søndag den 2. november 2014

Skjólbelti

Það er gaman að spá í skjólbeltum. Almenn regla um hversu langt frá skjólbelti áhrif á veðurfar ná er um 20x hæð beltisins. Bestu áhrifin eru á milli 2x og 5x mesta hæð en þau fara svo mjög hverfandi þegar komið er í 10x mesta hæð.

Í ritinu "Designing and caring for windbreaks" [1] er greint á milli þriggja tegunda af skjólbeltum:
1. Híbýlaskjólbelti (e. farmstead windbreaks).
2. Akurskjólbelti (e. field windbreaks).
3. Snjógildrubelti (e. living snow fences)

Ekki er mælst til þess að skjólbelti stöðvi rok algerlega (sé mjög þétt), heldur hleypi rokinu í gegn og dragi þannig úr krafti þess með núningi. Lendi vindurinn á algerri mótstöðu finnur hann sér auðveldustu leiðina fram hjá (yfir trén) og getur magnast upp í vindhvirfla. Þó eru belti með miklum þéttleika góð sem snjógildrubelti og sem vindskjól fyrir búfénað.
Þéttleiki nokkurra tegunda.
Á vef Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) er eftirfarandi vísiregla gefin upp í tengslum við vindstefnu [2]:
A barrier should be established perpendicular to the direction of the prevailing wind for maximum effect. To protect large areas, a number of separate barriers can be created as parts of an overall system. When the prevailing winds are mainly in one direction, a series of parallel shelterbelts perpendicular to that direction should be established; a checkerboard pattern is required when the winds originate from different directions. Before establishing windbreaks or shelterbelts, it is important to make a thorough study of the local winds and to plot on a map the direction and strength of the winds.

Nokkur hugtök.
Mælt er með því að innst í hverju belti sé runnagróður, því næst há lauftré og loks sígræn tré. Passa þarf að barrtrén verði ekki undir í samkeppninni við lauftrén. Lauftré veita mun meira skjól fyrir vindi á sumrin heldur en sígræn tré.

Um plöntuval o.þ.u.l. hefur ýmislegt verið skrifað [3]. Í Fræðslurit um skjólbeltarækt kemur fram eftirfarandi um þéttleikann:
"Bestu skjóláhrif og stærsta skjólsvæðið fæst ef ophlutfall (holprósentan) er 40 - 50%. Við þannig belti má greina hreyfingu handan við beltið án þess að það sjáist hvað þar er á ferð."
Hér að neðan eru nokkrir stórir útdrættir úr grein eftir Ólaf Njálsson, Skjólbelti - Gerð þeirra og skjóláhrif sem birtist í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1984.
Þegar vindurinn blæs hornrétt á góðan skjólgjafa,nær skýlda svæðið út til 30xH (xH þýðir sinnum hæðskjólgjafans) skjólmegin og allt að 6xH áveðurs viðskjólgjafann. Minnstur vindhraði (70-80% skjól) mælist í fjarlægðinni 3-6xH skjólmegin. Skjólprósentan minnkar síðan jafnt með aukinni fjarlægð frá skjólgjafanum [...]
[...]
Sjálf skjóláhrifin stafa af núningi loftsins við skjólgjafann. Loftstraumurinn brotnar upp í marga smáa hvirfla, þegar hann fer í gegnum hann, og við það dregur úr vindhraðanum. Þéttur skjólveggur gefur gott skjól næst sér, en veldur meiri hættu á vindköstum ofanfrá, þ.e.a.s. hann gerir vindhvirflana stærri og kröftugri heldur en þeir voru fyrir. Tilraunir í vindgöngum og reynslan úti á víðavangi hafa sýnt, að 35-50% opflötur dregur mest úr vindköstum og vindhraða, og stærst skjólsvæði fæst á bak við skerm með 50% opfleti. Skjólgjafar sem eru opnir að neðan skapa undirsúg og hafa lítil skjóláhrif eða engin.
Opflötur er í greininni skilgreindur sem “sá hundraðshluti skjólflatar sem er op, þ.e.a.s. þéttleiki eða gegnhleypni skjólgjafans.” Áfram segir síðar:
Lögun skjólbeltanna varðar miklu um skjóláhrif þeirra. Straumlínulögun [belti með hallandi hliðum] veitir litla mótstöðu og er óheppileg í skjólbeltaræktuninni. Besta lögunin er lóðréttur veggur á móti vindinum, því að skjólgjafinn verður að veita sem mesta mótspyrnu gegn honum. Einnig valda skjólgjafar með óreglulegt yfirborð minni hættu á vindköstum en sléttklippt limgerði.
[...]
Mikilvægt er að staðsetja skjólgjafann þvert á skaðlegustu vindáttina, og þá sem er tíðust. Ef skaðlegasta vindáttin fellur ekki saman við þá tíðustu, er talið best að setja skjólgjafann þvert á þá tíðustu, því að hún veldur til langframa mestu sliti á öllu lifandi og dauðu efni.
[...]
Blási vindurinn ekki hornrétt á skjólgjafann, verður skjólsvæðið minna. En hliðrunin getur orðið nokkuð mikil, allt að 45 gráðum, áður en alvarlega dregur úr skjólinu. Jafnvel þegar vindurinn blæs samsíða skjólbeltunum, er hægt að finna mælanleg skjóláhrif af þeim allt að 5xH frá báðum hliðum þeirra. Þetta kemur af breytilegri vindhreyfingu og núningi vindsins við skjólbeltin.
Þetta um staðsetninguna er einkar umhugsunarvert. Ef við yfirfærum það t.d. á Suðurland þá er norðaustanáttin algengust (eða ANA þegar ofar dregur), þurr og þrálát. Hún er skæðari en sunnanáttin sem einnig er algeng, blaut og köld.

Þá kemur í grein Ólafs eftirfarandi fram um áhrif skjólbelta á hitastig:
Við minnkandi vindhraða eykst hiti í skjóli vegna minni loftskipta (minni blöndun við kaldari loftmassa). Hitaaukningin er mælanleg út til 20xH. Lofthiti sólarhringsins hækkar að meðaltali um 0,5-2,0 °C, og jarðvegshitinn í allt að 20 cm dýpi um 0,5-1,0 °C yfir vaxtartímann (hámark 3 °C).
Að því er varðar afrakstursaukningu í ræktun kemur fram að hún sé mest í fjarlægðinni 2-5xH og minnki jafnt og þétt út að 20xH, þar sem hún sé vart mælanleg. Af öðrum áhugaverðum punktum í greininni má nefna að lauftré gefa 40% meira skjól að sumri en vetri og að nauðsynlegt getur verið að þynna skjólbelti ef þau verða of þétt, halda þeim engu að síður sem þéttustum við jörðu.


Heimildir og fræðsluefni:

[1] www.lrconline.com/Extension_Notes_English/pdf/wndbrk.pdf

[2] Special forest plantations
http://www.fao.org/docrep/T0122E/t0122e0a.htm

[3] Fræðslurit um skjólbeltarækt.
http://www.nls.is/fraedslaskjolb.htm

Val tegunda í skjólbelti og nytjaskóga.
http://www.landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/0/df199f21a84f8b180025716b00561e65?OpenDocument

Energy-Efficient Windbreaks.
http://www.renovateyourworld.com/HowTo_Library/Energy_Efficient_Windbreaks-Trees_and_Shrubs-A1621-2.html

onsdag den 10. september 2014

Rósareynir ber ávöxt

Eftir 4 mögur ár frá því hann var keyptur ákvað rósareynirinn loksins að sýna sínar bestu hliðar og blómstra.
Mikið af blómum í maí.

Í heildina um 10 bleik ber í ágúst.

tirsdag den 19. august 2014

Að hlyni ungum hlúð - meira um garðahlyn

Glöðum, opnum huga var
gengið sumri mót
og grannar hendur ruddu nýja vegi.
Barist var í landvörn,
að hlyni ungum hlúð.
Víða bárust tónarnir frá teigi
 - úr kvæði Kristjáns frá Djúpalæk, ort um Þorstein skáld Valdimarsson að Þorsteini látnum (birtist í Skógræktarritinu 1980).

I. Saga hlyns í íslensku flórunni
Hlynleifar hafa fundist víða um land til staðfestingar á því að fyrir um 7 milljónum ára uxu á Íslandi "a.m.k. tvær hlyntegundir og virðast báðar náskyldar núlifandi tegundum í austurhluta Norður-Ameríku". Hér er vísað til hins núlifandi reyðarhlyns/rauðhlyns (Acer rubrum) hvers frændur dóu út þegar loftslag fór kólnandi á Íslandi á efri hluta Míósentímabilsins. Tegundin er ein þeirra sem ekki áttu afturkvæmt til Íslands af sjálfsdáðum, en í þeim hópi eru einnig elri, greni, fura, þinur og ösp (sbr. þó blæösp). Um þetta má lesa nánar í grein Leifs A. Símonarsonar og Walter L. Friedrich, Hlynblöð og hlynaldin í íslenskum jarðlögum í Náttúrufræðingnum 52 (1-4), 1. maí 1983, bls. 156-174.

Samkvæmt færslu á Wikipedia hófst jarðsögutímabilið sem kennt er við míósen fyrir um 23,03 milljónum árum síðan og lauk fyrir um 5,332 milljónum ára síðan. Talið er að Ísland hafi orðið til sem eyja í upphafi Míósentímabilsins. Orðið miocæn er komið úr grísku og samsett úr menoos fyrir minna og kainos fyrir nýtt - minna nýtt (færri hryggleysingjar en á jarðsögutímabilinu á undan sem kennt er við ólígósen).

Það loðir við ræktun garðahlyns á Íslandi að hann er talinn dekurplanta sem þarf skjól til þess að dafna. Síðuhaldari telur þetta ögn orðum aukið. Þó er hann viðkvæmur fyrir haustfrostum og ekki til stórræðanna á vindasömum stöðum fyrstu æviárin. Frá þessu er sagt í grein Jóhanns Pálssonar í Skógræktarritinu 1986, Gömlu trén í Reykjavík:
[Garða]hlynurinn er það hitakræfur í uppvextinum, að í köldum árum kelur mestallan ársvöxtinn og plantan bætir sáralitlu við sig, nema þegar betur árar.
Lystigarður Akureyrar tekur í sama streng og lýsir garðahlyni sem meðalharðgerðu tré sem "á erfitt uppdráttar fyrstu 10 árin". Ótvírætt er að hann launar skjól fyrir mesta næðingnum og sérstaklega eru laufblöðin viðkvæm fyrir roki fyrst á vorin.

Eins og sagði í síðustu hlynfærslu er hlynur skuggþolinn, einkum í uppvextinum.

Hlynur í Kópavogsdal, þar sem áður stóðu smábýli
í landi Digranesbæjar, í skjóli fyrir norðan- og austanáttum.

Sami hlynur í októberklæðum.
Hlynur í skjóli aspa í Hveragerði. 
Stálpað ungviði sett niður sem götutré í Helsinki. 
Óheppinn hlynur í Fossvogsdal (2013).
Garðahlynur á Klambratúni. Kjarvalsstaðir í baksýn.
Hlyntré eru ekki algeng á Íslandi og fyrst og fremst er þau að finna í elstu hverfum Reykjavíkur, gróðursett á árunum fyrir og eftir 1930. Þessi tré voru flutt inn frá Danmörku, fyrst og fremst fyrir tilstilli Einars Helgasonar sem rak gróðurstöð við gamla Kennaraskólann [...]
segir í umsögn Skógræktarfélags Íslands um tré ársins árið 2000, en það var 9,6 m 70 ára garðahlynur við húsið Sólheima á Bíldudal í Arnarfirði.
Tré ársins 2000. Myndin birtist í
DV en ljósmyndara er ekki getið.
II. Klipping og notkun
Garðahlynur er klipptur eftir laufgun fram að jólum segir í DV, Gróður og garðar 13. maí 1992. Á vef Lystigarðs Akureyrar er því bætt við að honum blæði mikið eftir klippingu og því sé best að klippa og snyrta krónu að sumri eða hausti. Hafsteinn Hafliðason hefur bent á að almennt sé litið svo á að sár eftir klippingar lokist fljótast sé klippt í lok júní júní eða í júli.

Sums staðar erlendis er hlynur notaður í þykkt og hávaxið hekk, sér í lagi lágvaxnari afbrigði á borð við Acer campestre (hagahlynur, e. field maple / hedge maple) og Acer ginnala (síberíuhlynur, e. amur maple). Sá síðarnefndi hefur verið ræktaður hér á landi.

Margir telja unnt að fá hlynsýróp úr hlyntegundum sem ræktaðar eru á Íslandi. Hið rétta er að það er einkum sykurhlynur (Acer saccharum) sem er notaður í slíka framleiðslu en hann þrífst illa hér. Sykurinnihaldið mun vera lægra og bragðið af garðahlynsýrópi ólíkt hlynsýrópi.
In Minnesota, the four species used for producing maple syrup are: sugar maple (hard maple) Acer saccharum; red maple (soft maple) Acer rubrum; silver maple (soft or cutleaf maple) Acer saccharinum; and boxelder (Manitoba maple) Acer negundo
(Af umn.edu - íslensk nöfn: sykurhlynur, rauðhlynur, silfurhynur, askhlynur.)
III. Fjölgun
Fræ eru yfirleitt tínd um það leyti þegar lauf eru fallin eða að falla, október er álitlegur mánuður. Þau má tína þegar þau eru enn græn, hafi þau náð fullri stærð. Vængirnir eru slitnir af og fræið sett í geymslu eða sáð strax að hausti. Blaðlús sækir í hlyn og iðulega er nokkuð af blaðlús á fræjunum (á stönglum fræklasanna), þegar lauffall hefur orðið.

Á vefnum datreestore.com kemur fram að haustsáning sé ákjósanlegri en tæknikaldörvun hlynfræs (preferred to artificial stratification). Á Pfaf.org segir það sama en bent á að gróðurkassi sé til þess fallinn að auka spírun. Vefurinn homeguides.sfgate.com mælir með því að fræ sé þakið með 0,3 cm (1/8 tommum) af jarðvegi yfir fræin og þjapað að. Þá má bæta við þunnu lagi af grófum sandi til að tryggja raka við spírun.

Á síðastnefndu síðunni er einnig upplýst að ekki skuli þurrka fræ niður fyrir 35%.
Hlynfræ tínd í seinni hluta október (2013).
Stækkaður bútur af myndinni fyrir ofan, blaðlýs á fræklösunum.
Fræplöntur um miðjan júní (2014), sáð var í opið beð haustið áður.
Fjölgun hlyns af fræi, með sveiggræðslu og með græðlingum, af pfaf.org:                                
Seed - best sown as soon as it is ripe in a cold frame, it usually germinates in the following spring. Pre-soak stored seed for 24 hours and then stratify for 2 - 4 months at 1 - 8°c. It can be slow to germinate. Seed should not be dried below 35% moisture[98]. The seed can be harvested 'green' (when it has fully developed but before it has dried and produced any germination inhibitors) and sown immediately. It should germinate in late winter. If the seed is harvested too soon it will produce very weak plants or no plants at all[80, 113]. When large enough to handle, prick the seedlings out into individual pots and grow them on until they are 20 cm or more tall before planting them out in their permanent positions.
Layering, which takes about 12 months, is successful with most species in this genus.
Cuttings of young shoots in June or July. The cuttings should have 2 - 3 pairs of leaves, plus one pair of buds at the base. Remove a very thin slice of bark at the base of the cutting, rooting is improved if a rooting hormone is used. The rooted cuttings must show new growth during the summer before being potted up otherwise they are unlikely to survive the winter. Cultivars can be budded onto rootstocks of the species. Any grafting is best carried out in September rather than February.
IV. Tvær tilraunir með garðahlyn á berangri
Síðsumars 2012 festi síðuhaldari kaup á tveimur garðahlynum sem ræktaðir höfðu verið af fræi í Hafnarfirði og plantaði þeim á skjóllitlum stöðum í sumarhúsalandi í Grímsnesi. Það kom ágætlega út.

Fyrir ofan er sá stærri í ágúst 2012 og aftur í ágúst 2013, þá er strax komið smá toppkal. Á þriðju myndinni er sama tré í júní og ágúst 2014 þegar hann hafði kalið niður, hugsanlega vegna þess að honum var óvart plantað í kuldapolli. Nýr vöxtur frá rót var kominn vel á veg í ágúst. Í riti Ólafs Sturlu í Náttahaga Aukin fjölbreytni í yndisskógrækt (2009) er skýrt tekið fram að ekki skuli staðsetja garðahlyn "í lægðum þar sem kalt loft safnast fyrir".


Sá breiðari í ágúst 2012 ...
... og í ágúst 2013.
Í lok júní 2014 var hann enn í sæmilegum gír.
Í hinni tilrauninni voru þrír garðahlynir úr Þöll settir niður í grónu sumarhúsalandi nálægt Hellu. Tveir í sæmilegu skjóli en einn sem stóð berskjaldaður fyrir sunnan- og vestanáttum og að nokkru fyrir norðanátt. Ári seinna litu þér út eins á meðfylgjandi mynd.


V. Þeir stækka og stækka
Garðahlynur gróðursettur árið 1922 að Laufásvegi 49 (Sturluhallir) var valinn borgartré Reykjavíkur 2014. Hlynurinn mældist 10,2 m á hæð og bolurinn 2,02 m í ummál þar sem hann er sverastur. Hér að neðan eru stærðir á garðahlynum árið 1991, einum við Bragagötu og tveimur við Laufásveg.
Þórarinn Benedikz: Stærð ýmissa trjátegunda á Íslandi.
Skógræktarritið 1991, bls. 64.
Tréð við Laufásveg 59 í ágúst 2014.
Á meðfylgjandi línuriti sést vaxtahraði garðahlyns í Vesturbænum frá 1952 til 2002. Ritið er úr greininni Fimmtíu ára vaxtar- og þroskasaga hlyns í Reykjavík eftir Sigurð Þórðarson í Garðyrkjuritinu 2002 [PDF 13,86 MB]. Meðalhækkun 20 cm á ári en meðaltalshækkun síðustu 15 áranna dottin niður í rúmlega 11 cm árlega. 
Sögunni fylgir að fyrstu árin hafi allt að þriðjungur árssprotanna kalið
í haustfrostum en það hafi ekki komið að sök vegna þess hve kröftugur
vöxturinn var á hverju sumri. Tréð var orðið 10,25 m í feb. 2002.

torsdag den 30. januar 2014

Fáein orð um fjallafuru

Hin tveggja nála fjallafura (pinus mugo) er á norsku kölluð runnafura (n. buskfuru). Lystigarður Akureyrar útskýrir að vaxtarlag hennar líkist vaxtarlagi runnafuru (Pinus pumila) en sú fura sé með fimm nálar í knippi (Norðmenn kalla hana "Sibirsk dvergfuru"). Vaxtarlagi fjallafuru er svo lýst á vef Lystigarðsins:
Runni með uppréttar greinar eða með lágan stofn og keilulaga krónu eða jarðlægur runni, með marga hnébeygða stofna. 
Lágvaxnara afbrigðið (pinus mugo var. 'Pumilio') er nefnt dvergfura.
Orðabanki Íslenskrar málstöðvar skilgreinir fjallafuru sem barrrunna. Á vef norska ríkisútvarpsins NRK segir að hún geti vaxið í rýrum jarðvegi, kjósi næringarríkan jarðveg en þoli þungan (leirkenndan) jarðveg (etabler på næringsfattig jord / foretrekker humusrik jord / tåler tung (leirholdig) jord). Einnig að hún þoli þurrk og sé mjög vindþolin. Könglar séu 2,5 cm langir og þá sé að finna á toppi árssprota næstliðins árs (i toppen av forrige årsskudd).
Stæðileg fjallafura við Árbæjarlaug.
Fjallafurufræ eru svipuð að þyngd og stafafurufræ, um 4,5 mg. Könglarnir geta verið á trjánum í þrjú ár og eru tiltölulega auðlosaðir.

Hákon Bjarnason skilgreindi fjallafuru ásamt broddfuru sem háfjallafurur, í greinarstúf árið 1980: 
Fjallafura er ein 10 til 15 ár að búa um sig eftir gróðursetningu og vex þá nauðalítið, en eftir það tekur hún vaxtarkipp og bætir miklu við hæð sína á skömmum tíma. 
Af stúfnum má einnig ráða að fjallafuru sé ekki vel við flutninga, en þó segir á vefnum að yfirleitt myndi hún ekki stólparót og því sé auðvelt að umplanta henni, ólíkt öðrum furum ("normally does not produce a tap root so is easy to transplant.")

Á gardplontur.is kemur fram að fjallafura sé harðgerð og þurfi sólríkan vaxtarstað eða hálfskugga. Hún vaxi hægt og þurfi skjól fyrstu árin. Best þrífist hún í súrum, vel framræstum jarðvegi.
Lokaðir könglar.
Opnir könglar og fræ.
Gott ráð frá Gróðrarstöðinni Þöll:
Til að fá fjallafuru/dvergfuru til að verða þétta er mikilvægt að brjóta brumin/árssprotana til hálfs um eða upp úr miðjum júní. Sérstaklega á þetta við furur sem hafa löng brum/árssrota. Þetta er gert á hverju sumri eða annað hvert ár. Ekki er hægt að klippa/saga niður furur og ætlast til þess að þær vaxi aftur upp.
Í umfjöllun Hákonar er greint frá því að fjallafura lifi almennt í 50-70 ár. Þess eru þó dæmi að trén verði mun eldri í nátturúlegu umhverfi:
In Lithuania some of the P.mugo trees planted in the Curonian Spit are now nearly 200 years old (Strakauskaite 2004a, 2004b).*
Fjallafura á fyrsta ári.
* Kúrlandseiði (d. den kuriske landtange) er 100 km langt og 0,5-4 km breitt sandrif (sandtangi) í Litháen, við Eystrasalt. Það er við Kúrland, sem Egill Skallagrímsson heimsótti forðum daga.

onsdag den 8. januar 2014

Flag í fóstur

Skæruræktun eða skærugarðyrkja (e. gorilla gardening) hefur verið skilgreind sem ræktun á landi sem er í umráðum annarra, án leyfis. Líkt og önnur skærustarfsemi er hún óregluleg og einstakar skærur gerðar án fyrirvara.

Á Íslandi hefur stundum verið talað um að taka flag í fóstur, segja má að það sé sú skæruræktun sem landið bjóði hvað helst upp á. Kjörorðið "flag í fóstur" á reyndar vel við um uppgræðslu á Íslandi almennt.
Börn fóstra flag, Mbl. 25. maí 1996
Ef erfitt er um áburðargjöf, í formi lífrænna efna eða tilbúins áburðar, þá kemur til greina að sá stafafuru. Auðvelt er að safna fræi af stafafuru nú til dags og það sama á við um birkifræ. Ef birki er sáð þá er æskilegt að gefa áburð eða sá lúpínu meðfram sáningunni, nema gisin lúpínubreiða sé til staðar. Græðlingar koma líka til greina og varla er til sá trjágróður hér á landi sem jafn auðvelt er að fjölga og ösp. Sá er þetta ritar hefur dundað sér við að stinga niður aspargræðlingum hér og þar, á stöðum þar sem ætla má að ekki verði amast við þeim.

"Besta (og jafnframt einfaldasta) aðferðin til að koma aspar- og víðigræðlingum til trjáa er að stinga þeim beint á fyrirhugaðan ræktunarstað snemma vors [...]" segir Gapripill á malefnin.com, 7. maí 2006, og bætir við:
Ef græðlingar eru í góðu ástandi þegar þeir fara í jörð snemma vors ættu lífslíkur þeirra að geta verið góðar. Mín reynsla er sú að árangurinn er á bilinu 90-100%. Á rýru og illa grónu landi verður hins vegar að sjá til þess að plöntur sem vaxa upp af græðlingum séu vel nærðar. Það er best tryggt með því að sáldra fáeinum kornum af tilbúnum áburði (alls ekki of mikið) við græðlinginn fyrsta vorið 2-4 vikum eftir stungu (t.d. þegar komið er fram í júníbyrjun).
Flag í fóstur, Þjóðviljinn 1. júní 1989,
Ríkharður Ásgeirsson, Garðar og Gróður, bls. 4
Flag í fóstur, Pressan 5. mars 1992,
Ríkharður Ásgeirsson frh.

fredag den 3. januar 2014

Broddfurufræ og stafafurufræ

Síðuhaldari rakst nýverið á þroskaða köngla á broddfuru, við opinbera byggingu í Kópavogi sem reis árið 1994. Gera má ráð fyrir að plantan hafi verið a.m.k. 5-6 ára við gróðursetningu og því er hún líklega um 25 ára gömul í dag. Broddfuru var fyrst sáð á Hallormsstað árið 1903, í árdaga skógræktar á Íslandi, en fræið kom frá Colorado [i]. Þau tré eru talin hafa borið fyrst fræ í kringum 35-40 ára aldur.[ii]
Köngull stafafuru.
Önnur furutegund hefur hins vegar átt mun betra gengi að fagna hér á landi en það hin harðgerða og fjölhæfa landnemaplanta stafafuran. Stafafura er algengasta furan á Íslandi og mun stærstur hluti ræktaðra plantna vera af kvæminu Skagway, frá innri hluta Lynn Canal í suðausturhluta Alaska, samkvæmt því sem segir m.a. í BS-ritgerð Hönnu Bjargar Guðmundsdóttur frá 2012. Þar segir einnig að hún sé blendingur Pinus contorta subsp. latifolia (e. lodgepole pine) og Pinus contorta subsp. contorta (e. shore pine):
Rannsóknir á stafafuru á Skagway benda til þess að hún sé að mestu leyti blendingur undirtegundanna latifolia og contorta (von Rudloff & Lapp, 1987). [iii]
Seinni tíma rannsóknir benda þó til að Skagway heyri til undirtegundarinnar latifolia.[iii a]

Munur á fræjum og könglum.
Broddfurufræ vigta um 24,5 mg hvert fræ að meðtöldum vængnum.[iv] Fræ stafafuru eru á hinn bóginn fremur smá og eru um 200 þúsund í einu kíló.[v] Það gera 5 mg á hvert fræ og þau eru því fimm sinnum léttari en fræ broddfuru. Stafafurufræ eru að jafnaði svört, en ófrjó fræ oft flekkótt, ljósari á lit eða dumbrauð. [vi]
Broddfurufræ fremst, svo stafafurufræ og loks birkifræ.
Könglar stafafuru eru þráfastir á trénu, svo erfitt getur verið að losa þá, en könglar broddfuru eru aðlosaðir og detta yfirleitt af stuttu eftir að fræin þroskast.[vii] Líkt og með stafafurufræ er engin þörf á kaldörvun eða öðrum undirbúningsaðgerðum fyrir sáningu á fræi broddfuru.[viii]

Ágætis fræfjöldi úr fjórum broddfurukönglum.
Biðkönglar stafafuru.
Stafafura getur framleitt svokallaða serotina köngla (e. serotinous, mætti kalla þá biðköngla á íslensku). Slíkir könglar opnast ekki og dreifa fræjum sínum nema hiti fari upp í um 50 gráður. Hér er um að ræða aðlögun stafafuru að tíðum skógareldum á heimaslóðum og geta könglarnir haldið fræjunum í 30-40 ár. Erlendis geta þeir þó opnast vegna hita frá sólinni eftir að skógur hefur verið felldur. Fræin þola ekki hitameðferð í lengur en 60 sekúndur. [ix] Til að ná fræum úr biðkönglum eru þeir soðnir eða hitaðir í ofni [x] en ef um fáa köngla er að ræða má hita þá yfir kertaloga í stutta stund og heyrist þá strax og sést hvernig trjákvoðan sem innsiglar fræblöð köngulsins losnar. Til þess að fá könglana til að opnast up á gátt þarf að líkja eftir rigningu, þ.e. bleyta þá aðeins:
Heat causes the resin to melt, then after wetting (which ensures that the fires are over), the cones open when they next dry out, the seeds fall to the bare ground to begin a new forest. [xi]
Í nemendaverkefni Sighvats Jóns Þórarinssonar og Sæmundar Kr. Þorvaldssonar við LbhÍ frá 2006 er því haldið fram að það séu meginladsfurur sem opna ekki köngla nema við hita, en könglar strandfuru eigi ekki við þetta vandamál að stríða.

Hér fyrir ofan er sjö sekúndna hljóð- og mynddæmi, biðköngull að opna sig sökum hita.
Fræ úr rúmlega 20 könglum stafafuru. Á efri myndinni
sjást fjórir biðkönglar sem ekki opnuðust.
Stafafurufræ, mismunandi stærð fræja og litir á frævængjum.
Fræstærð getur ráðist af aðstæðum en einnig af undirtegundum.
Þannig ber undirtegundin latifolia talsvert þyngri fræ en contorta [v].

[i] Skógræktarritið 1958, bls. 118,
http://skog.is/skjol/Rit1958/files/assets/basic-html/page118.html

[ii] Hákon Bjarnason: Um fræþroska á trjám. Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 1977, bls. 27.

[iii] Hanna Björg Guðmundsdóttir: Útbreiðsla stafafuru (Pinus contorta) undir Staðarfjalli í Suðursveit (2012),
http://hdl.handle.net/1946/10774

[iii a] Christensen, K.I.: A morphometric study of the geographic variation in Pinus contorta (Pinaceae). Nordic Journal of Botany 23, s. 563-575. 2005.
Sjá einnig: Knud Ib Christensen: Klit-fyr (Pinus contorta) i Danmark: variation og tilpasning. Dansk Dendrologisk Årsskrift 21 (2003), 5-49, http://www.dendron.dk/aarsskrift/docs/157.pdf

[iv] Germination of Pinus aristata Engelm. William H. Reid: The Great Basin Naturalist
Vol. 32, No. 4 (December 31, 1972), pp. 235-237
http://www.jstor.org/discover/10.2307/41711355?uid=3738288&uid=2&uid=4&sid=21103193599241

[v] James E. Lotan and William B. Critchfield - Lodgepole Pine,
http://www.na.fs.fed.us/pubs/silvics_manual/Volume_1/pinus/contorta.htm

[vi] PestWebNZ - Contorta pine,
http://pestweb.nzpps.org/print_species.php?sp=48

[vii] Fryer, Janet L. 2004. Pinus aristata. In: Fire Effects Information System,
http://www.fs.fed.us/database/feis/plants/tree/pinari/all.html

[viii] University of Connecticut Plant Database - Pinus aristata - Bristlecone Pine, Hickory Pine - Pinaceae,
http://www.hort.uconn.edu/plants/p/pinari/pinari1.html

[ix] Frida Carlstedt: Kan risken för spontan contortaföryngring elimineras genom hyggesbränning? (2009),
http://www.phd-forestry.se/Ingegerd-Backlund-Introduction-essay-100318.pdf

Sjá einnig Anderson, Michelle D. 2003. Pinus contorta var. latifolia. In: Fire Effects Information System,
http://www.fs.fed.us/database/feis/plants/tree/pinconl/all.html

[x] Native Plant Nursery - Glacier National Park - Pinus contorta Dougl.ex Loud. latifolia Engelm. ex S. Wats.,
http://www.nativeplantnetwork.org/Network/ViewProtocols.aspx?ProtocolID=236&referer=wildflower

[xi] Manor House Arboretum - Lodgepole Pine, http://www.pennine.demon.co.uk/Arboretum/Pico.htm

Úr Laufblaði Skógræktarfélags Íslands 1993.