onsdag den 9. januar 2013

Silfurber (hreisturblað / sveipsilfurblað)


Silfurber (hreisturblað / sveipsilfurblað)

Inngangur
Elaeagnus umbellata er lýst á vef Lystigarðs Akureyrar sem 2-4 m runna sem nota má í þyrpingar, rækta stakstæðan, í steinhæðir eða beðjarðra. Þar kemur fram að hann sé ekki í ræktun í garðinum sem stendur en hann sé “á óskalista”.

Samkvæmt upplýsingum sem undirritaður hefur kynnt sér ber runninn að jafnaði ávöxt fimm til sex árum eftir að sáð er fyrir honum (sylva.org; Natural Food Institute, Wonder Crops. 1987 – pfaf.org). Hins vegar getur hann við góðar aðstæður gert það við þriggja ára aldur, þegar hann hefur náð 1,2 til 1,4 m hæð (fs.fed.us). Plantan er fljótvaxin og getur orðið 5 m að hæð og breidd á sex árum (Allan & Steiner, 1965 – sylva.org). Í Danmörku er runninn sagður ná 3-4 m hæð (haven2011.nn5.dk).

Runninn er sagður mjög saltþolinn og prýða vel í limgerðum, jafnvel á veðrasömustu stöðum. (Rosewarne experimental horticultural station. Shelter Trees and Hedges. – pfaf.org). Einnig geti hann nýst sem vindbrjótur. Hann vex best í mikilli birtu, þolir léttan skugga en ungplöntur þola illa skugga (sylva.org). Hann þolir talsverðan þurrk þegar hann er komin á legg.  

Rætur runnans geta notið góðs af sambúð við geislasvepp af ættkvíslinni Frankia, líkt og elri, sem bindur nitur úr lofti. Runninn er þannig jarðvegsbætandi (köfnunarefnisaukandi) (Cornell.edu). Helst kýs hann sendinn, vel framræstan jarðveg og kann ágætlega við sig í leirkenndum, næringarsnauðum jarðvegi.

Silfurber blómstrar hvítgulum blómum á vorin og blómin munu vera í uppáhaldi hjá býflugum. Ilmurinn er víst heillandi líka. Um berin er fjallað hér að neðan.
Mynd: theinkyspinnery.blogspot.com
Nafnið
Opinbera íslenska heitið á Elaeagnus umbellata virðist vera hreisturblað eða sveipsilfurblað. Bæði laufblöð og ber eru silfursveipuð, eða þakin silfurhreistri. Ég hyggst hins vegar notast við þjálla og fallegra nafn, silfurber eða silfurberjarunni. Silfurblað er frátekið fyrir ættingjann Eleagnus commutata, en báðir eru af silfurblaðaætt (Elaeagnaceae). Í Danmörku ber silfurberjarunninn nafnið sveipsilfurblað (skærm-sølvblad), á sænsku kóreskt silfurblað (koreansk silverbuske), á norsku japanskt silfurblað (japansk sølvbusk) og á ensku m.a. japanskt silfurber og haustber (japanese silverberry; autumnberry; einnig autumn olive).

Ágeng tegund á sumum svæðum
Silfurber er talið til ágengra tegunda í flestum ríkjum Bandaríkjanna, einnig í Kanada og Ástralíu. Í nokkrum ríkjum BNA er silfurber flokkað sem ágengt illgresi og plöntun þess bönnuð. Auðvelt mun vera að toga nýgræðlinga upp með rótum og tiltölulega auðvelt að ná fullorðnum einstaklingum upp í heilu lagi (þegar raki er í jörðu). Runninn á uppruna sinn í Kína, Kóreu og Japan og var fluttur til Bandaríkjanna um 1830 sem skrautrunni, til notkunar í skjólbelti og til að nota í baráttu við gróður- og jarðvegseyðingu, m.a. á námusvæðum. Í Bretlandi hefur silfurberjarunninn verið ræktaður í yfir 200 ár án þess að hafa verið flokkaður sem ágengur (sylva.org).

Runninn þolir mjög vel klippingu og vex tvíefldur upp ef hann er klipptur alveg niður.

Mynd: destinationoakland.com
Lýkópen (e. lycopene) í silfurberjum
Silfurberjarunninn gefur vel af sér af bragðmiklum berjum, sem munu vera litlu minni en rifsber. Hægt er að nota þau í sultur, þurrka þau og borða hrá. Best mun vera að tína þau fyrir fyrsta frost (psa-rising.com). Á þeirri síðu er haft eftir Marion Waak Newman:
"If you eat them then, the tartness will pucker your mouth, but sweetness is your reward. The flavor is reminiscent of several fruits from currants and cranberries to peaches."

Árleg uppskera mun vera frá 4 til 14 kg (psa-rising.com). Nýlega var uppgötvað að silfurber eru besta uppspretta lýkópens sem völ er á. Gefum islenskt.is orðið, um hvað lýkópen er:
“Lýkópen er í flokki karótínóíða sem gefur tómötunum rauða litinn, er öflugt andoxunarefni og er talið veita vörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameini í blöðruhálskirtli og meltingarvegi.

Tómatar almennt eru mjög ríkir af lýkópen. Lýkópen magnið í Heilsutómötunum er að lágmarki 9 mg í 100 g sem er nær þrefalt það magn sem mælist í hefðbundnum tómötum.”

Lýkópen finnst víst bara í rauðum ávöxtum. Í silfurberjum er að lágmarki 30 mg af lýkópeni í 100 g, en meðaltalið mun vera 40 til 50 mg í 100 g (cornell.edu).

Berin eru einnig rík af vítamínum og auk þess próteini, sem mun vera nokkuð sérstakt. Hafa þau hlotið viðurnafnið “Goji ber vestursins” vegna heilnæmra eiginleika sinna.
Ræktun af fræi
Fræin eiga að spíra eftir fjögurra vikna heitörvun og síðan 12 vikna kaldörvun (heirloomseedswap.com). Heitörvun mun hins vegar ekki vera forsenda sprírunar (fs.fed.us).


Heimildir
Sylva.org:
http://www.sylva.org.uk/forestryhorizons/documents/Autumn_olive_QJF20060413.pdf
Pfaf.org:
http://www.pfaf.org/user/Plant.aspx?LatinName=Elaeagnus+umbellata
Cornell.edu:
http://www.fruit.cornell.edu/berry/production/pdfs/autumnolive.pdf
fs.fed.us:
http://www.fs.fed.us/database/feis/plants/shrub/elaumb/all.html
66 Square Feet:
http://66squarefeet.blogspot.com/2012/09/autumn-olives.html
heirloomseedswap.com:
http://www.heirloomseedswap.com/item/888

Mynd: good4youherbals.tumblr.com

Ingen kommentarer:

Send en kommentar