onsdag den 21. juli 2010
Virginíuheggur er hlífa skal
Hjá gróðrastöðinni Kjarr í Ölfusi keyptum við þennan Virginíuhegg um miðjan júlí 2010. Tréð var sett á norðursvalirnar og fær því ekki mikið beint sólarljós, það verður að vera í lagi því plássið er eiginlega búið austanmegin.
Plantan hefur það til brunns að bera að breiða ekki mikið úr sér, vera nokkuð há (yfir 1,5 m) og síðast en ekki síst er hún fjólublá! Það mætti giska á að heggurinn sé 2-3 ára og verðið var 2080 kr.
Á vef Borgar segir um þennan hegg, sem kemur víst ekki frá Virginíu:
"Hæð 4-6 m, blöð fyrst græn síðan dökk purpurarauð. Blóm hvít í hangandi klösum. Harðgerður."
Á vefnum Tré og runnar segir að plantan vilji sól, en vonir standa til þess að þessi láti sér nægja birtu en takmarkaða sól, e.t.v. blómstrar hann þá eitthvað minna.
Virginíuheggur Prunus virginiana er ekki jafn þekktur og frændi hans Heggur prunus padus, en prunus-ættkvíslin er víst af rósaætt skv. grein í Mbl. frá 1994. Þar segir um venjulegan hegg að hann sé "mjög skuggþolinn en blómgast því betur þeim mun meiri birtu sem hann nýtur."
Samkvæmt höfundi greinarinnar er heggurinn mjög harðger "þótt reyndar þurfi að fylgjast vel með honum og úða í maðksumrum". Þessu síðastnefnda getum við vel trúað því fjólublái vinur okkar er svolítið götóttur eftir maðk. Samkvæmt Guðríði Helgadóttur (Mbl. 1997) kjamsar maðkur á trjám frá vori og fram í miðjan júní og býr sér þá til púbu. Mánuði síðar vaknar hann til lífsins sem fiðrildi, makast og verpir við brum heppinna trjáa. Hann verður nógu feitur í júníbyrjun til að hann sjáist með berum augum. Best að hafa augun hjá sér næsta vor og sumar.
Samkvæmt Wikipedia færslu Prunus virginiana verður hann ekki hærri en 5 m, sem er ágætt því þá fer hann ekki mikið upp fyrir svalir nágrannans fyrir ofan. Á annarri vefsíðu stóð reyndar að hann geti orðið 6-9 m og vildi sól eða hálfskugga. Gróðrastöðin Mörk segir um yrkið okkar 'Lúsifer' að hann verði 5-7 m, sé skuggþolinn og þurfi nokkuð skjól. Elstu blöðin roðni upp úr miðju sumri og síðsumars sé allt tréð orðið vínrautt.
Enska nafnið á trénu er 'Chokecherry' og vísast þar til bragðsins af berjum þess, sem mun vera biturt og 'ómilt' (e. astringent). Samt má nota þau í sultu, sjáum til með það.
Merkimiðar:
norðursvalir,
virginíuheggur
Abonner på:
Kommentarer til indlægget (Atom)
Ingen kommentarer:
Send en kommentar