mandag den 25. april 2016

Kirsuberjatré - Sunburst sætkirsi sem dó

Það var bara tímaspursmál hvenær síðuhaldari tæki þátt í ávaxtatrjáatískubylgjunni sem skall hér á fyrir nokkrum árum.

Um miðjan ágúst 2014 var sett niður fuglakirsuber 'Sunburst' (Prunus avium 'Sunburst') frá Garðheimum, á suðursvölunum skjólsælu. Grunnstofninn er 'Colt' (Prunus avium x Prunus pserudorcerasus). 'Sunnburst' er frá Bresku Kólumbíu í Kanada og ræður við stutt sumur á meðan 'Colt' er upprunið í Englandi og takmarkar hæð trésins auk þess að rótarkefið er grynnra en ella.

Á thompson-morgan.com segir að óhætt sé að rækta 'Sunburst' í kerjum þegar það er ágrætt á grunnstofninn 'Gisela 5', sem er dvergstofn (e. dwarfing rootstock):
This cherry is well suited to growing in small spaces and 60cm (2') diameter containers, or trained against a wall. 
Colt er hins vegar skilgreindur sem meðaldvergstofn (e. semi-dwarfing). Tilraunin sem lagt var upp með gekk ekki betur upp en svo að sumarið 2015 vaknaði tréð ekki af vetrardvala og á endanum var það úrskurðað dautt.

Hér eru engu að síður ýmsar upplýsingar um Sunburst og umhirðu kirsiberjatrjáa almennt sem tengjast tilrauninni.

Annað hvort er að leyfa kirsuberjatré (kirsiberjatré) að verða stórt með mikla krónu og tína aldinin með hjálp stiga, eða velja eina grein sem topp og stytta hinar greinarnar niður í 20 cm og eru þá þrjú til fjögur brum skilin eftir. Ef greinarnar eru hins vegar orðnar sverar (tréð ekki verið snyrt lengi) þá skal miða við 50 cm lengd.

Afrakstur klippingarinnar er keilulaga króna sem auðvelt er að tína af og tekur ekki á sig mikinn vind. Klippt er við brum sem vísar út frá trénu svo ný grein vaxi ekki inn að eða samhliða stofninum.

Framangreind ráð um klippingu eru einkum ættuð frá Garðyrkjuframleiðslu LBHÍ. Á plantetorvet.dk er mælt með því að engin grein fái að standa lengur en í fjögur ár, ef ætlunin er að hámarka uppskeru:
Ved en regelmæssig foryngelse af grenene sikres hvert år mange søde kirsebær (ingen grene mere end 4 år gamle). 
Í Garðheimablaðinu 2011 er ráðlagt að leyfa hliðagreinum ekki að verða þykkari en sem nemur þriðjungi af þykkt stofnsins. Klippa skuli af þriðjung hliðargreina ár hvert til að yngja tréð upp.

Kirsuberjatré hjá Ingibjörgu í Hveragerði.

Tréð komið á svalirnar.
Ef tilbúinn áburður er notaður má hafa hliðsjón af ráði Óla í Nátthaga: Strá ca. 40 grömmum af blákorni í kringum tréð á ca. 60x60 cm flöt um miðjan apríl. Næringin nær þá að leysast upp og nýtast trénu. Lúka af lífrænum áburð á borð við moltu er einnig vel þegin og 10 grömm af garðafosfati ef þurfa þykir. Fínt er að gera þetta um 6 vikum fyrir blómstrun. Blómstrun er oft ekki fyrr en í byrjun júní t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu.

Sunburst er sjálffrjóvgandi yrki en annars eru sætkirsi það sjaldnast. Engu að síður hámarkar frjóvgun frá öðru yrki uppskeru. Sunburst er blendingur milli 'Van' og 'Stella' samkvæmt því sem segir á dyrkfrugt.dk.

Á vorin og á haustin þarf að vera á verði fyrir skordýrum sem gera sér mat úr blómum og laufum. Þetta eru einkum fiðrildalirfur. Hin svarta kirsiblaðlús / kirsuberjablaðlús (Myzus cerasi, n. kirsebærbladlus, e. black cherry aphid) getur einnig verið vandamál, sér í lagi ef hún er ekki stöðvuð áður en blöðin fara að krumpast. Hún verpir á brum og börk. Úðun með grænsápublöndu (brúnsápa virkar eins) og parafínolíu (Florina) fyrir laufgun mun hafa gefið góða raun gegn þessum vágesti.

Rótarskotunum sem koma af grunnstofninum sem Sunburst yrkið er ágrætt á má koma til og nota til ágræðslu ef vilji er fyrir hendi.
Sætt lítið 'Sunburst' í aldinlundinum í Yndisgarðinum, Fossvogi.