnar á víra sem strengdir eru á milli staura sem ná upp í 130 cm á hæð. Strengdir eru vírar í 75, 100 og 130 cm hæð. Síðan eru greinarnar bundnar við vírana með garni þannig að um 10-15 cm séu á milli greina. Hæfilegt millibil á milli plantna er 40-50 cm, þannig mynda þær hálfgert limgerði. Líka má rækta plönturnar án stuðnings. Hindber senda út mikið af rótarskotum og þau þarf að uppræta reglulega. 
Ræktun í potti.
Það gefur augaleið að ræktun í potti kemur í veg fyrir að rótarskot hindberjarunna verði vandamál. Á vefnum Making Rainbows segir að þó þurfi að passa upp á sprotafjöldann, því ef sprotarnir verði of margir þá geti þeir stolið næringu og sól hvor af öðrum sem kemur niður á berjafjölda. Þar segir einnig að ólíkt sólberjum og jarðarberjum, vilji hindber ekki láta hita sér um ræturnar – það þarf því að passa að pottarnir hitni ekki um of og baki ræturnar. Rótarkerfi hindberja er grunnt eins og hjá jarðarberjum og því er ekki þörf á mjög djúpum pottum.

Mælt er með því að pottar séu 30 til 40 cm í þvermál og um 20 lítra. Skera á niður eldri sprota um leið og þeir hafa borið ber svo nýrri sprotar fái meira rými til að vaxa.

Villt hindber.
Þorvaldur Pálmason segir frá því á berjavinir.com (ódagsett) að hindber hafi náð náttúrulegri útbreiðslu í birkiskóginum að Mógilsá með rótarskotum og jarðrenglum. Á skogur.is má finna grein frá árinu 2005 um þessa runna á Mógilsá:
Hindberjarunnar vaxa nú á tæplega hálfs hektara svæði á Mógilsá, að mestu undir laufþaki tæplega 40 ára gamals birkiskógar. Nær hann að mynda þar tæplega mannhæðarhátt, þétt runnalag. Hindberjarunnarnir hafa breiðst ört út um skógarbotninn með rótarskotum og jarðrenglum en einnig eru þekkt dæmi um sjálfsánar hindberjaplöntur. Að sögn Þórarins Benedikz er saga hindberjanna orðin aldafjórðungslöng á Mógilsá. Hann gróðursetti sjálfur tíu plöntur á þessum stað árið 1981 og voru þær plöntur ættaðar úr Þrændalögum í Noregi. Hafa þær breiðst út mikið síðan. Tæpum tíu árum síðar, eða árið 1991, varð fyrst vart við umtalsverða berjasprettu og náðu berin þá góðum þroska. Frá þeim tíma hafa hindber náð fullum þroska í flestum árum, einkum í hlýju árferði. 
Í ársskýrslu Aldingarðsins í Kristnesi 2007 er eftirfarandi umfjöllun:
Þann 25/5 Fórum við Helgi og Beate ásamt Þórði sérlegum aðstoðarmanni til Mógilsár að afla þar hindberja rótarskota, en mikil hindberjabreiða er fyrir ofan hús rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá. Þórarinn Benediktson fræddi okkur á því í símtali að þetta væru allt fræplöntur frá Þrændarlögum  og upphaflega hafi um tíu plöntur verið gróðursettar. Enda virtist nokkur munur á klónunum þó allir yxu þeir að einhverju leiti saman.
Á skilti sem þar er að finna segir að fyrstu plönturnar hafi verið
gróðursettar 1982, berin séu æt og þroskist í september.
Hluti af hindberjabreiðunum við Mógilsá, brum að opnast í apríl. 
Í ársskýrslunni segir einnig frá hindberjabreiðunni í Fossvoginum, "á hægrihönd þegar ekið er frá sjúkrahúsi að ræktunarstöð".
Hindber í alfaraleið í Fossvogi.
Gömul og góð ráð.
Í Fálkanum, 15. tbl. apríl 1953, má finna uppskrift að sæmilegri hindberjauppskeru:
Hindberjarunnum er fjölgað með rótarsprotum. Móðurplönturnar þurfa að hafa 1 1/2 meter milli raða, og 1 meter milli plantna í röðinni og vera gróðursettar í djúpan og myldinn, áburðarríkan jarðveg. Þær þola illa þurrk. Ef óskað er eftir að framleiða mikið af rótarsprotum til fjölgunar plöntunum og til sölu, verður að klippa mikið ofan af runnunum en það verður á kostnað uppskeru berjanna, en við þetta eykst hæfileiki plantnanna til fjölgun rótarsprotanna, en moldin þarf að vera laus í sér, myldin og áburðarrík til þess að rótarsprotarnir þroskist vel. [...]

Um ræktun þeirra að öðru leyti er rétt að nefna eftirfarandi. Sumarið hér á landi er tæplega nógu heitt að jafnaði, svo að árlega megi reikna með góðri berjatekju, en ætti þó í flestum árum að vera sæmileg. Velja þarf þeim góðan stað í garðinum þar sem skjól er og nýtur vel sólar. Runnarnir verða aldrei mjög háir, kemur það til af því að greinarnar verða aðeins tveggja ára. Seinni veturinn deyja þær niður að rót. Fyrra sumarið geta þær orðið 1 m á hæð, annað sumarið bera þær greinar hlíðargreinar með berjum ef ræktunin er i góðu lagi. Það haust eru gömlu greinarnar klipptar niður við jörðu. Næsta vor er þeim greinum sem sprottið hafa upp af rótinni sumarið áður fækkað og látnar standa eftir þær kraftmestu, t. d. 5—8 greinar á hverjum runna og um leið er rétt að stytta þær nokkuð til að hliðargreinar myndist. Greinarnar þurfa stuðning, verður þvi að binda þær upp að tréspelku eða styrkja þær á annan hátt.

Þar sem hindber eru ræktuð vegna berjanna, en ekki vegna plöntusölu, er hæfilegt millibil milli plantna, rúmlega 1 m. á hvorn veg. Ekki er ráðlegt að gera plönturnar eldri en 8 ára því eftir það gefa þær litla eða enga uppskeru. Hindber bykja herramannsmatur og hið mesta lostæti.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar