mandag den 19. juli 2010

Buxus allt árið



"Búx - Boxviður (lat. Buxus sempervirens)
Sígrænn, smáblaða runni sem forma má á ýmsa vegu með klippingu. Getur staðið utandyra frá vori til hausts. En á veturna þarf runninn að vera í óupphituðum gróðurskála. ++"


Þessi lýsing er tekin af vef Blómavals og ++ þýðir að plantan sé viðkvæm en "geti staðið úti á sumrin".

Þetta passar ekki alveg við okkar reynslu, sem er meira í ætt við lýsingu frá Garðplöntusölunni Borg sem segir frá buxus sem "hefur lifað í um 10 ár hér úti í garði og lítið sem ekki látið á sjá nema bælst undan snjóþunga".

Stærri buxus plantan var keypt dýrum dómum í Blómaval sumarið 2008 og hefur unað sér vel þessa tvo vetur sem hún hefur staðið úti á svölum. Satt að segja vissum við ekki að hún væri sígræn þegar hún var keypt, héldum á tímabili að hún væri gervitré þegar hún felldi engin lauf.

Það mun vera vorsólin sem fer illa með sígrænar plöntur sem eru úti yfir veturinn, uppgufun verður úr blöðunum en ræturnar ná ekki neinu vatni úr frosnum jarðveginum. Eða eins og Guðríður Helgadóttir útskýrir í Mbl. 9. nóv. 2002:
"Þær halda laufblöðum sínum allt árið og þegar vetrarsólin skín á blöðin hitna þau heilmikið. Til þess að kæla sig niður opna plönturnar varaop sín og við það gufar vatn út um opin en vegna þess að jörð er frosin ná plönturnar ekki að taka upp vatn í stað þess sem gufar út. Afleiðingarnar eru þær að ystu endar blaðanna visna og ef þetta ástand varir lengi geta plönturnar orðið brúnar og ljótar yfirlitum. Frostskaðar af þessu tagi koma oft ekki fram fyrr en plönturnar hefja vöxt að vori til. Ungar plöntur með óþroskað rótakerfi eru í sérstakri hættu á því að sólbrenna."

Við umpottuðum þeirri stóru sumarið 2010 í talsvert stærri pott, það verður spennandi að sjá hvort það skilar sér í einhverju.

Minna eintakið var keypt vorið 2010 og við hyggjumst skreppa með hana í 'kalda vetrargeymslu', það mun víst vera betra á meðan ræturnar eru að styrkjast. Stærra eintakið verður áfram úti, bara að muna að vökva smá endrum og sinnum yfir veturinn.

Runninn er hægvaxta og stundum er eins og hann 'standi bara þarna', þetta er ekki stuðrunni.
Í vetrarbúningi

Ingen kommentarer:

Send en kommentar