Ingibjörg í Hveragerði seldi okkur tvo stæðilega rfisberjarunna (rifs, ribs, rips) í júní 2010 á einhverjar 1400 kr. stykkið og voru þeir settir þétt saman í stóran gróðurkassa úr Húsasmiðjunni.
Líklega er um að ræða hið 'gamla og góða' ribes spicatum - Röd Hollandsk. Á síðunni hjá Ingibjörgu er því lýst með einföldum hætti: "Berjarunni 1,5-2 m. Rauð ber. Harðgerður."
Blómakassinn úr Húsó (við lökkuðum okkar) |
Þeir hafa dafnað ágætlega þótt ekki sé von á mikilli uppskeru í ár. Hver rauðrifs-planta getur gefið af sér 6 kg við bestu aðstæður og ef heppnin er með fáum við kannski 2-4 kg af hvorum næsta sumar. Ef hámarks uppskera á að nást þarf garðarifs "þokkalega sólríkan og skjólgóðan stað" segir Ágústa Björnsdóttir í Mbl. 6. júní 1992.
Klipping nýrra rifsrunna (smellið til að stækka) |
Þennan runna klippum við því eins og birkikvistinn. Við tökum elstu greinarnar alveg niður við rót og skiljum ekki eftir stubb. Kúnstin er þó að taka þær áður en þær fara að skyggja á miðju runnans þannig að nýjar greinar hætti ekki að koma upp úr miðju hans. Endurnýjun þarf alltaf að vera í gangi með 5-7 aðalstofna sem ekki eru of miklir um sig þannig að alltaf séu að koma nýir frá rótinni. Þannig hleypum við 1-2 nýjum stofnum upp frá rótinni á hverju ári og klippum um leið 1-2 gamla stofna alveg niður við rót.
Klipping eldri rifsrunna (smellið til að stækka) |
Kristinn H. Þorsteinsson upplýsir í Garðinum, fylgiblaði Mbl. 12. maí 2001, að rauðribs blómstri "mest á greinum sem eru tveggja til fimm ára en eftir það dregur úr blómguninni, þó ekki svo mikið að hann mælir með því að hver grein fái að lifa kringum 10–12 ár. Þannig verði runninn stór og stæðilegur."
Rifs-ættkvíslin er frekar skuggþolin og margir runnar innan hennar 'grjótharðgerðir' eins og Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur lýsir í grein í Mbl. 1998. Greininni lýkur á þessari skemmtilegu smásögu:
Starfsmaður í ónefndri garðyrkjustöð í Reykjavík var eitt sinn spurður að því hvað væri hægt að rækta norðan megin við hús, hálfpartinn undir tröppum, í norðangarra og seltu. Starfsmaðurinn hugsaði sig aðeins um og sagði svo við garðeigandann: "Hefurðu íhugað að rækta bara stein?"
Ingen kommentarer:
Send en kommentar