lørdag den 19. maj 2012

Bless, bless buxus

Áður hefur verið sagt frá dauða snækórónu á svölunum, sökum sumarleysunnar 2011. Frá sumarleysunni er sagt í Ársriti Skógræktar ríkisins 2011, í greininni Ástand trjágróðurs á árinu 2011 og talað um slæm hret seint í maí og í júní í kjölfar mikilla hlýinda í apríl.

Annar runni sem í reynd náði sér aldrei á strik sumarið 2011 var buxusinn, þessi ágæta planta sem hafði verið með okkur frá 2008 og lifað af veturinn 2008, 2009 og 2010. En það var vorið/"sumarið" 2011 sem gekk af honum (hálf)dauðum. Litli bróðir hans sem keyptur var í IKEA árið 2010 gafst reyndar líka upp þetta sama vor.

Sá stóri fór að láta á sjá snemma á árinu 2011 og um vorið 2012 var hann færður á líknardeild í sveitinni, þar sem hann hvílir nú rætur. Enn voru einstaka græn laufblöð eftir á honum við yfirfærsluna, en honum er þó vart hugað líf fram yfir sumarið. Það var líklega rétt sem sagði á vef Blómavals, að best væri fyrir hann að vera bara úti á sumrin (sem er afstætt hugtak á Íslandi).

Sem betur fer var hann keyptur á gamla genginu.

febrúar 2011

ágúst 2011
maí 2012

Buxus í heilbrigðu umhverfi (DK)
- af mitgronneunivers.blogspot.com

Krossmessukast – skýrsla

Sunnudaginn 13. og mánudaginn 14. maí reið vorhret yfir landið, svonefnt krossmessukast. Það stórsér á trjám og runnum hér á höfuðborgarsvæðinu eftir ósköpin en ekki virðist útlit fyrir afföll af gróðri. Um var að ræða norð-austan bál og því fór svalagarðurinn í Kópavogi ekki varhluta af veðrinu.

Ólafur í Nátthaga hafði þetta um málið að segja á fb-síðu Nátthaga á sunnudeginum:
Vindfrost er versta gerðin á nýlaufgaðan gróður, bæði tré og blóm. Öll blöð sem lenda í slíku verða svört, visna og detta af, en vaxtarpunkturinn lifir yfirleitt af og sendir út ný blöð. Sem sagt smá tímabil sem allt verður frekar dapurlegt eftir veðrið.
Af fyrri reynslu vissi ég að súluöspin væri fremur viðkvæm fyrir köldu frostroki og ég lagði hana því niður lárétta þegar líða fór á sunnudaginn. Það hvarflaði að mér að taka einhverjar plöntur hreinlega inn, og eftir á að hyggja hefði það ekki verið alslæm hugmynd. Á mánudeginum fór ég erlendis yfir nótt og kom aftur á þriðjudagskvöld, sjónin sem blasti við var ekkert sérlega fögur.

Þær tegundir sem fóru illa voru súlublæöspin, virginíuheggurinn, rósareynirinn og risberjarunnarnir. Það er ekki útséð ennþá með blómavísana á rifsinu, sem voru orðnir ansi myndarlegir.

Lítið sér á fjallarifsinu, blátoppnum og birkikvistinum, en þessir tveir síðarnefndu eru fremur lágvaxnir og voru því í nokkru skjóli fyrir rokinu. Sömuleiðis sluppu rifsberjagræðlingar ágætlega, enda ekki háir í loftinu.

Lúinn rifsrunni 19. maí

Rósareynir 6. maí og 19. maí

Súluösp 6. maí og 19. maí

Heggur 6. maí og 19. maí

Rifsgræðlingur 5. apríl, 6. maí og 19. maí