fredag den 20. juli 2012

Gróðrarstöðin Birkihlíð við Dalveg

Gróðrarstöðin Birkihlið stóð frá 1993-2006 við Dalveg í Kópavogi, en var áður við Nýbýlaveg. Frá Dalvegi flutti gróðrarstöðin austur í Reykholt í Bláskógabyggð. Þetta er rakið í minningargrein um Einar Þorgeirsson skrúðgarðyrkjumeistara sem rak stöðina frá 1984 .
Sölusvæðið - mynd af Birkihlid.is
(virðist tekin 19. júní 1996)
Ögn hrárra um að lítast 10. júní 2012
Við Dalveg er í dag lítið að gerast, ræktunarsvæðið í órækt og gróðurhúsið virðist eingöngu notað undir geymslu á bílkerrum og tjaldvögnum á veturnar. Reyndar stóð árið 2006 til að fyrirtækið Brimborg færðist þangað, líkt og fram kemur í frétt á HK.is 24. október 2006:
Brimborgarmenn eru á leið í Kópavoginn, en þeir hafa keypt land það sem Gróðrastöðin Birkihlíð stendur á við Dalveg. Þar ætla Brimborgarmenn að byggja nýtt húsnæði og flytja þangað hluta af starfsemi sinni af Bíldshöfðanum.
Árin 2009 og 2010 var fyrirtækið Letigarðar með lóðina í láni og leigði út aðstöðu í gróðurhúsinu til fólks, en það stóð stutt yfir.

Eftirfarandi er af vefnum birkihlid.is, sem aðgengilegur er á vefsafn.is og archive.org:
Þann 29. september 1937 stofnuðu Jóhann og Jakobína Schröder gróðrarstöðina Birkihlíð Í Kópavoginum, nánast í botni fossvogsdals, þar sem núna er gatan Birkigrund. Þar ræktuðu þau blóm og annan garðagróður, meðal annars ræktuðu þau mikið rósir.
Mynd af Birkihlíð á "gamla staðnum"
Þau ráku stöðina til 1979 er Kópavogsbær tók við henni og rak til 1984.
Haustið 1984 tók Einar Þorgeirsson skrúðgarðyrkjumeistari stöðina að leigu hjá Kópavogsbæ og var með hana á leigu til 1993, en þá flutti stöðin á Dalvegi 32 þar sem hún er í dag. En byrjað var að móta og brjóta landið á Dalveginum til ræktunar 1991, 1992 var fyrstu plöntunum plantað þar. Landið við Dalveg er tæpir 2 ha. Fyrsti hluti glergróðurhúss var byggður 1995, en þá var tekin í notkun uppeldishús 350 m2, annar áfangi var reistur 1998, og í þeim hluta er meðal annars rekin blómabúðin. Einnig eru 4 plasthús á svæðinu samtals 351 m2. 
Birkihlíð hafði á árunum 1988 -1992 á leigu gróðrarstöðina Alaska í Breiðholti, og var með sölu þar og ræktun, Árið 1997 var gróðrarstöðin Lundur við Vesturlandsveg á leigu undir ræktun.
Unnið við að gera græðlingabeð
- mynd af birkihlid.is
Hér eru nokkrar nýlegar myndir af vettvangi í gróðrastöðinni fyrrverandi:
Græðlingabeð. Horft í átt að Skógarhjalla




Þetta blóðrifs 'Færeyjar' greip augað þar sem það óx
undir stóru birkitré

   






Breytingar á deiliskipulagi svæðisins frá 2007 eru sem hér segir:
[...] gert er ráð fyrir verslunar og skrifstofuhúsnæði í stað gróðrarstöðvar á svæði sem er um 18.700 m2 að flatarmáli. Miðað er við að byggð verði einnar hæðar bygging með kjallara, allt að um 9.300 m2, með nýtingarhlutfall um 0,5.
Ræktunarsvæði
- mynd af birkihlid.is
Aðkoman - mynd af birkihlid.is
Séð yfir Reykjanesbrautina í áttina að Birkihlíð.

søndag den 8. juli 2012

Nýjar svalir (nýr garður)

Í síðasta mánuði flutti síðuhaldari í nýja íbúð. Hún liggur nokkru neðar í Kópavogi en sú gamla, nánar tiltekið í Kópavogsdalnum. Svalirnar á nýju íbúðinni eru 7,4 fm, en á þeirri gömlu voru samtals 15 fm til umráða.


Það varð því strax ljóst að færri trjáplöntur yrðu á nýju svölunum. Með í för fóru einungis rósareynir, súluösp og birkikvistur. Svalirnar snúa í suður og þess vegna verður hugsanlega hægt að auka jarðarberjaræktunina, sem gekk upp og ofan á gamla staðnum. 

Garðarifsplönturnar tvær, fjallarifsið, blátoppurinn og broddfuran hafa hvert um sig fengið notalega holu í Grímsnesi. Broddfuruna á víst ekki að geyma lengi í potti, ellegar verður stólparótin óánægð. Hinar eru engar smáplöntur lengur og ættu að spjara sig. Fjallarifsið og blátoppurinn voru með elstu trjánum í gamla svalagarðinum (settar niður 2008) og ræturnar búnar að fylla ansi vel út í pottana. Síðuhaldari er greinilega latur að umpotta.
Blátoppur -
nokkur blöð og greinar sölnuðu eftir flutninginn
en honum virðist líða vel í dag

Garðarifs -
blómvísum og blöðum fækkaði
en heilsan nokkuð góð.

Hitt garðarifsið

Fjallarifsið gulnaði nokkuð mikið,
líklega vegna vatnsskorts
Virginíuheggnum var potað niður í garði Reykjavík, því spildan í Grímsnesi er ekki nægilega gróin til að veita honum tilhlýðilegt skjól.

[Þess má geta að skv. H. Hafliðasyni geta ljós blöð á ýmsum trjágróðri snemma árs stafað af þvi að níturvirknin í moldinni er ekki komin nægilega af stað. "Moldin er of köld og að líkindum líka þétt og loftlaus. Það er hægt að bæta úr þessu með því að losa aðeins og varlega um moldina og vökva með uppleystum pottablómaáburði í volgu vatni."]

Hlynurinn er fegursta tréð í skóginum

Það kemur fyrir að fjölskyldan kaupir plöntu á leið upp í Grímsnes til að stinga niður í lítið bústaðarland sem þar er á byrjunarstigi ræktunar. Hér verður sagt frá garðahlyni - (l. Acer pseudoplatanus, e. sycamore maple), en einn slíkur var keyptur á 1.275 kr. í Húsasmiðjunni Selfossi þann 17. júlí 2010. Af því tilefni sankaði síðuhaldari að sér svolitlum upplýsingum um garðahlyn og ræktun hans á Íslandi.

I. Stærð, vaxtarhraði, kjöraðstæður og harðgeri
Vegna mögulegrar framtíðarstærðar þarfnast garðahlynur "lífsrúms". Svo vitnaði sé í grein Guðríðar Helgadóttur í Mbl. 4. júlí 2001:
Á Íslandi eru hæstu hlynir rétt um 15 m háir. Krónan verður stór og hvelfd og þarf hlynurinn mikið og gott rými til að hann njóti sín til fulls.
Þvermál krónu er sagt vera allt frá tveimur þriðju og til jafns við hæðina, á backyardgardener.com, þannig að reikna má með a.m.k. 10 m þvermáli krónu á 15 m háu tré.
Greyið garðahlynurinn í septemberlok 2010
með lélega skjólvegginn sinn
Líkt og þessar myndir bera með sér er hraður vöxtur ekki vandamál ennþá hjá þessum garðahlyni. Hann hefur kalið alveg niður í rót og vaxið upp aftur. Enda þótt hlynurinn sé lítill þá var honum valinn staður þar sem hann gæti breitt úr sér með tímanum, svona til öryggis. Það lítur þó allt út fyrir að ráðlegra væri að kaupa annað eintak, eða rækta hraustan hlyn upp frá fræi.
Garðahlynur enn á lífi í júlí 2012

Kannski verður hægt að hengja rólu í tréð eftir einhverja áratugi, en slíkan tíma virðist taka það að ná sæmilegri hæð á Íslandi. Hlynur er sagður geta náð 200-250 ára aldri (ríflega tvöfaldur aldur aspar) en 400- 500 ára aldri í heimkynnum sínum. Á artsdatabanken.no segir að tréð vaxi hratt fram til 20-30 ára aldurs, eftir það sé vöxturinn hægur. Það gæti passað við ummæli Einars Inga Sigmarssonar í Garðinum 2012, bls. 16, þar sem segir að kalárátta garðahlyns á Íslandi minnki ekki að ráði fyrr en eftir 2-3 áratugi. Eðlilegt er að kal minnki til samræmis við minni nývöxt.

Dæmi um smávaxinn garðahlyn á Íslandi er "Garðahlynur Stebba skó" (purpurahlynur, Acer pseudoplatanus 'Purpureum') sem á að hafa verið plantað stuttu eftir að húsið sem hann stendur við var byggt, sem var 1920. Skógræktarfélag Íslands útnefndi hann tré ársins 2008 og við það tækifæri mældist hann 8,83 m á hæð.

Tré ársins 2008. Mynd úr Bændablaðinu.
Purpurahlynur, sem einkennist af rauðfjólubláum lit á neðra borði laufblaða, er lágvaxið afbrigði garðahlyns, samanborið við hinn almenna sycamore. Á rvroger.co.uk er purpureum garðahlynur merktur 'height: medium':
A very useful tree, foliage is green on top with a rich purple underneath. It looks very dramatic when blowing in the wind.
Sycamore garðahlynur er á sömu síðu merktur 'height: large' og mælt með honum sem skjóltré:
It's easy to grow in the most exposed sites, forming an excellent windbreak. Quickly growing into a large tree.
Það virðist mega gera því skóna að garðahlynur gegni í mildara loftslagi sama hlutverki og öspin hér á landi. Hann er sumsstaðar umdeildur sem bæjartré vegna umfangs rótarkerfisins.

Á grodur.is segir að garðahlynur verði einungis 10 m hár á skerinu:
Garðahlynur getur orðið mjög krónumikið og varpað nokkrum skugga. Því er mikilvægt að staðsetja tréð með því tilliti. Hérlendis getur hann náð allt að 10 m hæð. Hann er nokkuð vind- og saltþolinn þegar hann hefur komið sér fyrir og kominn af stað en þrífst best á sólríkum og skjólgóðum stað. Garðahlynur er nokkuð hægvaxta, líður best í rökum jarðvegi, því er gott að vökva hann vel og gefa kalkríkan áburð.
Eitthvað virðist höfundur þó vanmeta hæð hérlendra hlyntrjáa. Til dæmis segir í tilkynningu frá Skógræktarfélagi Íslands í október 2008 frá 15-16 m garðahlyn við Laufásveg 43 sem Vigfús Guðmundsson frá Engey gróðursetti á þriðja áratug 20. aldar. Garðahlynur er notaður sem skuggatré og vindbrjótur og hann er eini hlynurinn sem  þolir salt, líkt og fram kemur í grein Árna Þórólfssonar skógarvarðar um garðahlyn í blaði Skórgræktarfélags Hafnarfjarðar "Þöll", 18. árg. des. 2011 (bls. 20-23). Hér á landi virðast flestir sammála um að garðahlynur þurfi skjól, laufblöðin geti rifnað mikið í roki. Kannski munu þau vísindi breytast með tímanum, sbr. það sem segir um vindþol garðahlyns erlendis. Hann mun þó vera tiltölulega næmur fyrir miklu roki fyrstu árin, auk þess sem nýlaufgaður garðahlynur getur verið viðkvæmur fyrir miklu roki á vorin skv. bonsaiprimer.com. Endarnir á laufunum eru víst viðkvæmir fyrir þurrki. Ólafur í Nátthaga segir (um broddhlyn reyndar):
Viðkvæmasti hluti broddhlyns eru blöðin skömmu eftir laufgun, en þá geta þau rifnað illa af roki, en seinna þola þau það vel.
Erlendis verður garðahlynur 20-40 m hár.
Stór hlynur í Kópavogi sumarið 2011.
Garðahlynur við Bjarnarstíg var tré mánaðarins hjá Skógræktarfélagi Rvk. í janúar 2009 og var hann þá 13,3 m, talinn gróðursettur 1930, þvermál trjákrónu 10 m. Í umfjöllun félagsins um hann er jafnframt minnst á þekktasta hlyn landsins, ráðhúshlyninn á horni Suðurgötu og Vonarstrætis sem í greininni er sagður gróðursettur 1918. Á vef Reykjavíkurborgar segir að hann sé "líklega gróðursettur 1917 af Nicolaj Bjarnasyni eða fjölskyldu hans sem bjó í húsinu nr. 5 við Suðurgötu". Um muninn á ungviði og fullorðnum garðahlyni segir í sömu tilkynningu SR:
Þolir mengun, salt og vind þegar hann eldist en er viðkvæmur í uppeldi.
Ráðhúshlynurinn var tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands 1994 og mældist þá rúmlega 10 m hár, breidd krónu um 13 m. Hann er þar sagður hafa vaxið áfallalítið en kali þó oft lítillega í greinarendana.

Í skýrslu Reykjavíkurborgar um Kálfamóa í Grafarholti frá 2007 er fjallað um tvo garðahlyni, rúmlega 10 m háa, "sem gróðursettir voru á sjötta áratugnum". Það gefur ágætis hugmynd um vaxtahraðann - að meðaltali um 0,2 m árlega (hægast fyrstu árin eða fyrsta áratuginn, svo hægist aftur á að 3 áratugum liðnum, sbr. það sem segir hér að ofan). Erfitt er að finna upplýsingar um hæsta hlyntré landsins, en á fallegu húsi við lækinn í Hafnarfirði mun vera þinglýst kvöð vegna "elsta og hæsta hlyns í byggð á Íslandi".

Í grein Árna Þórólfssonar segir að garðahlynur vaxi best í frjóum, djúpum, lausum og vel framræstum jarðvegi en hann geti einnig þrifist ágætlega við óhagstæðari skilyrði. Helst mælir hann með skuggsælum og rökum hlíðum þar sem jarðvegur er grýttur. Ég geri ráð fyrir því að sumarfrostin angri trén síður í hlíðum. Samkvæmt greininni geymir Höfðaskógur við Hvaleyrarvatn líklega flesta garðahlyni í einum skógi á Íslandi, um 200 giskar Árni á.

Á Ingibjorg.is kemur fram að garðahlynur þurfi frjóan, vel framræstan jarðveg og stuðning fyrstu árin. Hér að ofan koma fram tilmæli um bæði sólríkan og skuggsælan stað. Hið rétta virðist vera, líkt og segir á snl.no, að garðahlynur er mjög skuggþolinn fyrstu árin: "meget skyggetålende som ung, og kan derfor etablere seg i skog". Skógræktarfélag Rvk. segir, í fyrrnefndri umfjöllun um Bjarnarstígshlyninn, garðahlyn þrífast "vel í skugga á unga aldri". Hálfskuggi hentar best að unglingsárunum liðnum skv. artsdatabanken.no, en einnig segir að hann þoli misjafnar aðstæður m.t.t. ljóss, vinds og salts. Líklega eru vindasömustu staðir á Íslandi ekki kjörlendi garðahlyns. Í Garðinum 2012, bls. 16, segir Einar Ingi Sigmarsson, og virðist byggja á grein Auðar Ottesen 'Lauftré á Íslandi (2006):
Hann kýs sólríka og skjólgóða staði en getur þó komist á legg í hálfskugga. Er viðkvæmur gagnvart haustkali og vex best þar sem haust eru löng og mild. Verður salt- og vindþolinn með aldrinum [...]
II. Í sumarbústaðnum
Árið 1941 skrifaði Hákon Bjarnason í Dvöl, 1.tbl. 9. árg.: "Hlyn af norðlægum stofni má og rækta með allsæmilegum árangri í þeim héruðum landsins, þar sem veðurfar er bezt." Í dag er öldin önnur og betri. Ólafur Sturla í Náttahaga hefur eftirfarandi að segja um garðahlyn í sumarbústaðarlöndum, í riti sínu 'Aukin fjölbreytni í yndisskógrækt' (maí 2009):
Það má rækta garðahlyn, Acer pseudoplatanus, í sumarbústaðalandi, jú jú!

En passið vel að hafa plássið nóg, næringarík mold, þokkalegt skjól frá byrjun og ekki staðsetja hann í lægðum þar sem kalt loft safnast fyrir.

Er varla nógu öruggur í ræktun inn til landsins. Þarf löng og mild haust til að ljúka vexti almennilega. Kelur oft mikið af völdum haustfrosta fyrstu 10 – 20 árin. 
Þarf úthugsaða staðsetningu miðað við hús, veg, önnur tré og skóg, vegna þess hversu umfangsmikill, stór og gamall hann getur orðið.
Í riti Garðyrkjufélagsins í maí 2008 segir Hugrún Jóhannesdóttir frá líðan nokkurra hlyntegunda sem hún fylgist með:
Hlynir vaxa yfirleitt hægt fyrsta áratuginn, auk þess sem tré sem eru á mörkum þess að geta lifað hérna, þarf oft að gefa nokkur ár til að róta sig og aðlaga sig veðurfarinu, þannig þarf vissulega að gefa þessum trjám lengri tíma til að sjá hvað verður úr þeim. 
[...] Garðahlynur sem gróðursettur var í þokkalegu skjóli í sumarbústaðalandi fyrir sex árum hefur aldrei kalið en vex fremur hægt.
Svo virðist sem elstu hlynirnir á Íslandi séu ættaðir frá Danmörku og samkvæmt grein í Laufblaðinu 1994/1, bls. 14, eru afkomendur þeirra harðgerðari en foreldrar sínir. Þá segir að nokkuð sé um innflutning á hlyntrjám frá Hollandi, án þess að þess sé getið hvort þeir séu eitthvað verri fyrir vikið. Á öðrum stað (heimild týnd) er fullyrt að garðahlynur frá Lúxemborg hausti sig fyrr en afkomendur hlyns úr Vesturbænum og það sama megi sega um garðahlyn af fræi frá Central Park, NY. Í Garðinum 2012, bls. 16, fullyrðir Einar Ingi Sigmarsson:
Hlynur hefur verið fluttur inn í mörg ár frá Danmörku sem 1-4 m há tré, slíkar plöntur eru mjög misjafnar í aðlögunarhæfni sinni að íslensku lofstlagi, margar kelur því illa og verða jafnvel að engu. Dönsku plöntunar eru oft ekki af dönskum uppruna heldur af fræi frá Hollandi og er þá enn síður von á góðum árangri. Þetta hafa Norðmenn einnig mátt reyna við innflutning hlyns frá Danmörku. Ekki er þó sjálfgefið að íslenskar plöntur séu betri, þar sem mæður þeirra eru einnig af dönskum uppruna og gefa af sér mjög breytilega harðgerð afkvæmi. Sennilega má treysta á hlynsfræ af þrænverskum uppruna [...].
Þetta er staðfest í ritinu Kálfamói sem Reykjavíkurborg gaf út 2008:
Það hefur komið í ljós að hlynplöntur aldar upp af fræi mismunandi móðurtrjáa hausta sig ekki á sama tíma. Nokkrar fella lauf eðlilega en á öðrum frýs laufið á trjánum nema einstaka haust þegar fyrstu frost koma koma óvenju seint.
Ólafur Sturla getur þess sérstaklega á Natthagi.is að garðahlynirnir hans séu fræræktaðir af hlyni í Nátthaga, sem eigi uppruna í Tjötta í Nordland (norðan við N-Þrændarlög í N-Noregi). Í umfjöllunum Auðar Ottesen, Ólafs Sturlu og Einars Inga er talað um "löng og mild haust" og spurning er hvort afbrigði sem haustar fyrr geti þá þrifist betur þar sem haustin eru stutt og öfgakennd. Ekkert þeirra lætur þess getið hvar á landinu haustin séu lengst og blíðust. Hitt er vitað, að því lengra frá sjó sem ræktað er, því styttri verður frostlaus vaxtartími (sjá Aðalsteinn Sigurgeirsson, et al., Rannsókn á kvæmum grenitegunda í tveimur landshlutum, 2006). Ólafur Sturla mælir enda ekki með garðahlyni inn til landsins.

Árni Þórólfss. segir að garðahlynur sé "fullkomlega nógu harðger til að vera gróðursettur í íslenska skóga og annað ræktunarland eins og t.d. sumarbústaðarlönd". Vænlegast sé þó að ala trén upp í 3-5 ár upp í 40-50 cm hæð hið minnsta, í 2 lítra pottum. Í grein Árna er fín umfjöllun um hvernig fræ garðahlyns haga sér, yfirleitt byrji trén að gefa fræ um 20 ára aldur. Á snl.no segir að þetta gerist við 20-40 ára aldur í upprunalegum heimkynnum garðahlynsins (Tyrklandi, Kákasus, S- og M-Evrópu) en geti skeð í Noregi við 10-13 ára aldur, líklega sökum þess að samkeppni við önnur tré er minni.

Guðríður Helgadóttir hefur eftirfarandi að segja um sáningu fræja:
Sáningin þarf að fara fram að hausti til sama ár og fræið þroskast því það geymist mjög illa og inniheldur einnig svolítið af spírunarhindrandi hormónum sem brotna smám saman niður yfir veturinn. Að vori spírar fræið og geta sáðplönturnar vaxið um nokkra tugi sentimetra yfir sumarið.
Þetta á víst ekki við um hinn norska blóðhlyn (sem fjallað er um að neðan), fræ hans geta spírað sama ár og þau falla.

Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að sá fræjunum í potta um haustið og hafa úti í köldu gróðurhúsi eða reit. Taka pottana svo inn í mars/apríl og hafa þá þá í björtum glugga, umplanta úti þegar sumarið kemur (ráð frá HH). En í góðu árferði má sá beint í jörðu á skjólsælum stað, bara drita niður nógu mikið af fræi.

III. Framleiðsla á hlyntrjám
Ef til vill væri góð fjárfesting, í ljósi vaxtahraða garðahlyns á Íslandi, að rækta hlyntré til að selja þegar þau eru komin vel á legg. Ólafur í Nátthaga virðist kominn af stað með slíka ræktun. Í Mbl. 1. okt. 2003 segir frá trjákaupum OR á sænskum hlyntjrám:
Orkuveitan kaupir 10 garðahlyni og 45 seljureyni frá gróðrarstöð á Hallandi í Svíþjóð. Trjáútflutningurinn til Íslands vakti athygli sænska blaðsins Hallandsposten sem birti frétt um málið í gær. Fram kemur þar að trén eru allt að 15-20 ára gömul og þau stærstu sex til sjö metra há.
OR garðahlynir í júní 2012 - klippt hefur verið ofan
af þeim annað hvort vegna kals eða í fegurðarskyni.

Samkvæmt grein Árna Þórólfssonar geta einstaklingar hækkað um 2-3 m á 10 árum við bestu íslensku aðstæður í skógrækt, sem samkvæmt honum eru þegar plantað er í lúpínubreiður í hallandi landi. Einar Ingi Sigmarsson vill meina að kaláráttan minnki ekki að ráði fyrr en eftir 2 til 3 áratugi og að þetta séu óttalegir aumingjar fyrstu árin:
Fyrstu uppeldisár hlynsins er best að ala hann upp í plasthúsi, þangað til hann hefur náð 2 m hæð, annars á hann á hættu að kala alltaf niður. Nota skal áburð í hófi annars verður haustkal meira. Fyrstu árin vex hlynur mjög ört en hann hækkar að sama skapi ekki mikið. 
Sömuleiðis segir á vef Lystigarðs Akureyrar að garðahlynur eigi erfitt uppdráttar fyrstu 10 árin. Ólafur í Nátthaga segir (um broddhlyn) að hann ali þá upp utandyra frá þriðja ári.
Hár garðahlynur, líklega frá Gróðrarstöðinnni
Þöll í Hafnarfirði, gróðursettur árið 2010
IV. Æran og harkan
Á dönsku wikipediasíðunni um garðahlyn (d. ær / ahorn) segir að vöxtur hans sé keilulaga í fyrstu en verði síðan ávalur. Þar er líka minnst á spakmælið "Æren er det fejreste Træ i Skoven" eftir prestinn Peder Syv (d. 1702). Samkvæmt haveabc.dk hefur orðið æra tvenns konar merkingu í spakmæli Peders, en það er ekki útskýrt nánar. Það getur væntanlega þýtt æra eða heiður, sem er jú með betri mannkostum. Ennfremur segir þar að ær hafi verið samnefnari fyrir öll tré af hlynsætt og af þeim hafi spidsløn (blóðhlynur / rauður broddhlynur; Acer platanoides) þótt sá fegursti (sjá nánar VI. kafla að neðan). Ahorn nafnið er sagt komið úr þýsku, þar sem hann heitir berg-ahorn, en á sænsku er garðahlynur nefndur tysklönn.

Íslenska wikipediafærslan um garðahlyn byggir (þegar þessi orð eru skrifuð) á fyrrnefndri umfjöllun Auðar Ottesen. Þar segir að hann verði salt- og vindþolinn með aldrinum, sbr. einnig það sem segir á grodur.is um að hann verði harðgerður þegar hann hefur komið sér fyrir og er kominn af stað. Undir þetta er tekið í grein Árna Þórólfssonar, þar segir að garðahlynur sé viðkvæmur fyrir næturfrostum í lok sumars, sérstaklega áður en hann nær 150 cm hæð, eftir það hafi frostið bara áhrif á einstaka greinar.

Síðar meir reynir maður kannski við broddhlyn, japanshlyn (Acer palmatum), rauðhlyn (Acer rubrum) eða eitthvað meira fullorðins á borð við eskimóhlyn (Acer pseudoplatanus 'Eskimo Sunset'), myndirnar af þeim síðastnefnda á netinu eru ansi flottar.
Japanshlynir í pottum. Af síðunni
Tanyasgarden.blogspot.com
Hlynur 'eskimo sunset'.
Af síðunni havlis.cz
V. Nafngift garðahlyns
Guðríður Helgadóttir segir eftirfarandi í Mbl. 4. júlí 2001 um nafngiftina, Acer pseudoplatanus:
Blöðin eru stór og handsepótt og minna á aðra trjátegund, Platanus en þaðan kemur einmitt merking tegundarheitis garðahlynsins, pseudoplatanus sem þýðir "eins og Platanus".
Platanus á íslensku er platanviður / garðaplatan - platanus er dregið af gríska orðinu platys sem þýðir víður eða breiður (Fréttablað Skógræktarfélags Íslands 3. árg. 1994, 1. tbl.). Norðmenn kalla garðahlyn platanhlyn (platanlønn) og sycamore í enska nafninu er annað orð yfir platan.

Platantré virðast ekki vaxa á Íslandi, en þau má finna t.d. í Kaupmannahöfn. Á horticum.is segir frá þekktasta platan Danmerkur, Grábræðraplatan (Platanus × hispanica) sem vex á Grábræðratorgi í Köben, honum var skv. haveabc.dk plantað árið 1907. Víða um Kaupmannahöfn má sjá platanvið sem göturé og unnt er að greina hann frá hlyn á berki og aldinum.
Platan á Grábræðratorgi, mynd frá 2014.
Annar platanviður í Köben, Kristjánsborgarhöll í baksýn.

VI. Um broddhlyn
Á vef Nátthaga er sagt um broddhlyn að hann blómstri fyrir laufgun, "skærgulgrænum blómsveipum um alla trjákrónuna, og má heita að krónan glitri í sólskininu." Líkt og segir í grein Árna Þórólfssonar þá mætti þýða latneska nafn broddhlyns Acer platanoides sem "líkist platan", en nafn garðahlyns Acer pseudoplatanus sem "falskur platan". Um broddhlyn segir jafnframt á Nátthagavefnum að hann vaxi hægar upp heldur en garðahlynurinn en ljúki fyrri vexti og verði því síður fyrir haustkali. Rauði blóðhlynurinn (blóðhlynur - Acer platanoides 'Royal Red') er eitthvað viðkvæmari.

Á ensku er Acer platanoides kallaður Norway Maple og virðist hann ná sama aldri og litlu minni hæð en frændi hans sem kenndur er við garð. Hann er á lista yfir ágengar tegundir t.d. í Bandaríkjunum, vegna þess hve duglegur hann er að sá sér.
Broddhlynur í trjásafninu í Kópavogi (Fossvogsdal)
í júní 2011