søndag den 8. juli 2012

Nýjar svalir (nýr garður)

Í síðasta mánuði flutti síðuhaldari í nýja íbúð. Hún liggur nokkru neðar í Kópavogi en sú gamla, nánar tiltekið í Kópavogsdalnum. Svalirnar á nýju íbúðinni eru 7,4 fm, en á þeirri gömlu voru samtals 15 fm til umráða.


Það varð því strax ljóst að færri trjáplöntur yrðu á nýju svölunum. Með í för fóru einungis rósareynir, súluösp og birkikvistur. Svalirnar snúa í suður og þess vegna verður hugsanlega hægt að auka jarðarberjaræktunina, sem gekk upp og ofan á gamla staðnum. 

Garðarifsplönturnar tvær, fjallarifsið, blátoppurinn og broddfuran hafa hvert um sig fengið notalega holu í Grímsnesi. Broddfuruna á víst ekki að geyma lengi í potti, ellegar verður stólparótin óánægð. Hinar eru engar smáplöntur lengur og ættu að spjara sig. Fjallarifsið og blátoppurinn voru með elstu trjánum í gamla svalagarðinum (settar niður 2008) og ræturnar búnar að fylla ansi vel út í pottana. Síðuhaldari er greinilega latur að umpotta.
Blátoppur -
nokkur blöð og greinar sölnuðu eftir flutninginn
en honum virðist líða vel í dag

Garðarifs -
blómvísum og blöðum fækkaði
en heilsan nokkuð góð.

Hitt garðarifsið

Fjallarifsið gulnaði nokkuð mikið,
líklega vegna vatnsskorts
Virginíuheggnum var potað niður í garði Reykjavík, því spildan í Grímsnesi er ekki nægilega gróin til að veita honum tilhlýðilegt skjól.

[Þess má geta að skv. H. Hafliðasyni geta ljós blöð á ýmsum trjágróðri snemma árs stafað af þvi að níturvirknin í moldinni er ekki komin nægilega af stað. "Moldin er of köld og að líkindum líka þétt og loftlaus. Það er hægt að bæta úr þessu með því að losa aðeins og varlega um moldina og vökva með uppleystum pottablómaáburði í volgu vatni."]

Ingen kommentarer:

Send en kommentar